Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 23:54:57 (3497)


     Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. um afstöðu Framsfl. Ég vil vekja athygli á því að við höfum nýlega haldið fjölmennt og mjög gott flokksþing þar sem ítarlega var um málið fjallað. Þar varð niðurstaðan sú að flokksþingið mælir ekki með því að greiða þessum samningi atkvæði. Það tel ég afar viðunandi niðurstöðu. Hitt er svo alveg ljóst að menn geta haft mismunandi mat á stjórnarskrárþætti þessa máls, það gera lögfræðingarnir. Ég er í engum vafa um að þetta er brot á stjórnarskránni. Menn hljóta einnig að hafa mismunandi mat á efnisatriðum þessa samnings. Ég vek athygli á því að hv. þm. hafði allt annað mat á samningnum í upphafi viðræðnanna en hans flokksmenn. Hann fór ekkert leynt með það. Mér fannst það ekki óeðlilegt í svo viðamiklu máli.
    Aðeins út af því sem sagt var áðan um fyrri ríkisstjórn og að ég hafi séð hlutina fyrir. Ég lýsti því áðan að í fyrri ríkisstjórn var mjög náið samstarf og satt að segja tel ég að við höfum haft miklu betra taumhald á hæstv. utanrrh. en nú er og þar sé æðimikill munur á.