Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 01:25:04 (3520)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það virðist ekki alveg hafa komist til skila, og er raunar dálítið sérkennilegt, að ýmislegt hefur breyst. Það var alla tíð fyrirvari af hálfu stjórnarandstöðunnar að það yrði breyting á þessu samkomulagi ef þjóðaratkvæðagreiðsla í Sviss færi á þann veg sem hún gerði. Það á ekki að þurfa að koma nokkrum manni á óvart að þessi breyting varð. Það er líka svo að ekki voru allir sáttir við þann knappa tíma sem ætlaður var fyrir 2. umr., jafnvel þótt að þessi viðbót hefði ekki komið, en menn höfðu þó alla vega möguleika á því að halda áfram við 3. umr. sem var kannski neyðarkostur fyrir suma. En það þarf ekki að vera neinum undrunarefni að þessi umræða er jafnátakamikil og hún er vegna þess að á Íslandi er staðið mun ólýðræðislegar að málum en í öllum hinum EFTA-ríkjunum. Ég rakti það í dag og ætla ekki að fara að endurtaka, en ég hef útskrift af því hvernig þessum málum er háttað ef einhver efast um mitt mál. Það er einfaldlega þannig að hér er verið að reyna að knýja í gegn úrslit með litlum þingmeirihluta, ef hann verður þá fyrir hendi, í máli sem varðar marga. Það hlýtur að vera réttur okkar og skylda sem erum

ekki sátt við þessi vinnubrögð að reyna að tala um fyrir þeim sem ætla að hafa þennan hátt á og það krefst tíma. Það er ekkert launungarmál að þetta er stórt, viðamikið og margslungið mál og enn er von til þess að eitthvað breytist.