Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 01:31:26 (3524)

     Kristín Ástgeirsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Mörg rök hníga að því að skynsamlegt væri að láta þessari umræðu lokið, bæði það sem snýr að þeim þingmönnum sem eiga eftir að mæla fyrir nál. og er, eins og ég hef áður sagt í kvöld, ekki upp á það bjóðandi að þeir séu að fara í gegnum sín nefndarálit um miðja nótt. Það er líka annað sem vekur athygli sem er náttúrlega ástandið í Alþfl. því hér ber engu saman og því mundi ég halda að full ástæða væri til að gera hlé þannig að Alþfl. gæti komið sér saman um það hvað hann vill gera. Hv. 17. Reykv., þingflokksformaður Alþfl., er farinn að ræða að það þurfi að afgreiða einhver önnur mál fyrir jól en EES, en formaður Alþfl. sagði í útvarpi fyrr í kvöld, ég hlustaði á það í fréttum, að það lægi mest á því að afgreiða EES-málið en staða annarra mála er viðunandi, sagði hæstv. utanrrh.
    Ég vil leggja það til, virðulegi forseti, að gert verði hlé á þessum fundi þannig að sérstaklega Alþfl. geti komið sér saman um hvað beri að gera í þessum málum.