Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 01:33:30 (3526)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Forseti hefur valdið í þessum efnum og auðvitað mun meiri hlutinn ráða framgangi máls en ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að kostir eru tveir í þessari stöðu. Velji forseti þann kost að halda umræðu áfram þá kvarta ég ekkert undan því enda vanur vökum og að vinna á nóttu ef með þarf. En ég vildi benda forseta á að það mun óhjákvæmilega hafa áhrif á störf þingnefnda. Skv. 20. gr. þingskapalaga er ekki unnt að halda þingnefndafundi á meðan á þingfundum stendur nema allir þingmenn samþykki. Forseti verður því að gera sér ljóst að verði haldið áfram umræðu eins og útlit er fyrir að forseti hafi ákveðið þá mun hún að sjálfsögðu standa nokkurn tíma. Ég sé ekki að þingmenn sem sinna lögboðinni skyldu sinni skv. 53. gr. þingskapa, að vera hér á þingfundi, uni því ef fundur stendur mikið lengur að mæta á þingnefndafundum kl. 8 í fyrramálið. Þaðan af síður ef þingfundur mun þá standa enn. Þetta vildi ég að forseta væri alveg ljóst. Enn fremur vil ég minna forseta á að samkvæmt viðverutöflu eru einungis 15 stjórnarliðar í húsinu af 36 og ég vildi gjarnan að forseti gerði þingheimi grein fyrir því hversu margir af þeim 21 sem eru fjarverandi hafa fjarvistarleyfi þannig að ljóst sé hverja vantar. Óhjákvæmilega hlýtur maður að gera þá kröfu til þingmanna verði fundi fram haldið að jafnt gangi yfir alla í þessum efnum og menn mæti hér og sinni þinglegum skyldum skv. 53. gr. þingskapalaga.