Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 13:36:53 (3538)

     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Ég get út af fyrir sig nýtt mér þann rétt að segja örfá orð undir dagskrárliðnum um þingsköp. Ég hafði að vísu hugsað mér að það félli eins undir það að segja örfá orð um dagskrárliðinn sjálfan og átti von á því en geri ekki athugasemd við það. Það er samkomulag um að þessi umræða fari ekki fram nú. Málið er ekki enn tilbúið til þess að verða tekið til 3. umr. svo sem fram hefur komið hjá hv. formanni fjárln., Karli Steinari Guðnasyni.
    Það sem ég vildi aðeins vekja athygli á er að þó formaður hv. segi að störf nefndarinnar gangi vel, við höfum jú hist alla dagana frá því að 2. umr. fór fram og rætt um 6. gr. frv. og rætt við nokkra fulltrúa B-hluta stofnana, höfum við ekki enn þá fjallað neitt um stórmál eins og tekjuhliðina. Það er ekki enn þá byrjað að ræða um það mál neitt né heldur um þær hugmyndir sem virðast enn þá vera uppi um verulegar breytingar á útgjaldahliðinni. Sannast nú það sem ég ræddi tvívegis í seinustu viku að ég teldi að frv. væri vart tilbúið til 2. umr. þar sem í loftinu væru enn þá hugmyndir um verulegan niðurskurð á þeim fjárveitingum sem við vorum að fjalla um og samþykkja, hæstv. forseti, við 2. umr. Við skiptum t.d. upp fjárfestingarliðum, svo ég nefni dæmi, en í blaðafréttum í dag kemur fram að það sé nú unnið að því að skera þetta meira og minna allt saman niður aftur. T.d. segir hæstv. fjmrh. í blaðaviðtali við Morgunblaðið um helgina að það kunni að verða mjög erfitt að ná markmiðum um að halli fjárlaga verði 6,2 milljarðar kr. eins og að er stefnt.
    Orðrétt segir hann, með leyfi forseta: ,,Það kann að verða mjög erfitt að ná því markmiði en mér verður hvergi hvikað frá því. Þess vegna er fjárlagavinnunni alls ekki lokið eins og ýmsir hafa verið að gefa í skyn.``
    Mig langar líka til að lesa orðrétt örfáar línur upp úr Alþýðublaðinu í dag. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Lækkun ríkisútgjalda. Samkomulag um 800--900 millj. kr. til viðbótar tekið af framlögum til vegamála, viðhaldi opinberra bygginga, dómshúsi og markaðsátaki vegna EES. Ríkisstjórnin og þingmenn stjórnarflokkanna vinna nú hörðum höndum að því að finna leiðir til frekari sparnaðar í ríkiskerfinu. Samkvæmt heimildum Alþýðublaðsins mun hafa náðst samkomulag milli stjórnarflokkanna um helgina þar sem gert er ráð fyrir að 900 millj. kr. viðbótarlækkun á ríkisútgjöldum.``
    Ég spyr t.d.: Af hvaða viðhaldi? Það er nánast ekkert gert ráð fyrir neinum fjárveitingum til viðhalds í fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir eftir 2. umr. Hins vegar hefur verið rætt um að bæta við 500 millj. kr. til viðhaldsverkefna. Á að skera það niður sem ekki er enn þá komið inn í frv. eða hvað eru menn að tala um? Eru það aðferðirnar sem á að viðhafa eins og t.d. þegar hæstv. heilbrrh. segist ætla að spara 600 millj. núna en hann geti að vísu ekki sparað 600 millj. kr. sem hann lofaði að spara í haust? Er það hinn raunverulegi niðurskurður eða sparnaður?
    Mér finnst þetta dálítið furðuleg vinnubrögð, virðulegur forseti, og spyr í tilefni af þessu hvenær megi ímynda sér að 3. umr. geti farið fram. Ég heyrði það á ræðu hv. formanns að hann hefur ekki enn þá ákveðna dagsetningu í huga en einhvern tímann var stefnt á föstudaginn. Í dag er þriðjudagur. Öll vinnan í fjárln. þyrfti að fara fram og helst að ljúka á morgun þannig að fimmtudagurinn væri þá til að ganga frá nál. og hugsanlega

brtt. ef umræðan á að fara fram á föstudag.