Formleg afgreiðsla EES-samningsins

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 13:55:41 (3548)

     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. las upp hluta af bréfaskriftum okkar í gær varðandi umræður um þetta mál í utanrmn. Ég vil taka það fram að hann las ekki öll bréfin því ég lýsti því aldrei yfir að ég væri ekki reiðubúinn til að ræða þetta mál frekar. Spurningin var um það hvaða spurningu ætti að bera undir Lagastofnun og um það var greinilega ágreiningur okkar á milli. Það stóð heldur aldrei til hjá mér og hefur ekki verið að koma í veg fyrir að menn ræddu þetta mál áfram í utanrmn. Nú liggur hér fyrir bréf sem er skrifað til forseta Alþingis og það er að sjálfsögðu mat forseta hvernig brugðist er við slíkum bréfum sem til þingsins berast. Ég hef ekki séð þetta bréf frekar en hæstv. forseti þannig að ég get ekki annað en velt því fyrir mér sem ég hef heyrt í ræðum manna. En það hefur aldrei staðið á mér að efna til fundar í utanrmn.
    Ég vildi aðeins láta það koma fram að bréfaskiptum okkar hv. 1. þm. Norðurl. v.

lauk þannig í gær af minni hálfu að ég sagðist vera reiðubúinn til að ræða málin frekar og fjalla um það í nefndinni en hins vegar teldi ég ekki ástæðu til að leggja þá spurningu sem hv. þm. var með fyrir aðra. Því ég tel varðandi efni þessa máls ekki á valdi annarra en Alþingis að taka ákvörðun um hvort það sé hæft til meðferðar hér. Það er ágætt að fá álit annarra en það er á valdi okkar þingmanna að ákveða hvaða mál við tökum fyrir og hvort þau eru þingleg eða ekki. Mín skoðun er sú að þetta mál, eins og það liggur hér fyrir sé þinglegt í fyllsta máta, og vel til þess fallið að afgreiða það í þinginu. Sú skoðun mín hefur komið fram áður bæði hér í þingsalnum og á vettvangi utanrmn.