Formleg afgreiðsla EES-samningsins

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 13:59:36 (3551)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég árétta ósk mína um að utanrmn. komi saman og á fund nefndarinnar verði kallaður bréfritarinn, prófessor Björn Þ. Guðmundsson. Ég get ekki að því gert hvenær forseti les póstinn sinn. Ég tel hins vegar að efni bréfsins sé með þeim hætti að eyrum verði ekki lokað fyrir því og að við hljótum að hlusta á rök prófessorsins. Jafnframt tel ég eðlilegt að málið sé sent Lagastofnun til formlegrar athugunar. Ég hygg að hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason, hljóti að geta fundið tíma fyrir fundinn síðar í dag og eðlilegt að fundurinn sé undirbúinn þannig að ljóst sé að hægt sé að ná tali af prófessor Birni Þ. Guðmundssyni áður en fundurinn er boðaður. Ég er ekki að gera kröfu um að fundurinn verði haldinn nú þegar heldur að hann verði undirbúinn þannig að hann verði gagnlegur okkur og við náum sæmilegri sátt og niðurstöðu á þeim fundi. Ég tel hins vegar óhjákvæmilegt eftir að þetta bréf hefur borist og álit þessa virta fræðimanns að málið hljóti skoðun og þetta á sannarlega erindi inn í þessa umræðu.