Formleg afgreiðsla EES-samningsins

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 14:02:07 (3553)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegur forseti. Það er fullkomið aukaatriði hvenær þetta bréf er lagt í pósthólf manna. Ég vona að menn fari ekki að gera það að einhverju aðalatriði. Aðalatriði málsins er það að Alþingi Íslendinga, forseta þingsins og formönnum þingflokka hefur borist bréf frá prófessor í lögum við Háskóla Íslands, manni sem hefur embættisbréf frá forseta lýðveldisins til að kenna og túlka lög við æðstu menntastofnun þjóðarinnar. Í þessu bréfi er sagt alveg skýrt, eins og ég las hér áðan, með leyfi hæstv. forseta: ,,að íslensk lög leyfa ekki að lagafrv. verði að afgreitt frá Alþingi í óbreyttri mynd, hvorki með samþykki eða

synjun.``
    Ég upplýsti það áðan að ég hefði greint frá því í utanrmn. í gærmorgun að ég hefði verið að leita eftir áliti frá prófessor Birni Þ. Guðmundssyni og hv. þm. Björn Bjarnason, formaður utanrmn., skildi við málið þannig í nefndinni að einstakir nefndarmenn og nefndin sjálf mundi síðan hugleiða framhald málsins. Málið, samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði, var tekið fyrir í gær á grundvelli þess að hæstv. utanrrh. og hv. þm. Björn Bjarnason töldu að athugun á málinu hjá sérfræðingum EFTA og sérfræðingum utanrrn. væri þess eðlis að það væri gerlegt að taka frv. til meðferðar. Nú er komið í ljós að eini lögfræðingurinn sem nafngreindur var í utanrmn. að óskað væri eftir áliti frá, prófessor Björn Þ. Guðmundsson, hefur af sjálfsdáðum, því ég hef ekki óskað eftir að hann skrifaði þetta bréf, sent forseta Alþingis þetta bréf. Ef það hefði gerst í gær hefði málið staðið þannig, virðulegur forseti, áður en umræðan hófst að prófessor í lögum við Háskóla Íslands telur að íslensk lög leyfi ekki að frv. sé afgreitt. Það er eingöngu tímatöfin sem gerir það að verkum að menn töldu sig geta byrjað í gær.
    Ég sé satt að segja ekki hvaða tilgangi það þjónar, virðulegur forseti, að halda áfram umræðu um málið án þess að utanrmn. gefist tækifæri til að ræða við prófessor Björn Þ. Guðmundsson og ákveða hvort hún kallar aðra sérfræðinga til sín. Út af fyrir sig er kannski hægt að mæla fyrir nál., ég ætla ekki í sjálfu sér að leggjast gegn því, en á þessum degi er auðvitað alveg ljóst að utanrmn. verður að koma saman og fjalla um þetta mál nema forráðamenn ríkisstjórnarflokkanna séu svo heillum horfnir að þeim sé sama þótt þeir brjóti stjórnarskrána, þeim sé sama þótt þeir brjóti lög, þeim sé sama þótt þeir neiti þjóðaratkvæðagreiðslu, það sé alveg sama hvernig þeir nauðgi og níðist á stjórnarskrá og lögum landsins ef þeir bara koma sínum vilja fram. Hvert erum við þá komin með stjórnskipun lýðveldisins ef svo er?
    Ég vil þess vegna biðja forseta að hugleiða bréf þetta í mikilli alvöru og gera það ekki að höfuðatriði hvenær það kom í pósthólf forsetans. Það er fullkomið aukaatriði. Ég ítreka ósk mína um að á þessu síðdegi verði haldinn fundur í utanrmn. til þess að fjalla um þá nýju stöðu sem komin er upp í málinu.