Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 15:38:38 (3556)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er vissulega sérkennileg aðstaða sem þingflokkur Kvennalistans er í hér í tengslum við þetta mál. Hér hefur mælt fulltrúi þingflokksins í utanrmn. fyrir áliti sem er þannig upp byggt að þegar það er lesið aftur undir niðurstöður er það einn nokkuð samfelldur áfellisdómur um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, að vísu slegið úr og í sem er líka eitt af einkennum þessa nál. en síðan kemur að niðurstöðunum. Þá er eins og þingmaðurinn gangi inn í annan heim. Þá er ekki litið á þau rök sem fram eru reidd gegn samningnum í fyrri hluta nál. heldur skrifað upp á allt gumsið og þingmaðurinn boðar hér hjásetu en efnislegt samþykki við samningnum, samt hjásetu, en setur þó í nál. sitt á bls. 16, með leyfi forseta:
    ,,Í ljósi þeirrar umræðu um stjórnarskrárþátt EES-samningsins, sem hér hefur verið rakinn, telur undirrituð það orka verulega tvímælis, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, að ákvæði EES-samningsins um eftirlit og dómstól standist gagnvart íslensku stjórnarskránni.``
    Samt er það niðurstaða þingmannsins að sitja hjá við afgreiðslu málsins. Við hlýddum í gær á ræðu formanns Framsfl. sem ekki síst vegna stjórnarskrárþáttar málsins hefur ákveðið að greiða atkvæði gegn samningnum. Þessi þingmaður, sem hefur tekið allt aðra afstöðu heldur en Kvennalistinn að öðru leyti, ætlar líka að ganga gegn stjórnarskrá landsins og þeim sjónarmiðum sem fram eru reidd í nál. og af sérfræðingum og sitja hjá.