Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 15:43:28 (3558)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þingmaðurinn segist hafa nokkuð aðra skoðun en aðrar þingkonur Kvennalistans. Það er sérkennilegt mat. Ég sé ekki betur en þingmaðurinn hafi þveröfuga skoðun í öllum meginatriðum varðandi þetta mál við þingflokk Kvennalistans og stefnu Kvennalistans eins og hún liggur fyrir í samþykktum Kvennalistans nú síðast á þessu

hausti. Það er sannarlega rétt að það er velt vöngum í þessu nál. en það er samt komist að niðurstöðu. Auðvitað er það ráðgáta hvernig sú niðurstaða er fengin þangað til í raun kemur að því sem má lesa í niðurstöðum þingmannsins að höfnin sé Evrópubandalagið. Það er höfnin sem þingmaðurinn ætlar að sigla í og er í raun annar maður á Alþingi Íslendinga sem velur þann kost ásamt hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni að ganga þar nokkuð ótvírætt fram og vísa veginn inn í sjálft Evrópubandalagið. Ég dreg nú mjög í efa að þingmaðurinn megni að draga Kvennalistann og ég vona ekki meiri hluta Alþingis til þess að skrifa upp á þá stefnu.
    Varðandi afstöðu mína til bráðabirgðalaga sem þingmaðurinn nefndi þá tók ég ekki sérstaklega stjórnarskrárþátt málsins til meðferðar í því samhengi þó að ég drægi mjög í efa að þar væri farið að lögum. Það voru ástæður fyrir afstöðu minni að ég sat hjá sem tengdust þeim aðstæðum sem þá voru uppi og menn geta kynnt sér og ég gerði skýra grein fyrir.
    Alþb. hafði alltaf skýra fyrirvara varðandi EES-málið í ríkisstjórn. Hún liggur fyrir í samþykktum landsfundar flokksins og í ítrekuðum bókunum þingflokksins og greinargerðum sem fylgdu við málsmeðferðina stig af stigi og þingmaðurinn þarf ekki að segja mér neitt um það.