Evrópskt efnahagssvæði
83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 15:47:23 (3560)

     Frsm. 3. minni hluta utanrmn. (Ólafur Ragnar Grímsson ):
    Virðulegi forseti. Á undanförnum missirum hefur margt verið rætt og ritað um það mál sem hér er til umræðu. Það væri dálítið fróðlegt að velta því fyrir sér í upphafi umræðunnar hver hefði orðið dómur þorra alþingismanna fyrir fáeinum missirum ef brugðið hefði verið upp þeirri mynd að Íslendingar ættu að velja um aðild að Evrópsku efnahagssvæði við þær aðstæður að í fyrsta lagi hefði sterkasta efnahagslega ríkið innan EFTA, Sviss, hafnað aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Í öðru lagi lægi það fyrir að frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, sem eru utan Evrópubandalagsins og áttu að vera meðal höfuðþátttakenda í Evrópsku efnahagssvæði, hefðu ákveðið að yfirgefa það eins fljótt og auðið yrði og formlegar samningaviðræður milli Evrópubandalagsins og þessara norrænu ríkja, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands ásamt Austurríki um aðild þeirra að Evrópubandalaginu mundu hefjast áður en samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði tæki gildi.
    Ef þetta tvennt hefði legið fyrir fyrir fáeinum missirum þá er ég viss um að þeir hefðu ekki verið mjög margir á Alþingi Íslendinga sem hefðu komist að þeirri niðurstöðu að það væri skymsamlegt fyrir Íslendinga að halda áfram að ganga þessa EES-braut ef ljóst væri að á henni yrðu þessi vegamót að sterkasta efnahagsríkið innan EFTA segði nei og

Norðurlöndin mundu hefja samningaviðræður um aðild að EB áður en samningurinn um EES tæki gildi. Ég er nokkurn veginn alveg viss um að það hefði orðið niðurstaða þorra alþingismanna að við þær aðstæður væri skynsamlegt fyrir Íslendinga að leita að öðrum og varanlegri kosti í samskiptum við Evrópubandalagið en að hanga aftan í þessari EES-lest sem nú þegar er ljóst að kemst aldrei á þann brautarenda sem ætlað var í upphafi að einkenndi þetta svæði.
    Það hefur verið sagt í þessum umræðum að Evrópubandalagið mundi neita tvíhliða samningum milli Íslands og Evrópubandalagsins og það hefur líka verið fullyrt gott, ef ekki af hæstv. utanrrh., að Evrópubandalagið muni neita slíkum viðræðum við Sviss. Ég veit satt að segja ekki hvaðan mönnum kemur sú viska. Þvert á móti held ég að það liggi í hlutarins eðli að Evrópubandalagið hefur brýna hagsmuni af að leita slíkra samninga við Sviss. Sviss liggur þannig í hjarta Evrópu og er slíkt lykilland fyrir viðskipti og samgöngur milli Evrópubandalagsríkja að það er brýnt hagsmunamál fyrir Evrópubandalagið að leita eftir tvíhliða samningi við Sviss. Á sama hátt er einnig mjög hæpið að fullyrða það að Evrópubandalagið sem nú þegar hefur samþykkt að dæma EES úr leik eftir fáein missiri muni síðan neita Íslendingum um viðræður um hvað tæki við hvað Ísland snertir. Það er mjög merkileg staðreynd að t.d. hæstv. utanrrh. hefur aldrei horfst í augu við það að Evrópubandalagið hefur mótað þá stefnu að EES á ekki að vera til eftir nokkur missiri. Það er satt að segja alveg stórkostlegt að ákafinn í hæstv. utanrrh. er slíkur og veruleikablindni hans slík að hann talar alltaf um EES eins og hér sé á ferðinni varanlegt viðskiptakerfi í Evrópu. Með ákvörðun sinni á leiðtogafundinum í Edinborg þar sem staðfest var ákvörðunin frá leiðtogafundi Evrópubandalagsins í Lissabon og ákveðnar tímasetningar um aðildarviðræður við Austurríki, Svíþjóð og Finnland er Evrópubandalagið búið að segja eins formlega og hægt er að segja: Við ætlum að afskrifa EES eftir nokkur missiri. Hæstv. utanrrh. getur svo túlkað það og metið eins og hann hefur oft gert að það muni nú ganga erfiðlega að ljúka þessum aðildarviðræðum Svía og Finna og Austurríkismanna á 1--2 árum og þetta muni taka lengri tíma. Gott og vel. Við skulum jafnvel fallast á að eitthvað kunni að vera til í því, hæstv. utanrrh. En það breytir því ekki að stefnan hefur verið mörkuð. Stefna Evrópubandalagsins er að EES eigi ekki að vera til eftir nokkur missiri.
    Ég hef stundum orðað það þannig að ég skilji ekki hvers vegna hæstv. utanrrh. hefur ekki verið reiðubúinn að horfa af raunsæi á þær breytingar sem orðið hafa á veröldinni á þeim þremur árum eða svo sem þessi vegferð hefur tekið. Hann talar í málinu þessa sólarhringana eins og ekkert hafi gerst síðan 1989. Evrópa sé eins, EFTA sé eins, stefna Evrópubandalagsins sé eins. Nú er hann samt sem áður sá Íslendingur sem hefur haft besta aðstöðu allra okkar til þess að kynnast af eigin raun með viðræðum við forustumenn Evrópuríkja, bæði þeirra sem eru í EB, þeirra sem eru í EFTA, þeirra sem tilheyra Austur-Evrópu að þetta er auðvitað allt öðruvísi. Ég hef nú saknað þess mjög að hæstv. ráðherra skuli ekki í framgöngu sinni í málinu hafa forustu um það að hefja á Íslandi umræður um hvernig Íslendingar eigi að bregðast við í þessum breyttu aðstæðum.
    Eins og fram hefur komið oft og mörgum sinnum í umræðunni um Evrópskt efnahagssvæði þá vorum við ráðherrar Alþb. og þingflokkur Alþb. að öllum meginhluta sammála því 1989 að reynt yrði að ná samningum milli EFTA og EB um slíkt viðskiptakerfi sem menn ætluðu að Delors hefði verið að lýsa í frægi ræðu sinni.
    Hvers vegna vorum við ráðherrar Alþb. og þorri þingflokks Alþb. fylgjandi því að þetta yrði gert? Ástæðurnar voru nokkrar. Í fyrsta lagi töldum við að við Íslendingar hefðu beina hagsmuni af því að tengjast viðskiptaþróuninni í Evrópu. Evrópa væri mikilvægt markaðssvæði fyrir okkur og við hefðum einnig stjórnmálaleg og menningarleg tengsl við þennan heimshluta.
    Í öðru lagi töldum við að með því að þorri Norðurlanda ætlaði um nokkuð langan tíma að skipa sér undir merki þessa svonefnda tveggja stoða kerfis, þá mundum við eiga að mörgu leyti eðlilega og auðvelda samleið með þessum frændþjóðum okkar í hinu nýja viðskiptakerfi í Evrópu. Þar með væri hægt að tvinna saman nálægð okkar við Norðurlöndin og norræna samvinnu og hina evrópsku þróun.

    Í þriðja lagi náðist sá árangur innan EFTA að mótuð var stefna um frjáls viðskipti með sjávarafurðir. Það var í fyrsta sinn sem EFTA hafði verið reiðubúið að fallast á slíka stefnu og það var tvímælalaust mikill styrkur fyrir Íslendinga að geta mætt til viðræðna við Evrópubandalagið með þennan stuðning EFTA-ríkjanna við grundvallarhagsmuni okkar í sjávarútvegi að bakhjarli. Við höfðum glímt við það síðan 1976 að fá Evrópubandalagið til þess að fallast á slík sjónarmið, því miður án mikils árangurs. Þessar ástæður sem ég hef hér rakið voru þrjár höfuðástæður þess að við töldum skynsamlegt að fara í þessar viðræður. Það verður hins vegar að segja þá sögu eins og hún er í reynd sinni að á viðræðuferlinu hafa orðið miklar breytingar á þessum meginforsendum. Ég segi það aftur að mér hefur fundist miður að hæstv. utanrrh. hefur aldrei verið reiðubúinn í raunhæfar, pólitískar umræður um það hvaða ályktanir megi draga af þessum breyttu forsendum.
    Hvað er það sem hefur gerst? Við skulum fara yfir það. Í fyrsta lagi er auðvitað deginum ljósara að EES verður ekki það varanlega tveggja stoða viðskiptakerfi Evrópu sem ætlunin var í upphafi. Það er staðreynd. Það er enginn maður sem deilir um það lengur. Í besta falli, hæstv. utanrrh., getur EES orðið nokkurra missira biðstofa fyrir þau lönd EFTA sem eru búin að sækja um aðild að Evrópubandalaginu og í öðru lagi nokkurra missira biðstofa fyrir þau lönd sem ekki sækja um aðild að Evrópubandalaginu og þurfa að koma sér upp tvíhliða samningi milli Íslands og Evrópubandalagsins. Þess vegna hefur mér fundist dálítið út í hött að hæstv. utanrrh. skuli hafa talað svona sterkt um það að við getum ekki náð tvíhliða samningi við Evrópubandalagið vegna þess að það blasir alveg við að ef við ætlum ekki að ganga í Evrópubandalagið þá eigum við engan annan kost en að ná slíkum tvíhliða samningi af því að EES getur ekki dugað. Þetta er nú það fyrsta sem hefur breyst, að sjálf grunnhugmyndin að Evrópska efnahagssvæðinu er ekki lengur fyrir hendi.
    Annað atriðið sem hefur breyst er að á þessum árum hefur Evrópubandalagið sjálft tekið verulegum breytingum. Maastricht-ferlið sem er eins konar samnefnari fyrir þessar stjórnmálalegu breytingar hefur auðvitað afhjúpað með margvíslegum hætti að innri vandamál Evrópubandalagsins eru kannski miklu umfangsmeiri og erfiðari úrlausnar en margir töldu fyrir 3--4 árum. Eitt af því er þessi mikla þversögn milli kröfunnar um efnahagslega einsleitni annars vegar og lýðræðisins hins vegar. Við sáum það á leiðtogafundi Evrópubandalagsins í Edinborg um síðustu helgi að glíman við lýðræðið er eitt af stærstu vandamálum Evrópubandalagsins. Forustumenn bandalagsins viðurkenna að það skortir mjög á að grundvallarlögmálum lýðræðisins sé fylgt í framkvæmd innan Evrópubandalagsins. Engu að síður er það svo að öflugasti ákvörðunaraðilinn samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði á að vera stofnanir Evrópubandalagsins í Brussel.
    En það er margt fleira sem lítur öðruvísi út í dag en það gerði fyrir nokkrum missirum síðan. Það er hægt að vitna í ýmsa stuðningsmenn EES á Alþingi sem fyrir fáeinum árum tóku þátt í því að draga upp mjög glæsta mynd af því sem oft var kallað Evrópska hraðlestin. Þróunin í Evrópu átti að vera það sem menn gætu lagt traust sitt á, Evrópubandalagið væri að leiða álfuna inn í efnahagslegar framfarir, inn í nýjan stöðugleika, inn í félagslegt öryggi, inn í nýja hernaðarlega samvinnu. Meira að segja hæstv. viðskrh. hélt nokkrar ræður um að mjög brýnt væri fyrir Íslendinga að tengjast gjaldeyrissamstarfi Evrópubandalagsins, tengja íslensku krónuna við ECU, gera Ísland að þætti í myntsamstarfi Evrópubandalagsríkjanna í kjölfar tengsla Noregs og Finnlands við myntsamstarf, gjaldeyrissamstarf Evrópubandalagsins. Það er dálítið leitt að hæstv. viðskrh. skuli hafa vikið sér úr þingsalnum vegna þess að eitt af því sem væri dálítið skemmtilegt að hann gerði í þessari umræðu væri að lýsa fyrir okkur hvernig þetta er allt saman í rúst og upplausn. Hvert ríkið á fætur öðru hefur verið að segja sig frá gjaldeyrissamstarfi Evrópubandalagsríkjanna. Meira að segja Bretland hefur ekki treyst sér til annars en að segja sig frá því. Sá fjmrh. eða viðskrh. á Norðurlöndum sem stæði upp í dag og segði: Við skulum tengja okkar mynt við gjaldeyrissamstarf Evrópubandalagsríkjanna yrði hleginn út úr þingsalnum. Enda er hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson hættur að flytja þessa ræðu, a.m.k. í bili, vegna þess að atburðarásin hefur sýnt að þetta var ekki raunhæft. Gott ef það stendur ekki í

stefnu núv. ríkisstjórnar eða í yfirlýsingu hæstv. viðskrh. fyrir nokkru síðan að fyrir árslok 1992 eigi að tengja Ísland við ECU. --- Rifjum bara upp hvað sagt var á síðasta vetri af hæstv. viðskrh. En það er fleira sem hefur gerst.
    Ég las áður en ég kom inn í þingsalinn Morgunblaðið frá í dag. Þar stendur á forsíðu að ráðherra í þýsku ríkisstjórninni hafi sagt sig úr ríkisstjórninni í gær vegna þess að hann taldi nauðsynlegt að lýsa fyrirlitningu sinni á afstöðu þýsku ríkisstjórnarinnar og annarra ríkisstjórna í bandalagi Þýskalands við önnur Evrópuríki, í Vestur-Evrópubandalaginu og Evrópubandalaginu, á afstöðunni til borgarastyrjaldarinnar og hörmunganna í fyrrum Júgóslavíu. Það er nefnilega staðreynd að í hjarta Evrópu geisar nú hatrömm styrjöld, miskunnarlausari styrjöld en við höfum séð í áratugi þar sem konur og börn láta lífið, saklausum borgurum er slátrað af miskunnarleysi. Hinar miklu stofnanir Evrópu, höfuðvígi evrópsku hraðlestarinnar, gera ekki neitt. Ráðherrar eru byrjaðir að segja sig úr ríkisstjórnum, jafnvel Þýskalands, vegna þess að siðferðiskennd þeirra gerir þeim ekki lengur kleift að sitja í ríkisstjórn sem hefst ekkert að þegar í hjarta Evrópu er slík slátrun daglegur viðburður. Engu að síður er Vestur-Evrópusambandið hernaðararmur Evrópubandalagsins samkvæmt Maastricht-samkomulaginu og réttlætingin fyrir því er að það geti tryggt frið og öryggi í álfunni.
    Staðreyndin er nefnilega sú að þessi mikla evrópska draumsýn sem var hið pólitíska bakland fyrir þessum samningum hefur breyst í martröð. Jafnvel í slíka martröð að minningarnar frá tímum nasistanna birtast okkur óþyrmilega á sjónvarpsskerminum kvöld eftir kvöld. Richard von Weizsäcker, sá merki forseti Þýskalands, húmanisti, höfðingi og sómamaður, sem heimsótti okkur Íslendinga, getur ekki einu sinni haldið ræðu í höfuðborg Þýskalands án þess að æstur múgur nýnasista grýti hann svo að öryggisverðir verða að bregða skjöldum fyrir forsetann til að tryggja líf hans. Fyrrum formaður þýska jafnaðarmannaflokksins mátti þakka sínum sæla fyrir að sleppa úr höndum æstra öfgamanna í friðargöngu í Berlín og það lá við að hann yrði limlestur af hópum nýnasista. Hús eru brennd, heilar borgir eru á valdi öfgahópa og því miður er það þannig að vofa nasismans er farin að birtast á ný í þessu höfuðríki Evrópubandalagsins. Þetta eru því miður pólitískar staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við.
    Auðvitað er það þannig að fjarlægðirnar í veröldinni í dag eru allt aðrar en þær voru í síðari heimsstyrjöldinni. Samt sem áður hefur fjarlægð okkar Íslendinga frá atburðarásinni á meginlandi Evrópu verið okkur skjól í tveimur heimsstyrjöldum. Það er þess vegna ekki sjálfgefið, hæstv. utanrrh., að þegar slík óvissa ríkir um stjórnmálalega framtíð í Evrópu sé skynsamlegt fyrir okkur Íslendinga að stíga þar afdrifarík skref. Það geta nefnilega komið þeir tímar að skynsamlegt sé fyrir smáþjóð að bíða átekta. Ég veit að vísu að það er ekki mikill ,,glamor`` í kringum það pólitískt séð að bíða átekta. Stjórnmálamaður sem gerir ekki neitt er yfirleitt sakaður um aðgerðarleysi og árangur okkar sem hér sitjum er því miður oft mældur í því hvað menn hafi gert. Mig langar að minna hæstv. utanrrh. í þessu samhengi á það sem góður maður sagði einu sinni, það mikilvægasta við að stjórna sinfónísku verki væri að spila þagnirnar því ef þagnirnar væru ekki réttar yrði harla lítið úr sinfóníunni.
    Það er kannski að mínum dómi það sem ég helst vil gagnrýna hæstv. utanrrh. fyrir á undanförnum missirum, það er þessi ótrúlegi ákafi hans að Íslendingar eigi að ganga í alla þá klúbba og samtök sem þeim er á annað borð boðið í. Hann hefur ekki sest niður og íhugað í rólegheitum kosti þess fyrir smáþjóð á óvissutímum að bíða átekta. Í raun og veru er það ekki undarlegt þótt ýmsir dragi þá ályktun að eina rökræna skýringin á því hvers vegna hæstv. utanrrh. sækir þetta allt saman af svo miklu kappi sé að hann vilji í reynd tengja Ísland beint inn í Evrópubandalagið, að Íslandi eigi að ganga sömu braut og Noregur, Finnland, Svíþjóð og Austurríki. Ég ætla ekki að segja að svo sé. Ég kýs að trúa orðum utanrrh. og forsrh. að það sé ekki þeirra ætlun. En þessi braut sem ráðherrann er á felur í sér að það kann að verða mjög erfitt að stöðva sig.
    Ég vil t.d. spyrja hæstv. utanrrh., fyrst hann hefur talað af svona mikilli hörku gegn tvíhliða samningi milli Íslands og Evrópubandalagsins, hvernig hann ætlar að réttlæta það

kannski eftir eitt til eitt og hálft ár að nú þurfi Ísland að gera tvíhliða samning við Evrópubandalagið. Eða ætlar hann þá að hafna líka leiðinni um tvíhliða samning og segja: Fyrst hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa ákveðið að ganga í Evrópubandalagið verðum við að gera það líka til þess að verða ekki viðskila? Því miður er það þannig að málatilbúnaðurinn allur er með þeim hætti að sú spurning hlýtur að vakna.
    Ég vék að því áðan að það hefði verið afstaða okkar í forustusveit Alþb. 1989 að mikilvægt væri að láta reyna á það hvort farsælir samningar tækjust milli EFTA og Evrópubandalagsins í samræmi við þær grundvallarkröfur sem Íslendingar settu fram. Það var okkar skoðun að öflug alþjóðleg viðskipti væru forsenda fyrir framförum í efnahagsmálum og atvinnulífi þjóðarinnar og brýn nauðsyn væri fyrir okkur Íslendinga að eiga greiðan aðgang að mörkuðum fyrir útflutningsvörur okkar og skapa skilyrði til þess að við gætum notið gjaldeyristekna frá margvíslegum viðskiptum, sérstaklega á sviði þjónustugreina en einnig framleiðslu því ljóst væri að þjónustugreinarnar yrðu í sívaxandi mæli undirstaða okkar þjóðartekna.
    Víðtækir alþjóðlegir samningar um niðurfellingu tolla og aukið frjálsræði í efnahagssamskiptum þjóðanna eru meðal mikilvægra skilyrða þess að Íslendingar geti í framtíðinni búið við aukinn hagvöxt og treyst undirstöður efnahagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar. Í þessu sambandi er auðvitað nauðsynlegt að nefna GATT-viðræðurnar. GATT-viðræðurnar yrðu tvímælalaust eitt mikilvægasta skref þjóða heims í átt að frjálsræði í viðskiptum og aukinni hagsæld. Er það ekki athyglisvert, virðulegi utanrrh., hverjir það eru sem koma í veg fyrir árangur í GATT-viðræðunum? Ég vil óska eftir því að hæstv. utanrrh. fjalli í umræðunni með nokkrum hætti um það hvernig hann útskýrir þá þversögn að hann vill umfram allt að Íslendingar tengist formlega Evrópubandalaginu á sviði viðskipta vegna þess að það sé í nafni framfara en þetta sama Evrópubandalag er einmitt sá aðilinn sem hefur missirum saman komið í veg fyrir að árangur næðist í GATT-viðræðunum og mun kannski á endanum ná því fram að ekkert verði úr Úrúgvæ-lotunni í GATT-viðræðunum. Staðreyndin er nefnilega sú, hæstv. utanrrh., að það er Evrópubandalagið að dómi allra manna sem til þekkja sem er í dag helsta hindrunin í veginum fyrir því að víðtækur árangur náist í alþjóðlegum viðskiptum.
    Sumir hafa sagt að núverandi forseti Bandaríkjanna, George Bush, leggi á það mikið kapp að reyna að ljúka GATT-viðræðunum áður en hann fer úr embætti. Ég ætla ekki að fullyrða um það hér hvort það tekst. En ég held ég fari rétt með að samningsumboð Bandaríkjastjórnar, hver svo sem er forsetinn, renni út vegna afgreiðslu þingsins innan fáeinna mánaða. Ef Evrópubandalaginu tekst að koma í veg fyrir niðurstöðu í GATT-viðræðunum á næstu mánuðum þannig að það þurfi að leita eftir nýju samningsumboði á Bandaríkjaþingi er það auðvitað alveg ljóst að það er Evrópubandalagið sem er aðalhindrunin í því að efnahagskerfi veraldarinnar geti farið í öflugan gang á nýjan leik.
    Hæstv. forsrh. hefur sagt það nokkuð oft á undanförnum mánuðum að ein af skýringunum á því hvers vegna við Íslendingar eigum nú í erfiðleikum, sé að vélin í efnahagskerfi heimsins --- að vísu hefur hann ekki notað það orðalag en það er efnislega þannig --- hiksti um þessar mundir eða sé a.m.k. í hægagangi. Þetta er alveg rétt hjá hæstv. forsrh. Ein af ástæðunum --- þær eru að vísu margar fleiri --- fyrir því að Íslendingar búa við erfiðleika nú í okkar efnahagslífi er að hagkerfið í Evrópu og heiminum öllum er í miklum hægagangi. En hver er ástæðan fyrir þessum hægagangi? Þær eru að vísu einnig nokkuð margar en þó eru allir kunnáttumenn sammála um að annars vegar sé neitun Evrópubandalagsins í GATT-viðræðunum og hins vegar peningastefna Þýskalands og stefna þýska seðlabankans, sem er höfuðpeningamálastofnun Evrópubandalagsins. Það eru tvær af meginástæðunum fyrir því að ekki tekst að koma nýjum krafti í efnahagslífið í heiminum. Það verður eitt af lykilatriðunum á næstu missirum ef nýr forseti í Bandaríkjunum setur kraft í efnahagslífið þar með fjárfestingum og nýrri efnahagsstefnu hvort Evrópubandalagið og Þýskaland eyðileggi þann hugsanlega árangur með því að halda fast annars vegar við einstrengningslega afstöðu sína í GATT og hins vegar við þá peningamála- og vaxtastefnu sem þýski seðlabankinn hefur haldið til streitu. Í reynd blasir við okkur sú þversögn að sterkasti

aðilinn, Evrópubandalagið, á því efnahagssvæði sem ráðherrann og ríkisstjórnin vill endilega að við tengjumst er ein af ástæðunum fyrir því að við búum nú við óhagstæð ytri skilyrði.
    Þess vegna er það ljóst að það liggja margslungin efnahagsleg rök á bak við það að sú hagsæld, hagvöxtur og framfarir, sem kunna að leiða af aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, eru auðvitað í mikilli óvissu.
    Nú vil ég, virðulegi forseti, óska eftir því að hæstv. viðskrh. verði kallaður í salinn vegna þess að mig langar í beinu framhaldi af því sem ég hef sagt að leggja fyrir hann tvær til þrjár spurningar. Meðan ég bíð eftir hæstv. viðskrh. ætla ég hins vegar að víkja að því nokkrum orðum að auðvitað er það rétt sem fram hefur komið hjá hæstv. utanrrh. og mörgum öðrum að í þessum samningi, sérstaklega á sviði tollalækkana í sjávarútvegi, kunni að felast efnahagslegir ávinningar, skárra væri það nú að ekki sé eitthvað gott í málinu. Ég held hins vegar því miður að þeir ávinningar verði minni en spáð hefur verið og er reiðubúinn að færa fyrir því ýmis rök sem ég ætla hins vegar ekki að gera hér og nú. Mér finnst bæði hæstv. utanrrh., hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. hafa lokað augunum fyrir alvarlegum efnahagslegum hættum sem kunna að felast í þessu máli á næstu missirum. Nú veit ég ekki hvort hæstv. viðskrh. er í húsinu eða er væntanlegur í salinn, er hæstv. viðskrh. í húsinu? ( Forseti: Forseti veit ekki annað en hæstv. viðskrh. sé í húsinu og nú þegar hafa honum borist skilaboð.) Til þess að tefja ekki fyrir ætla ég samt að byrja á mínu spurningum til hans og vona að þeir ráðherrar sem hér eru flytji honum þær ef hann nær ekki í salinn.
    Mín fyrsta spurning víkur að því hvernig ráðherrann metur þær hættur fyrir íslenska bankakerfið sem kunna að liggja í málinu á næstu missirum? Bakgrunnur spurningarinnar felst í því að með þessum samningi og ýmsum öðrum ákvörðunum skapast auðvitað miklir möguleikar fyrir ýmis íslensk stórfyrirtæki að gera beina samninga við erlenda viðskiptabanka og tryggingafélög og ýmsa aðra aðila og hætta viðskiptum sínum við íslensku bankana. Gott og vel. Menn kunna að segja: Eru alþjóðleg samskipti og samkeppni í bankamálum ekki af hinu góða? Jú, það kann vissulega að vera svo ef peningastofnanir landsins eru nægilega sterkar til þess að taka þátt i þeirri alþjóðlegu samkeppni.
    Nú er það í blöðunum í dag að viðskrh. hafi fengið álit frá nefnd sem hann setti á fót um að breyta eigi Búnaðarbankanum og Landsbankanum í hlutafélög. Síðan reiknar hæstv. fjmrh. með því að um það bil 1 milljarður eða svo af tekjuhlið fjárlagafrv. á næsta ári komi vegna sölu hlutabréfa í a.m.k. annarri af þessum peningastofnunum. En eru hlutabréfin í Landsbanka Íslands og Búnaðarbankanum söluhæfir pappírar, hæstv. ráðherra? Eru líkur á því að mat markaðarins á því að íslenska bankakerfið sé það traust að borgi sig að eignast hlut í bönkunum með þeim hætti í ljósi þess sem kann að gerast, m.a. í tengslum við þessar breytingar sem merktar hafa verið EES --- þótt sumar af þeim tengist ekki EES einar og sér --- á þann veg að þegar ýmis af stórfyrirtækjum landsins eru farin að skipta beint við banka og tryggingafélög erlendis, þá sitji íslensku viðskiptabankarnir einfaldlega eftir með þann hluta af markaðnum sem erlendu bankarnir og tryggingafélögin telja ekki hæf í viðskipti? Þannig veikist íslenska bankakerfið svo við þennan gjörning að það verði ekki eitt af viðfangsefnum íslenskra stjórnvalda á næstu missirum að fá tekjur inn í ríkiskassann vegna sölu á hlutabréfum í þessum bönkum heldur að setja peninga úr ríkiskassanum inn í þessa banka líkt og gerst hefur í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi. Þá mundi raunhæf fjárlagagerð til næstu tveggja til þriggja ára byggjast á því að gera ráð fyrir fjármagni til þess að setja úr ríkissjóði í bankana í stað þess að miða á óraunsæjan hátt við það fá tekjur í ríkissjóð vegna sölu á hlutabréfunum. Ég vona satt að segja að hæstv. ráðherrar hafi raunsæi og skarpskyggni til þess að skoða þessi mál því að hvað sem líður ágreiningi okkar í þingsölum um stjórn á hverjum tíma hljótum við öll að vilja í sameiningu kappkosta það að hér sé í landinu sæmilega traust bankakerfi. Þess vegna er fyrsta spurning mín til hæstv. viðskrh.: Getur hann fullvissað þingið um það að staða íslensku bankanna, sérstaklega Landsbankans og Búnaðarbankans og kannski jafnvel Íslandsbanka, sé það traust að þegar fyrirtækin fara að nýta sér þá möguleika sem opnast í þessum samningi séu

litlar sem engar líkur á því að íslenska ríkisvaldið þurfi að setja peninga inn í bankakerfið líkt og gerst hefur í öðrum löndum?
    Önnur spurning mín snýr að gjaldeyrisvarasjóðnum. Mér þykir mjög slæmt, virðulegi forseti, að hæstv. viðskrh. skuli ekki virða þingið og vera viðstaddur og hlýða á þessar spurningar ( Forseti: Ráðherra er á leiðinni.) því þetta eru mikil alvörumál. Með þeirri skipan sem stefnt er að í þessum samningi og reyndar ýmsum öðrum ákvörðunum, þótt þær séu ekki beint tengdar þessum samningi, opnast sá möguleiki fyrir fyrirtæki og einstaklinga að ráða því algerlega sjálf hvernig þau ráðstafa sínum gjaldeyri. Þar með skapast sú hætta að Seðlabankinn geti á fáeinum dögum búið við það að gjaldeyrisvarasjóðurinn tæmist. Við höfum heyrt fréttir af því síðustu vikur hvernig seðlabanki Noregs og seðlabanki Svíþjóðar hafa staðið í harðri glímu til þess að tryggja að gjaldeyrisvarasjóðurinn tæmdist ekki. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. viðskrh. að því hvort hann hefur óskað eftir skýrslu frá Seðlabankanum eða sé reiðubúinn að óska eftir slíkri skýrslu þar sem metið yrði hvort gjaldeyrisvarasjóður Íslendinga standist þá huganlegu ásókn sem kann að leiða af þessum samningi og skyldum ávörðunum á næstu missirum.
    Kannski er kjarni málsins gagnstætt því sem ýmsir hafa haldið fram, m.a. ýmsir ágætir flokksmenn mínir sem hafa oft og tíðum með réttu varað við ásókn erlends fjármagns í íslenskt efnahagslíf, sú þversögn að það sé meiri hætta á því á næstu missirum að það streymi fjármagn út úr landinu, að það verði flótti á gjaldeyri frá íslenskum fyrirtækjum til útlanda, frá lífeyrissjóðunum í landinu til fjárfestingar erlendis og frá einstaklingum í íslensku efnahagslífi inn í efnahagslíf annarra ríkja. Það hafa fjölmargir sagt að með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði séu sköpuð skilyrði fyrir því að erlendir fjárfestar öðlist trú á íslensku efnahagslífi og séu reiðubúnir að hætta sínu fjármagni hér. Ég er að spyrja hæstv. viðskrh. að því hvort hann hafi ekki opin augum fyrir þeim raunhæfa möguleika að þetta verði þveröfugt, að á næstu missirum --- ég ætla ekki að fjalla um það hvað verður eftir fjögur eða fimm ár --- séu meiri líkur á því að íslenskir fjárfestar láti fjármagnið streyma úr landi í arðbær hlutabréf og fjárfestingar erlendis en öfugt. Þá stöndum við auðvitað frammi fyrir þeirri spurningu, virðulegi ráðherra: Hvað með gjaldeyrisvarasjóðinn? Það er nú einu sinni þannig að gjaldeyrisvarasjóðurinn er heimilispeningar okkar Íslendinga og stundum tæmist baukur heimilispeninganna. Það er þannig með gjaldeyrisvarasjóðinn. Hann er ekki eitthvað öruggt sem menn hafa í hendi, þvert á móti. Hann getur horfið á mjög skömmum tíma. Þess vegna, virðulegi ráðherra, til viðbótar við þá spurningu sem ég bar fram fyrst og vona að ráðherranum hafi verið flutt --- hún vék að því hvort hann mæti það svo að styrkleiki íslensku viðskiptabankanna væri það mikill að þegar íslensk fyrirtæki færu að nýta sér þjónustu íslenskra og erlendra banka og tryggingafélaga mundi rekstrarstaða íslensku bankanna ekki vera í hættu --- óska ég þess að hann tjái sig um þetta mat á gjaldeyrisvarasjóðnum.
    Sumir kunna kannski að segja: Er þetta beint tengt frv. sem hér liggur fyrir? Svarið er: Já, það er það vegna þess að hinn almenni rökstuðningur fyrir þessu frv., m.a. af hálfu hæstv. utanrrh., hefur fyrst og fremst verið sá að frv. sé einn af hornsteinum stöðugleika í íslensku efnahagslífi og jafnframt sá drifkraftur sem við helst getum fengið inn í hagkerfið á næstu missirum því á næstu missirum muni aflinn ekki aukast og það séu litlar líkur á fjárfestingu erlendra aðila í stóriðju eða öðrum slíkum breytingum. Eina afgerandi breytingin felist í þessu frv. og því sem því er tengt.
    Auðvitað veit ég að við getum opnað fyrir gjaldeyrisstreymi og leyft bönkum og erlendum tryggingafélögum að starfa hér án þess að gera það í gegnum samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Mér er það fullkomlega kunnugt. En það breytir því ekki samt sem áður að við erum í þessu samhengi að tala um hluti sem geta satt að segja orðið svo örlagaríkir fyrir íslenskt efnahagslíf á næstu missirum að ríkisstjórn landsins þurfi að grípa til aðgerða sem enginn hefur rætt enn sem komið er. Við þekkjum glímu ríkisstjórnarinnar þessa dagana og vikurnar við fjárlagavandann. Við þekkjum erfiðleikana sem eru samfara ýmsum ákvörðunum í skattamálum og útgjaldamálum. Þær ákvarðanir eru þó barnaleikur hjá því sem þyrfti að gera ef atburðarásin varðandi íslenska bankakerfið og gjaldeyrisvarasjóðinn yrði með þeim hætti sem ég er að spyrja um. Mér hefur t.d. verið sagt að sú upphæð sem norska ríkið hefur neyðst til þess að leggja í bankana þar bara á síðasta einu og hálfa ári jafngildi 13 milljörðum í íslensku fjárlögunum. Ég sé það í blöðunum í dag að ein af þeim tillögum sem viðskrh. hefur fengið er að ríkissjóður yfirtaki lífeyrisskuldbindingar ríkisbankanna. Það heitir auðvitað á mæltu máli að íslenski ríkissjóðurinn ætli að setja milljarða inn í íslensku ríkisbankana áður en hann selur hlutabréfin. Er það kannski ástæðan fyrir því að nefnd viðskrh. er nú þegar búin að leggja til að ríkissjóður yfirtaki þær milljarðaskuldbindingar sem eru í lífeyrissjóðum ríkisbankanna að á vegum ráðuneytisins hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að íslenska bankakerfinu sé ekki treystandi í þeim ólgusjó sem er fram undan? Þess vegna mælir margt með því að það sem kann að gerast á næstu missirum sé miklu frekar verulegt útstreymi á fjármagni frá Íslandi, frá fyrirtækjunum, frá lífeyrissjóðunum, frá einkaaðilunum yfir í hagkerfi annarra landa, kauphallir þeirra og hlutabréfaeign þar en að erlendir fjárfestar muni birtast hér.
    Það eina sem líklegt kann að vera að muni freista erlendra fjárfesta eru nokkur fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi. Það hefur auðvitað verið spurt að því hvort ætlunin sé að breyta lögum um fjárfestingar útlendinga í íslenskum sjávarútvegi til þess að auðvelda erlendum fjárfestum að komast inn í það sem þeir kynnu þó að sækjast eftir. Óneitanlega bendir margt af því sem komið hefur fram af hálfu ýmissa úr ríkisstjórnarherbúðunum á síðustu mánuðum til þess að innan ríkisstjórnarinnar sé verið að undirbúa breytingar á þeim lögum.
    Ef litið er á þá stöðu sem nú blasir við okkur eftir þessa miklu atburðarás á síðustu þremur árum frá því að viðræðurnar hófust á Ísland í raun og veru þrjá kosti í samskiptum sínum við Evrópu. Fyrsti kosturinn er aðild að Evrópubandalaginu. Það er leið sem allir flokkar á Alþingi hafa hafnað hingað til og þarf þess vegna ekki að verja í það mörgum orðum. Annar kosturinn er þessi samningur um Evrópskt efnahagssvæði. Eins og ég hef þegar rakið fyrr í minni ræðu verður Evrópska efnahagssvæðið ekki um neina framtíð varanlegt tveggja stoða viðskiptakerfi, þvert á móti. Sterkasta efnahagsríkið innan EFTA hefur hafnað EES og hinar Norðurlandaþjóðirnar sem voru í EFTA hafa ákveðið að sækja um aðild að Evrópubandalaginu.
    Þriðji kosturinn sem blasir þá við er tvíhliða samningur Íslands og Evrópubandalagsins um viðskipti og samvinnu. Það er tillaga sem Alþb. setti fram í júnímánuði á þessu ári. Við tókum marga mánuði í það að vega og meta niðurstöður samningaferilsins í EES. Án þess að ég ætli mikið að bera okkur saman við aðra stjórnmálaflokka hef ég ekki orðið var við það á þessu ári að aðrir stjórnmálaflokkar hafi á sínum vegum látið fara fram jafnvíðtæka umræðu og málefnalegt mat úti í flokksfélögunum sjálfum og úti í kjördæmunum og í stofnunum flokkanna eins og við gerðum í Alþb. Við efndum til ráðstefna í kjördæmunum, við efndum til sérstaks ítarlegs málþings á okkar vegum, við héldum sérstaka fundi í þingflokki og miðstjórn Alþb. til þess að fara yfir allt þetta stóra mál. Niðurstaða okkar í júnímánuði var sú að það væri raunhæft og skynsamlegt fyrir Íslendinga að stefna strax í varanlegan, tvíhliða samning milli Íslands og Evrópubandalagsins um viðskipti og samvinnu.
    Ég fagna því að sjá þáltill. á borðum þingsins í dag sem flutt er af formanni og varaformanni Framsfl. þar sem þeir eru nú, 15. des., að leggja til það sama og við lögðum til í júnímánuði. Það tel ég mjög veigamikið skref. Það er tvímælalaust mikill styrkur við þá stefnu sem við alþýðubandalagsmenn höfum boðað á undanförnum mánuðum að þessir tveir forustumenn Framsfl., hv. þm. Steingrímur Hermannsson og hv. þm. Halldór Ásgrímsson, skuli í sameiningu hafa flutt tillögu um tafarlausar samningaviðræður milli Íslands og Evrópubandalagsins um tvíhliða samning. Í tillögu þessara tveggja forustumanna Framsfl. segir, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að stefnt skuli að því að ná tvíhliða samningi við Evrópubandalagið, fyrst og fremst á grundvelli viðskiptahluta þess samnings sem fyrir liggur um Evrópskt efnahagssvæði. Því felur Alþingi ríkisstjórninni að hefja undirbúning að slíkri samningsgerð og fara þess á leit við framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins að viðræður hefjist hið fyrsta.``
    Ég ætla þess vegna að lesa niðurstöðu þingflokks, framkvæmdastjórnar og miðstjórnar Alþb. í júnímánuði á síðasta ári um þetta sama efni. Hún er á þessa leið, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Alþb. dregur þá ályktun á grundvelli framangreindra röksemda og efnisatriða að þótt ýmsir efnahagslegir ávinningar geti tengst samningnum, þá sé EES-samningurinn, þegar á heildina er litið, í lokagerð sinni tilraun sem mistókst. Þess vegna er óhjákvæmilegt að hafna þeirri niðurstöðu EES-samningsins sem nú liggur fyrir. Alþb. leggur til að sú niðurstaða verði endurskoðuð þegar í haust með það að markmiði að gera sjálfstæðan tvíhliða viðskiptasamning milli Íslands og EB. Höfuðatriði hans verði:
    Sjálfstæður tvíhliða viðskiptasamningur milli Íslands og EB verði m.a. byggður á viðskiptaþáttum EES-samningsins, sérstökum sjávarútvegssamningi og bókun 6 í samningnum við EB sem verið hefur í gildi síðan 1976.
    Framkvæmd tvíhliða samnings milli Íslands og Evrópubandalagsins verði einfaldari í sniðum en samkvæmt EES-samningnum.
    Eingöngu verði sett á fót samstarfsnefnd um eftirlit og gerðardómi beitt verði deilumál um framkvæmd samningsins ekki útkljáð.
    Pólitísk vandamál verði leyst í ráðherraviðræðum.
    Í tvíhliða samningi Íslands og EB verði m.a byggt á hugmyndum um frjálsa vöruflutninga, fólksflutninga, þjónustustarfsemi, fjármagnsflutninga og almenna samkeppni auk þess sem hafðar verði til hliðsjónar reglur Norðurlanda um vinnumarkað og búseturétt og afdráttarlaus réttur Íslendinga til að skipa forræði og eignarhald á auðlindum til lands og sjávar verði tryggður með sérstökum lögum.
    Í samningi um viðskipti yrði einnig fjallað um samvinnu Íslands og EB á öðrum sviðum, svo sem varðandi rannsóknir og þróun, umhverfismál, menntun og menningu.
    Í tvíhliða samningi verði engin atriði sem brjóti í bág við stjórnarskrá eða taki efnislegt og formlegt löggjafarvald á Íslandi úr höndum Alþingis og þjóðarinnar.``
    Það er alveg ljóst af þessum lestri að forusta Framsfl. hefur komist að mjög sambærilegri niðurstöðu, að í þeirri stöðu sem nú er upp komin sé skynsamlegt fyrir Íslendinga að hefja þegar í stað það verk að ná slíkum tvíhliða samningi milli Íslands og Evrópubandalagsins. Það ætti kannski að vera hæstv. utanrrh. nokkurt umhugsunarefni að forustumenn þessra tveggja flokka sem voru samferða Alþfl. í að ná hinum mikla efnahagslega árangri sem við náðum á árunum 1988--1991 skuli allir hafa komist að þessari niðurstöðu. Auðvitað getur hæstv. ráðherra, eins og hann hefur stundum gert eða látið blað sitt gera, verið með ýmiss konar hótanir í okkar garð og talið það þjóna pólitískum tilgangi.
    Ég vil benda honum á að allir þeir ráðherrar frá Framsfl. og Alþb. sem sátu með honum og viðskrh. í ríkisstjórninni 1988--1991, það voru einu flokkarnir sem voru Alþfl. samferða allt það tímabil, hafa nú komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að í þessari stöðu sé skynsamlegt fyrir Íslendinga að ná tvíhliða samningi á sama hátt og við töldum allir, þessir sömu menn, skynsamlegt árið 1989 að láta á það reyna hvort við næðum skynsamlegri niðurstöðu með hinum EFTA-ríkjunum í samningum við Evrópubandalagið. Kann ekki að vera, hæstv. ráðherra, að það sé töluvert til í málinu fyrst jafnbreiður hópur ólíkra stjórnmálamanna úr þessum tveimur flokkum hefur komist að þessari niðurstöðu? Hann getur svo sem hent einhverjum orðum í mig um tækifærismennsku o.s.frv. eins og ég held að hann hafi gert. En það eru fleiri en ég í þessum hópi. Varla velur hann fyrrv. forsrh. Steingrími Hermannssyni og fyrrv. sjútvrh. Halldóri Ásgrímssyni líka þessi orð, auðvitað ekki. Auðvitað er ástæðan sú að á nákvæmlega sama hátt og við komumst að þeirri niðurstöðu árið 1989 að það væri raunsætt að láta reyna á það í samningaviðræðum við Evrópubandalagið og EFTA hvort við næðum farsælli niðurstöðu, þá segjum við allir forustumenn og fyrrv. ráðherrar Framsfl. og Alþb. í dag: Nú kallar raunsæið á að við leitum eftir tvíhliða samningi.
    Ég vil minna hæstv. ráðherra á að það var þessi sveit manna sem náði þessum

mikla árangri í efnahagsmálum, árangri sem núv. ríkisstjórn er nú á góðri leið með að tefla í mikla tvísýnu, virðulegi ráðherra. Ef það er eitthvað í efnahagsmálum sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, Sjálfstfl. og Alþfl., segir okkur í samanburði við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, Alþb., Framsfl. og Alþfl., er það að í ríkisstjórn Framsfl., Alþb. og Alþfl. var með markvissum hætti stefnt í rétta átt stig af stigi. Í þessari ríkisstjórn hefur á einu og hálfu ári verið haldið þannig á málum að stöðugleikinn og árangurinn er í dag allur í tvísýnu. Nú stefnir jafnvel í að á fyrstu tveimur heilu árunum í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, Sjálfstfl. og Alþfl., verði fjárlagahallinn meiri samanlagt en á árunum 1990 og 1991 þó að við reiknum allan hallann 1990--1991 yfir á okkur sem þó er ekki hægt að gera með neinum rökum. Sáttin á vinnumarkaði er upp í loft. Verðbólguhjólið er byrjað að titra og fer hugsanlega að snúast á nýjan leik og fyrirtækin í landinu hafa ekki þá miklu trú á stöðugleikanum að þau séu tilbúin að fjárfesta í ríkum mæli. Þess vegna vil ég biðja hæstv. utanrrh. að hugleiða það í rólegheitum hvort ekki séu líkur á því að sá hópur manna sem með Alþfl. náði þessum mikla árangri í efnahagsmálum kunni líka að hafa rétt fyrir sér um Evrópska efnahagssvæðið. Það væri auðvitað mikilvægt skref í átt að því að tryggja þó einhvers konar samvinnu á Alþingi Íslendinga um þessi mál ef ríkisstjórnin hugleiddi á næstu dögum að greiða fyrir því að sú tillaga sem formaður og varaformaður Framsfl. flytja, yrði samþykkt. Þó að hún sé flutt af forustumönnum annars flokks en míns vil ég samt sem áður leggja henni það lið hér að benda á að það væri veigamikið skref til að greiða úr þeirri flækju sem ríkisstjórnin hefur komið þessum málum í að tillaga á þskj. 472 kæmi til afgreiðslu á næstu dögum.
    Virðulegi forseti. Ég vil í nokkrum atriðum víkja að því á hvaða hátt sú niðurstaða í samningaferlinu um Evrópskt efnahagssvæði samrýmist ekki þeim upphaflegu markmiðum sem almennt var lýst að væru leiðarljós okkar Íslendinga í þeim viðræðum. Ég hef fyrr í þessari ræðu vikið að fyrsta atriðinu sem var sú viðleitni að koma á varanlegu tveggja stoða kerfi í Evrópu. Það er nú úr sögunni. Það er ekki lengur hugmyndafræðin á bak við málin eins og ég hef rakið. Hinar Norðurlandaþjóðirnar vilja fara beint inn í EB en Sviss hefur hafnað þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu. Það var auðvitað líka í þessu samhengi dálítið fróðlegt að lesa ummæli Frans Andriessens í viðtali við Ríkissjónvarpið 22. maí 1992 þar sem hann sagði alveg skýrt að það hafi verið niðurstaða samningaferilsins að það væri stofnanakerfi Evrópubandalagsins sem réði för á Evrópska efnahagssvæðinu. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í þessi ummæli Frans Andriessens:
    ,,EFTA-ríkin eru ekki aðilar að klúbbnum. Þess vegna ákveða EFTA-ríkin ekki reglur klúbbins. Það er á grundvelli þessarar staðreyndar sem við höfum skapað stofnanakerfi. Markmið þess er að veita sem bestan aðgang og áhrif í ákvarðanaferlinu, þó þannig að ákvarðanatakan sjálf er algerlega í höndum stofnana Evrópubandalagsins, þ.e. hjá ráðherraráði Evrópubandalagsins og á Evrópuþinginu. Ég tel að það sé rétt að segja að ef þið eruð tilbúin að vera tengd svo náið stofnanauppbyggingu Evrópubandalagsins, þið eruð tilbúin að láta löggjöf bandalagsins taka gildi hjá ykkur í framtíðinni án þess að þið eigið fulla aðild að ákvarðanatökunni sjálfri, þá geti verið betra að vera fullgildur meðlimur í klúbbnum.``
    Hér talar næstæðsti maður Evrópubandalagsins og hann talar enga tæpitungu. Hann segir alveg skýrt: Evrópska efnahagssvæðið er byggt á því að ákvarðanatakan sjálf sé algerlega í höndum stofnana Evrópubandalagsins. Það er auðvitað athyglisvert, eins og ég mun koma að síðar, að í álitsgerðum, m.a. dr. Guðmundar Alfreðssonar, er þetta eitt af því sem styður það sjónarmið að samningurinn standist ekki íslensku stjórnarskrána. Frans Andriessen bendir á að fyrst menn séu tilbúnir að leggja sig undir stofnanakerfi Evrópubandalagsins með þessum hætti sé skynsamlegra að ganga í klúbbinn. Það er auðvitað niðurstaðan sem Norðmenn, Svíar og Finnar, a.m.k. ríkisstjórnirnar í þessum löndum, og Austurríkismenn hafa komist að, að það sé bara miklu betra að vera í klúbbnum. Það er því auðvitað alveg ljóst að fyrsta upphaflega markmiðið um tveggja stoða kerfi tveggja jafnrétthárra aðila er á engan hátt niðurstaðan.
    Hæstv. utanrrh. sagði í mars á þessu ári í skýrslu sinni til Alþingis þessa ágætu

setningu sem ég ætla nú að vitna í, með leyfi forseta: ,,Trúir því einhver að Evrópskt efnahagssvæði fái staðist sem tveggja stólpa brú, sem hvílir annars vegar á stólpa útvíkkaðs Evrópubandalags með 17 aðildarríkjum og 370 milljónum íbúa og hins vegar á brúarstólpa Íslands og Liechtensteins, með innan við 300 þús. íbúa?``
    Þetta voru dálítið merkileg spádómsorð, hæstv. utanrrh., sett í skýrsluna í mars 1992 og sumir segja að sé skrifuð heima á Vesturgötunni hjá ráðherranum sjálfum þannig að kontóristarnir í ráðuneytinu komust ekki einu sinni í að sía þau. Það er einmitt þetta sem blasir nú við, að það verði bara Ísland og Liechtenstein sem verði eftir í EES. Sviss hefur hafnað að vera með og öll hin ríkin ætla inn í EB.
    Ráðherrann svaraði svo sjálfur þeirri spurningu í skýrslunni, það mundi auðvitað ekki nokkur heilvita maður trúa því að það gæti staðist. Þessi retoríska spurning sett fram í skýrslu til Alþingis í mars er núna besta lýsingin á raunveruleikanum. Við erum að ræða frv. sem í reynd er bara ávísun á farmiða fyrir Ísland og Liechtenstein.
    Annað meginatriðið sem vikið var að í upphafi samningaferilsins var að komið yrði á fríverslun með fisk. Fríverslun með fisk merkir það að Evrópubandalagið beiti ekki ríkisstyrkjum til að skekkja samkeppnisstöðuna og almenna reglan um tollalaus viðskipti gildi. Hæstv. utanrrh. hefur sagt það á Alþingi, að mig minnir fyrir nokkrum dögum, að það hafi alltaf legið fyrir að Evrópubandalagið mundi hafna þessari kröfu. Ég kannast ekki við það, hæstv. ráðherra, úr samvinnu okkar í síðustu ríkisstjórn að sagt hafi verið við það ríkisstjórnarborð eða á þeim mörgu fundum sem sú ríkisstjórn hélt um málið árið 1989 og fram eftir árinu 1990 að það væri alveg víst að Evrópubandalagið mundi hafna þessu algerlega og að þetta væri bara sett fram upp á grín. Ég man ekki betur en hæstv. þáv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, þáv. sjútvrh. og þáv. viðskrh., Jón Sigurðsson, og þáv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, hefðu hvað eftir annað talið það einn af mikilvægustu þáttunum í þeim árangri sem náðst hefði innan EFTA að EFTA væri reiðubúið að setja fram þessa kröfu í alvöru, hæstv. ráðherra. Auðvitað er það rétt að menn gátu haft á því mismunandi mat hvaða líkur væru á því að Evrópubandalagið féllist á það og auðvitað var það nokkuð ljóst að litlar líkur voru á því að Evrópubandalagið mundi fallast á að slíkt kæmi til framkvæmda strax. En þá bendi ég á að liður í ákvarðanaferli Evrópubandalagsins og þróun er að taka ákvarðanir um að eitthvað muni gerast eftir tiltölulega langt tímaskeið, setja ákveðnar breytingar þannig að þær taki gildi eftir fimm ár eða taki gildi eftir sjö ár. Það er með engum rökum hægt að halda því fram að það hafi verið óraunhæft að knýja Evrópubandalagið til að taka þá stefnumótandi ákvörðun að ríkisstyrkjakerfið í sjávarútvegi yrði lagt niður innan bandalagsins, t.d. fyrir árið 2000. En ummæli hæstv. utanrrh. á þingi fyrir skömmu um að þessi stefna EFTA og Íslands hafi bara verið út í hött og ekki nokkrum heilvita manni dottið í hug að yrði fallist á hana gagnstætt því sem hann sagði þó við okkur í síðustu ríkisstjórn leiða hugann að því hvort þá hafi nokkur alvara verið á bak við að fylgja þessari kröfu fram. Auðvitað gat mælskumaður eins og hæstv. utanrrh. haldið glæsilegar ræður á samningafundunum þar sem bent væri á að á sama tíma og menn væru að leggja niður hið ríkisstyrkta hagkerfi í Austur-Þýskalandi væri lítil lógík í því að viðhalda ríkisstyrkjakerfinu í sjávarútvegi í Vestur-Þýskalandi eða hvort menn ætluðu í hinu sameinaða Þýskalandi að halda sér við sömu kreddurnar og menn höfðu jarðað í Austur-Þýskalandi. Ég hefði treyst hæstv. ráðherra til að flytja margar slíkar góðar ræður á samningafundunum, bæði í Genf, Brussel og annars staðar. En greinilegt er að hann hefur ekki einu sinni reynt það. Hann var svo sannfærður um það sjálfur að það þýddi ekkert að setja þessar kröfur fram að Evrópubandalagið slapp við það. Það kom í ljós fyrir nokkrum dögum á Alþingi að Evrópubandalagið slapp algerlega við það að þurfa að standa frammi fyrir þeirri kröfu járn í járn: Enga ríkisstyrki í sjávarútvegi heldur jafna samkeppnisstöðu í sjávarútvegi og fiskiðnaði eins og í öðrum greinum. Nei, takk. Hæstv. utanrrh. virðist hafa hlaupið fljótt frá þessari kröfu og án mikillar fyrirhafnar. Maður veltir því þá fyrir sér hvort hann var þá að blekkja okkur sem sátum með honum í ríkisstjórninni. Var þetta eitthvert leikrit sem hann og viðskrh. settu á svið fyrir hæstv. þáv. sjútvh., Halldór Ásgrímsson, og fyrir hæstv. fyrrv. forsrh., Steingrím Hermannsson, og fyrir mig og hina

aumingjana sem sátu í ríkisstjórninni? ( Gripið fram í: Það voru engir aumingjar.) Ég sagði hina.
    Þá var varakrafan að ef Evrópubandalagið féllist ekki á þetta væri þó lágmark að grundvallarreglan um tollfrjáls viðskipti með sjávarafuðrir yrði viðurkennd. Það er auðvitað mjög erfitt fyrir Evrópubandalagið að neita slíkri kröfu ef henni er haldið til streitu af mikilli hörku. En það kemur bara því miður í ljós, þegar samningaferlinu lýkur, að Evrópubandalagið féllst ekki heldur á þessa grundvallarreglu. Auðvitað er hægt að setja fram reikningsdæmi, hæstv. ráðherra, eins og ráðherrann hefur gert að ef metnir eru þeir tollar sem voru lækkaðir í þessu sérstaka samkomulagi nemi þeir ákveðinni prósentutölu, 90--98% af tollum á undanförnum árum. Það breytir því ekki að þegar við förum að flytja út nýjar sjávarafurðir á þennan Evrópumarkað þarf að semja um tollaniðurfellingar á þeim. Við þurfum sem sagt áfram að vera í samfelldu samningaferli við Evrópubandalagið um tollana af því að það tókst ekki að ná fram í þessum samningum grundvallarkröfu Íslands um tollfrjáls viðskipti með sjávarafurðir.
    Í þriðja lagi var það auðvitað krafa okkar Íslendinga að ekki væri verið að versla með veiðiheimildir og tollalækkanir. Ég ætla ekki að ræða það mál ítarlega hér. Við ræðum það sjálfsagt þegar sjávarútvegssamningurinn kemur til umfjöllunar, ef hann kemur þá einhvern tíma hingað til umfjöllunar. Hæstv. utanrrh. hefur enn sem komið er ekki treyst sér til að fjalla um það sem ég hef bent honum nokkuð oft á á undanförnum vikum að innan Evrópubandalagsins er litið á sjávarútvegssamninginn sem tvímælalausa viðurkenningu á því að veiðiheimildir komi í staðinn fyrir tollalækkanir. Samningamenn Evrópubandalagsins eru ekki að dylja það að þeir telja sig hafa náð nánast fullum árangri í glímunni við Íslendinga frá 1976. Hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh. geta svo reynt að útbúa þessa niðurstöðu hér til heimabrúks og sagt: Þetta er ekki þannig. Þetta eru gagnkvæmar veiðihemildir. En gagnkvæmnin er mjög skrýtin. Hún er í fyrsta lagi ekki þannig að við fáum að veiða í þeirra lögsögu, hún er ekki þannig. Þeir fá bara að veiða í okkar lögsögu. Við fáum ekki að veiða í þeirra lögsögu svo það er engin gagnkvæmni um veiðar í lögsögu hvors annars.
    Í öðru lagi eru þetta 3 þús. tonn af karfa og 30 þús. tonn af loðnu. Ég ætla ekki að fara með þau rök hér um að þetta sé ekki jafngilt. Það vita auðvitað allir. Enda er það þannig að æðsti embættismaður íslenska stjórnkerfisins á sviði hafrannsókna, Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, hefur kallað þetta loðnuvitleysu. Hann hefur valið þessari niðurstöðu orðið loðnuvitleysa og hefur hvatt til þess að íslensk stjórnvöld hafi þessari niðurstöðu eða viðurkenni þá af hreinskilni hvað í henni felst. Af því að ég vék að því í upphafi máls míns hver hefði orðið afstaða þorra manna á Alþingi ef þeim hefði verið sagt fyrir nokkrum missirum síðan að þetta Evrópska efnahagssvæði mundi hljóta þau örlög að sterkasta ríkið innan EFTA, Sviss, ætlaði ekki að vera með og hin Norðurlöndin ætluðu bara að vera í EES í fáein missiri og fara inn í EB og svo hefði verið bætt við að samningurinn ætti að fela í sér veiðar Evrópubandalagsskipa í íslenskri lögsögu og Evrópubandalagið féllist ekki á viðurkenninguna um tollfrjáls viðskipti með sjávarafurðir, þá liggur við að ég treysti mér til að fullyrða að varla hefði nokkur maður á Alþingi fyrir fáeinum missirum mælt með slíkum samningi. Slíkur munur er á niðurstöðunni annars vegar og þeim markmiðum sem sett voru í upphafi hins vegar.
    Það er líka athyglisvert eins og fram kemur í nál. 3. minni hlutans að aðalsamningamaður Íslands, Hannes Hafstein, hefur upplýst það eftir á að það hafi verið ljóst strax í fyrra þegar sjútvrh. og utanrrh. komu heim frá Lúxemborg að Evrópubandalagið mundi alls ekki láta sér nægja hinn fræga langhala heldur væri það að sækjast eftir karfa. Það er auðvitað enn eitt dæmið um vinnubrögðin í þessu máli að hæstv. utanrrh. fer fram á opinberan vettvang, mætir í þjóðþinginu, ræðir við utanrmn. og setur á langar ræður um þennan langhala. Svo segir bara aðalsamningamaður Íslands, Hannes Hafstein: Það var vitað allan tímann að engin meining var í þessu langhalatali, það var karfi frá upphafi sem Evrópubandalagið var að sækjast eftir. Það er auðvitað hægt að hafa ærið sterk orð um framgöngu manna sem falsa með þessum hætti upplýsingakerfið gagnvart utanrmn. og þjóðþinginu.
    Í fjórða lagi var sagt hvað eftir annað á fyrstu missirum þessa samningaferils að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði ætti eingöngu að vera viðskiptasamningur. Í samningnum ætti ekki að felast valdaafsal af neinu tagi hjá stofnunum lýðveldisins, hvorki löggjafarþinginu, framkvæmdarvaldinu né dómstólunum. Svo sterk var þessi plata um að samningurinn ætti bara að vera viðskiptasamningur að formaður þingflokks Alþfl. mætti í umræðuþætti í Ríkisútvarpinu fyrir örfáum vikum þar sem hann sagði í hita leiksins þegar hann var kominn í nokkra vörn í málinu: EES er bara venjulegur viðskiptasamningur. Þegar spyrjandinn, Sigurður G. Tómasson, sagði: Heyrðu, hvað segirðu? Ertu að segja að EES sé bara venjulegur viðskiptasamningur? Þá jafnvel hikstaði hv. þm. Össur Skarphéðinsson og sá að það gekk eiginlega ekki upp að halda þessu fram. Svo sterk var þessi plata um að þetta væri bara venjulegur viðskiptasamningur að allt fram til síðustu vikna hefur formaður þingflokks Alþfl. verið að reyna að halda þessu að þjóðinni. Nei, þvert á móti blasir hér við samningur þar sem stofnanahluti samningsins er miklu fyrirferðarmeiri en sjálfur samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði. Þau þingskjöl sem liggja á borðum og eru samningar EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun og dómstól eru satt að segja miklu meiri að vöxtum en sjálfur texti EES-samningsins. Þessi breyting sem varð á samningsferlinu, að í stað venjulegs viðskiptasamnings var smátt og smátt að fæðast samningur sem fól í sér flókið stofnanakerfi og ný munstur í ákvarðanatöku, hefur svo leitt til þess að mikill ágreiningur hefur risið í landinu um það hvort samningurinn standist stjórnarskrána.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson rakti mjög rækilega hér í gærkvöldi þau meginrök sem fram hafa verið sett af hálfu lærðra lögfræðinga sem sent hafa utanrmn. Alþingis álit sitt fyrir því að samningurinn standist ekki stjórnarskrána. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að endurtaka þau rök sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson flutti. En mig langar til að vekja athygli á einni mjög athylisverðri staðreynd.
    Dr. Guðmundur Alfreðsson og prófessor Björn Þ. Guðmundsson settu fram álit sín til utanrmn. fyrir nokkuð mörgum mánuðum. Þau hafa síðan legið frammi sem opinber gögn. Það er athyglisverð staðreynd sem segir mikla sögu að frá því að álit dr. Guðmundar Alfreðssonar og Björns Þ. Guðmundssonar komu fram hefur hvorki utanrrh., forsrh. né stjórnarmeirihlutinn á Alþingi treyst sér til þess að leiða fram á völlinn einn einasta lögfræðing sem starfar í fræðigreininni og er ekki bara pólitískur leiksoppur á skákborði stjórnmálanna sem treystir sér til að hrekja niðurstöðu dr. Guðmundar Alfreðssonar og Björns Þ. Guðmundssonar. Það er að vísu til álitsgerð sem fjórir sérfræðingar utanrrh. sömdu og ég mun koma að á eftir. Hún var samin áður en dr. Guðmundur Alfreðsson og Björn Þ. Guðmundsson settu fram sín sjónarmið. Eftir að greinargerð þeirra tveggja lá fyrir hefur enginn íslenskur lögfræðingur treyst sér til þess að senda frá sér ritgerð eða greinargerð sem hrekur þau sjónarmið. (Gripið fram í.) Jú, við höfum hlustað á hv. þm. Björn Bjarnason segja að hann sé ekki sammála þeim en við vitum allir að hann er úr pólitískri forustu Sjálfstfl. Við höfum heyrt utanrrh. segja að þetta sé bara vitleysa en hann er bara með próf í sagnfræði og hagfræði. En ég spyr enn á ný: Geta menn nefnt einhvern hæstaréttarlögmann sem starfar sem hæstaréttarlögmaður, geta menn nefnt einhvern prófessor í lögum við Háskóla Íslands, geta menn nefnt einhvern dómara við héraðsdómstól, við Hæstarétt sem hefur treyst sér til þess að leggja fram á síðustu mánuðum greinargerð sem hrekur niðurstöðu Björns Þ. Guðmundssonar og Guðmundar Alfreðssonar? Svarið er nei. (Gripið fram í.) Svarið er nei. Það er auðvitað mjög merkilegt að í ríkisstjórninni sitja nú margir lögfræðingar með forsrh. í fararbroddi. Að þeir skuli ekki sjá hvað það er veik staða fyrir þá, ekki bara á þinginu nú heldur inn í framtíðina, að hafa á herðunum þann dóm sögunnar að þeir hafi ekki getað fengið einn einasta hæstaréttarlögmann, dómara eða kennara við Háskóla Íslands til þess að hrekja röksemdir Guðmundar Alfreðssonar og Björns Þ. Guðmundssonar. Þær standa þess vegna enn og eins og hv. þm. Steingrímur Hermannsson rakti í gærkvöldi með margvíslegum hætti sýna þessir tveir fræðimenn fram á það að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði standist ekki stjórnarskrá lýðveldisins. Þess vegna held ég að það sé alveg rétt sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson lýsti yfir í þessum ræðustól nú nýlega að samningurinn sé brot á stjórnarskrá lýðveldisins.
    Ég hef tekið eftir því að menn hafa setið í salnum og hlustað á þessi orð, brot á stjórnarskrá lýðveldisins, og svo hafa menn yppt öxlum og farið niður í kaffi. Er þetta virkilega orðið þannig á þjóðþinginu að hér standi upp þingmaður með mikla þingreynslu, maður úr forustusveit Sjálfstfl. um langt árabil, hæstaréttarmálaflutningsmaður, og segi samninginn brot á stjórnarskránni, á borðum þingmanna liggja álitsgerðir frá einum lærðasta unga lögfræðingi Íslendinga í þjóðarétti, dr. Guðmundi Alfreðssyni, virtum prófessor við Háskóla Íslands, Birni Þ. Guðmundssyni og niðurstaða allra er að samningurinn sé brot á stjórnarskránni og svo glotta menn bara eins og hv. þm. Björn Bjarnason gerir núna? Þessir menn segjast vera lýðræðissinnar. Grundvöllur lýðræðisins er stjórnskipun sem menn halda og virða. Grundvöllur lýðræðisins er að lögin séu æðri hagsmunum valdsmanna. Það er kjarninn í lýðræðinu. Lögin eru æðri en hagsmunir valdsmanna. Það eru til stjórnkerfi í heiminum þar sem hagsmunir valdsmanna eru æðri lögunum. Þau eru því miður nokkuð mörg. Þar er nöpur saga af örlögum einstaklinga og þjóða. En við höfum ekki viljað búa í landi þar sem hagsmunir valdsmanna væru æðri lögunum. Hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. halda þannig á þessu EES-máli að það er ekki hægt að draga aðra niðurstöðu en þá að þeir telji að valdahagsmunir þeirra sjálfra séu æðri lögunum, hæstv. utanrrh. vegna þess að hann sækir þetta mál af pólitískum metnaði og flokkspólitískum hagsmunum af því að þetta séu höfuðmál Alþfl. og hæstv. forsrh. vegna þess að hann veit að ef hann hlýðir ekki hæstv. utanrrh. í þessu máli stendur ríkisstjórnin ekki lengur. Hæstv. utanrrh. hótar að slíta ríkisstjórninni ef forsrh. beygir sig ekki undir vilja hans í þessu máli. Hér er þess vegna komin upp klassísk staða. Það eru hagsmunir valdsmannanna sem eru taldir æðri lögunum að þeirra eigin dómi. Þeir leiða svo væntanlega fram í þinginu nægilega marga til þess að styðja þá í þessu. Hvað ætla svo þessir menn að gera ef Hæstiréttur Íslands kemst að þeirri niðurstöðu að dr. Guðmundur Alfreðsson og Björn Þ. Guðmundsson hafa rétt fyrir sér? Hvað á að gera við fyrirtækin sem þá hafa farið í margvíslegar fjárhagslegar skuldbindingar? Hvað á þá að gera við einstaklingana sem hafa hagað einkamálum sínum á grundvelli þess að þetta væri allt saman rétt? Ef þessi víðtæki samningur sem teygir sig út um allt sviðið verður af Hæstarétti dæmdur á þann veg sem dr. Guðmundur Alfreðsson og Björn Þ. Guðmundsson hafa gert, hvílík áhætta er þá tekin.
    Eitt af þeim atriðum sem oft og tíðum var nefnt í upphafi þessa viðræðuferils var að tryggja yrði að Íslendingar mundu ekki glata forræði yfir auðlindum landsins, yfir landinu, orkulindunum og ýmsir nefndu einnig lykilfyrirtæki. Hver er niðurstaðan á þessu sviði? Mér sýnist hún vera þessi:
    Í fyrsta lagi hefur verið settur inn fyrirvari varðandi eignarhald útlendinga á fyrirtækjum í útgerð og frumvinnslu sjávarafurða. Þó byggir hann á lögum sem kann að verða breytt á Alþingi. Varðandi orkulindirnar hins vegar hefur enn ekki verið sýnt á Alþingi frv. sem tryggir að þær verði áfram í höndum Íslendinga. Hver er ástæðan fyrir því að frv. hefur ekki enn verið lagt fram? Er hún kannski sú að sérfræðingar hafa komist að þeirri niðurstöðu að ef það eigi að vera tryggt verði meiri hluti á Alþingi að fallast á þjóðnýtingu orkulindanna að meira eða minna leyti og Sjálfstfl. sé ekki tilbúinn að standa að þjóðnýtingu orkulindanna með þessum hætti? Með öðrum orðum að menn þurfi að velja á milli möguleika útlendinga til að eignast orkulindirnar og andstöðu við þjóðnýtingu. Þá haldi menn sig við hina gömlu andstöðu við þjóðnýtingu og skjóti laust á möguleika útlendinga til að eignast orkulindirnar. Það er auðvitað mjög athyglisvert fyrir okkur sem þekkjum ákafa forustumanna Alþfl. í að flytja slíkt frv. Það vill svo til að þar erum við í forustu Alþb. sammála forustumönnum Alþfl. og höfum átt ýmsar viðræður við hæstv. viðskrh. um þetta mál á undanförnum missirum, m.a. þegar við vorum í ríkisstjórn. Við vitum þess vegna vel að þetta er honum nokkuð áhugamál. Það segir þess vegna mikla sögu um pólitísku erfiðleikana á þessu sviði að menn hafa ekki treyst sér til þess að leggja frv. hér fram.
    Þriðja atriðið var eignarhald á landi. Menn hafa glímt við það. Niðurstaðan er hins vegar sú hin sama og við lýstum hér, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fyrir nokkrum missirum að ef setja ætti girðingar sem kæmu í veg fyrir að útlendingar gætu

eignast land á Íslandi mundu þær girðingar koma svo niður á möguleikum stórs hluta þjóðarinnar sjálfrar að menn yrðu ekki tilbúnir að sætta sig við þær. Mér sýnist einmitt það vera að gerast nú að frv., sem hæstv. landbrh. hefur látið útbúa, gangi þvert á ýmis önnur markmið sem menn vilja hafa eins og rétt einstaklinga í þéttbýli til að eignast land, rétt stéttarfélaga til að eignast land, rétt bænda til þess að halda verðmæti jarða sinna. Mér sýnist frv. verði ekki samþykkt á Alþingi í þeirri mynd sem það er lagt fram. Það er a.m.k. strand í dag. Með öðrum orðum er það að gerast sem við forustumenn Alþb. vörðuðum við, að þegar kæmi að því að setja girðingar varðandi það að verja orkulindirnar og landið fyrir eignarhaldi útlendinga mundu menn ekki treysta sér í að setja þær girðingar sem héldu vegna þess að þær mundu mismuna Íslendingum sjálfum af því að bannið við mismunun milli borgara Íslands og annarra ríkja Evrópubandalagsins og EFTA væri á þann veg að við mættum ekki mismuna á grundvelli ríkisfangs. Þess vegna er það nú því miður þannig að þegar Alþingi er beðið að taka afstöðu til þessa samnings liggur ekkert fyrir um það að hér verði settar í lög girðingar sem halda varðandi eignarhald á landi og orkulindum.
    Í fjórða lagi var rætt um ýmis lykilfyrirtæki. Það var rætt um það að sjálfstæði þjóðarinnar fælist ekki bara í löggjafarstofnun, ríkisstjórn og dómstólum heldur fælist sjálfstæði þjóðarinnar annars vegar í því að geta nýtt auðlindir hennar og helstu fyrirtæki hagkerfisins væru í innlendri eigu, svo sem bankar, orkufyrirtæki og tryggingafélög. Það er hins vegar ljóst að ef menn tengja saman einkavæðingarstefnu núv. ríkisstjórnar og samninginn um Evrópskt efnahagssvæði hafa ríkisborgarar og fyrirtæki í Evrópubandalagsríkjunum og EFTA-ríkjunum nákvæmlega sama möguleika og hver annar til að eignast bankana og tryggingafélögin og önnur lykilfyrirtæki í landinu nema í útgerð og frumvinnslu sjávarafurða.
    Það má vel vera að ýmsum liðsmönnum í ríkisstjórnarherbúðunum finnist svo komið í þjóðfélagsþróuninni að þetta tal um sjálfstæði sé dálítið gamaldags. En þá er athyglisvert að horfa á það að þeir sem hafa skrifað um möguleika þjóða og ríkja til hagvaxtar á nýrri öld hafa einmitt fært þau margvíslegu rök að því að ef það er hægt að tengja saman þjóðarmetnað starfsfólks og fyrirtækja á hinum alþjóðlegu samkeppnissviðum þá geti viðkomandi ríki náð árangri. Ef þjóðarmetnaðinum sé eytt muni samkeppnisstaða þess ríkis verða mjög veik eða með öðrum orðum, menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að þjóðarmetnaðurinn sé eitt af hreyfiöflunum í hagþróuninni. Menn leggi ýmislegt á sig vegna þess að þeir séu Íslendingar, séu Bandaríkjamenn o.s.frv.
    Ég hef við og við vitnað svolítið í yfirlýsingar og stefnugrundvöll hins væntanlega forseta Bandaríkjanna og ýmissa ráðgjafa hans á undanförnum mánuðum. Ég hef tekið eftir því að það hefur pirrað hæstv. forsrh. dálítið og ekki vil ég pirra hann mikið og vona að hann láti það ekki fara í taugarnar á sér þó ég vitni enn á ný í það, en það var auðvitað mjög athyglisvert þegar Bill Clinton kynnti nýjan viðskiptaráðherra sinn fyrir nokkrum dögum. Hann gerði það með þeim hætti að höfða ekki til einhverra óþjóðlegra markaðslögmála eða einhvers útþynnts hagfræðingaréttar. Nei, hann kynnti hinn nýja viðskiptaráðherra á grundvelli bandarísks metnaðar, að hinn nýi viðskiptaráðherra mundi tryggja hæfni Bandaríkjanna til þess að lið þeirra mundi ná árangri í hinni alþjóðlegu samkeppni, að Bandaríkjamenn mundu standa sig vel saman í keppninni líkt og Valur eða KR standa sig á fótboltavellinum. Hinn nýi forseti Bandaríkjanna hafði nefnilega áttað sig á því að ef hann missir þjóðarmetnaðinn, þjóðarstoltið út úr bandríska hagkerfinu þá vinnur hann aldrei stríðið. Þá getur hann ekki dregið úr atvinnuleysinu. Þá styrkir hann ekki bandaríska hagkerfið í alþjóðlegri samkeppni. Hvað segja allar bækurnar sem menn lesa um japanska hagkerfið? Þær segja allar að það er þjóðarmetnaðurinn sem er byggður inn í japönsku fyrirtækin, atvinnulífið og samskipti launafólks og fyrirtækjanna sem ræður úrslitum um það að þeir hafa náð árangri. Hvað eru forustumenn íslensks iðnaðar að gera þessa dagana, meira að segja um leið og þeir senda Alþingi bréf um það að það eigi að samþykkja EES? Þá er verið að verja miklum fjármunum og miklum kröftum í áróðursherferð um að kaupa íslenskt. En það er auðvitað í algerri mótsögn við hin óþjóðlegu markaðslögmál og afnám ríkisfangsins á hinu Evrópska efnahagssvæði að það skipti einhverju höfuðmáli hvort menn kaupa íslenskt eða ekki. Kjarninn í þeirri efnahagslegu hugsun sem er í þessum samningi er að það skipti akkúrat engu máli hvort menn kaupa íslenskt eða ekki. Aðalatriðið er að menn kaupi á hagstæðu verði. Það væri auðvitað mjög fróðlegt að ræða við forustumenn iðnaðarins á Íslandi þessa þversögn að segja við Alþingi: Drífið ykkur í að samþykkja EES, og segja svo við þjóðina fyrir jólin: Kaupið íslenskt.
    Nei, þess vegna vil ég segja við virðulegan ráðherra sem er í forustu um þessar mundir fyrir ríkisstjórn á Íslandi: Væri ekki ráð að huga að því að sjálfstæðið, þetta menningarlega, huglæga, félagslega fyrirbæri, sjálfstæðið, er efnahagslegur drifkraftur? Kenningin um að ná efnahagslegum drifkrafti með því að afnema þjóðarmetnaðinn og búa til viðskiptasambönd og markaðskerfi þar sem þjóðarmetnaðurinn er þurrkaður út hefur beðið skipbrot. Hún var hins vegar á góðu lífi fyrir tveimur til þremur árum. En hún hefur beðið skipbrot í dag. Þeir sem eru að reyna að endurreisa hagkerfi Bandaríkjanna, jafnvel hagkerfi Þýskalands, og ég tala nú ekki um ýmsir í okkar landi hafa einmitt áttað sig á þessu. Þess vegna er auðvitað verulega hættulegt fyrir okkur Íslendinga að ganga frá samningi sem opnar það algerlega að flestir helstu þættirnir í því, sem hafa gert íslenskt hagkerfi að séríslensku fyrirbæri, séu í hættu.
    Ég vil taka það alveg skýrt fram, ég er ekki þar með að segja að þetta muni gerast. Ég vil taka það alveg skýrt fram. Ég er ekki að fara með einhvern sérstakan hræðsluáróður um það að útlendingar munu rjúka hér til og kaupa jarðir eða kaupa hlutabréf í Sjóvá/Almennum eða Íslandsbanka eða einhverju slíku, ég er ekki að fara með neinn slíkan hræðsluáróður. Ég er hins vegar að benda á grundvallaratriði sem menn verða að áttta sig á og það er einmitt þingsins að ganga frá löggjöf um slík grundvallaratriði.
    Að lokum vil ég víkja hér varðandi þessa þætti nokkuð að stöðu Íslands innan stofnanakerfis Evrópska efnahagssvæðisins ef það tekur þá til starfa á næsta ári og setja fram nokkur rök fyrir því að staða Íslands innan stofnanakerfis Evrópska efnahagssvæðisins verður auðvitað með þeim hætti að það sé mjög hæpið að við getum ráðið við það eða það samrýmist hagsmunum okkar. Einn af áhrifamönnum í íslenskum utanríkismálum sagði fyrir skömmu, og þau orð hafa orðið mér nokkurt umhugsunarefni, að það væri mjög mikilvægt að þegar okkar litla þjóð tæki þátt í mjög víðtæku, alþjóðlegu samstarfi, þá gerði hún það af fullum myndugleika, við værum alvöruaðilar að samstarfinu. Sæti okkar væri skipað þar sem fundir væru haldnir o.s.frv. og hann benti einmitt á það að bæði á vegum Norðurlandaráðs, á vegum Sameinuðu þjóðanna, á vegum EFTA og að nokkru leyti á vegum NATO en að vísu ekki alveg, þá hefði tekist þrátt fyrir fámenni þjóðarinnar og tiltölulega lítinn fjárhag í alþjóðlegum samanburði að manna þetta af fullum myndugleika. Við værum alvöruþjóð, fáni okkar væri raunverulegur fáni og fulltrúar Íslands væru raunverulegir fulltrúar landsins. En þessi ágæti maður varaði jafnframt við því, án þess að hann væri að tala um Evrópskt efnahagssvæði, að okkar litla þjóð færi að tengjast mörgum nýjum alþjóðlegum stofnunum þar sem ljóst væri að við hefðum aldrei bolmagn til þess að vera fullgildir þátttakendur og hlytum þess vegna smátt og smátt bæði í eigin huga og í hugum hinna að verða eins konar gervimeðlimir, annars flokks. Það væri mjög hættulegt bæði sjálfsvitund þjóðar og viðhorfum annarra til okkar að vera annars flokks þátttakendur. Í þessu samhengi er auðvitað alveg nauðsynlegt að við áttum okkur á því, hæstv. forsrh., að við erum ekki nema 260 þús. Þar af er um það bil helmingur börn og gamalmenni þannig að þetta eru rúmlega 100 þús. manns sem eru að reyna að halda uppi þessu hagkerfi, halda úti þessum sendiráðum og öðrum stofnunum þjóðríkis í alþjóðlegri samvinnu. Það eru bara takmörk fyrir því hvað lítið ríki 260 þús. manna getur megnað, bæði hvað snertir fjárhag, útgjöld, embættismannasveit eða tíma stjórnmálamanna.
    Ég þekki t.d. að á fyrstu mánuðum ferlisins um Evrópskt efnahagssvæði þurfti ég að setja nokkra starfsmenn fjmrn. í vinnu vegna þessa máls. Fjmrn., sem þó er talið sterkasta íslenska ráðuneytið að mannafla og embættislegum burðum, lamaðist hins vegar algerlega mánuðum saman á verksviði þessara manna vegna þess að þeir urðu að leggja til hliðar önnur verk í stofnunum og skrifstofum ráðuneytisins. Evrópska efnahagssvæðið

er byggt upp þannig að ef við ætlum að vera fullgildir þátttakendur þá þurfum við að setja nokkur hundruð embættismanna í þessa vinnu. Auðvitað munum við ekki gera það, hæstv. forsrh. Það vitum við, við munum ekki gera það. Það eru engar tillögur uppi um það. En þá hafa menn ekki litið á hina hlið málsins að þar með er það orðið innbyggt í þátttöku okkar í þessu samstarfi að við verðum ekki fullgildir, við verðum annars flokks. Ég fullyrði að þótt sú skipan hafi verið að Bandaríkin hafi setið í stóli Íslands í ýmsum nefndum og stofnunum innan NATO á þeim forsendum að við tókum ekki sjálfir þátt í hernaðarsamvinnunni --- látum það liggja á milli hluta í þessri umræðu --- þá yrði þetta í fyrsta sinn sem Ísland gerðist aðili að fjölþættu alþjóðlegu samstarfi þar sem ljóst væri að við réðum ekki við að vera fullgildir þátttakendur.
    Núv. ríkisstjórn er að glíma við það að skera niður útgjöldin hjá ríkinu, skera niður í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, jafnvel hjá ráðuneytunum. Allt þetta ferli ef við ætlum að vera fullgildir þátttakendur stefnir hins vegar í aðra átt. Þess vegna vil ég segja hér í umræðunni að mér finnst það vera eitt af þeim viðfangsefnum sem við þurfum í sameiningu að átta okkur á hér í landinu að takmarka alþjóðlega þátttöku okkar. Ég geri mér grein fyrir því að það kann að hljóma nokkuð undarlega í eyrum ýmissa og hef ég talað mjög fyrir alþjóðlegri þátttöku og varið töluverðu af tíma mínum og starfskröftum á undanförnum árum til þess að taka þátt í slíku starfi. En ég er æ betur að gera mér grein fyrir því að 260 þús. manna þjóð ræður ekki við þetta allt saman. Ef hún ætlar að halda sessi sínum og sjálfsvirðingu þá verðum við að velja og hafna í þessum efnum því að það er stórhættulegt að við förum kannski að verða eitt af þessum litlu ríkjum í veröldinni sem stóru ríkin hafa það viðhorf til að séu upp á sig komin. Það eru t.d. til smáríki hjá Sameinuðu þjóðunum sem ráða ekki einu sinni við að borga sendiráð ríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og ýmis stór ríki borga kostnaðinn við sendiráð þessara ríkja hjá Sameinuðu þjóðunum í gegnum þróunarhjálpina.
    Ég nefni þetta hér vegna þess að mér finnst að þegar við erum sífellt að glíma við hugsanlega þátttöku Íslendinga í öllu þessu mikla alþjóðlega samstarfi, og þetta er auðvitað bara byrjunin á mörgu öðru, þá þurfum við að átta okkur hreinskilnislega á því að við erum ekki mjög stórir karlar í þessari sveit. Forsrh. Íslands og utanrrh. fá sams konar prótokollmeðferð þegar þeir koma út eins og forsætisráðherra Bretlands eða utanríkisráðherra Bretlands. Það er rétt, siðareglurnar í alþjóðlegum samskiptum eru þannig að prótokollinn gerir ekki ríkjamun. Þess vegna kannski blekkjast menn dálítið þegar þeir sitja við stóru hringborðin og íslenski fáninn hefur jafnmörg sæti á bak við sig og breski fáninn eða bandaríski fáninn eða þýski fáninn eða rússneski fáninn. En við erum bara því miður litlir karlar í þessu samstarfi eða kannski sem betur fer eftir því hvaða viðhorf menn hafa.
    Mér finnst pínulítið örla á því að ýmsir í embættiskerfinu hjá okkur og jafnvel í stjórnmálakerfinu séu farnir að lifa í þeirri sjálfsblekkingu að við séum eiginlega eins og stóru karlarnir. Þess vegna finnst mér alveg nauðsynlegt að þeir sem mæla fyrir því að við samþykkjum þennan samning um Evrópskt efnahagssvæði ræði af fullri hreinskilni í þingsalnum hvernig á að fara með þetta vandamál. Ég hef ekki orðið var við neina umræðu um það. Það er hins vegar nauðsynlegt að það verði gert því það mun blasa við okkur strax og þessi samningur tekur gildi.
    Hv. formaður utanrmn., Björn Bjarnason, hefur að ég veit haft af því nokkrar áhyggjur hvernig þjóðþingið mundi starfa við þessar aðstæður og það er virðingarvert að hann hefur leitt að því hugann að það þarf ýmislegt að breytast í starfsháttum þingins ef þetta verður að veruleika. Ég sé hins vegar ekki nokkur merki þess, virðulegi þingmaður, að í fjárhagsáætlun þingsins á næsta ári sé ætlað fyrir því. Það væri a.m.k. mjög fróðlegt ef formaður fjárln. og formaður utanrmn. gætu í sameiningu uppýst þingið áður en við göngum frá fjárlagafrv. fyrir næsta ár hversu mikið fjármagn er ætlað til þess að þjóðþing Íslendinga gæti með sæmilegri reisn tekið þátt í þessu. Ég sé ekki betur en það sé frekar verið að skera það allt saman niður.
    Þá vil ég biðja þessa ágætu menn að hugleiða þau varnaðarorð, sem ég vitnaði til í upphafi, að það gæti svo farið fyrir okkur að á tiltölulega fáum árum mundi veruleikinn gera það að verkum að við færum sjálf að hugsa eins og annars flokks þátttakendur og hinir færu að líta á okkur sem aukagemsa í þessu samstarfi. Það er vont fyrir litla þjóð vegna þess að það sem heldur Íslendum þó sjálfstæðum og hefur gert er reisnin og sjálfsálitið. Það eru í raun og veru ekki peningar.
    Það er líka ljóst að hlutverk okkar í stofnanakerfi EES ef samningurinn tekur gildi verður á næstu missirum allt annað en ætlað var í upphafi. Þegar verið var að tala fyrir þessu stofnanakerfi á sínum tíma þá var dregin upp sú mynd að EFTA-ríkin mynduðu annan hóp en EB og innan EFTA-ríkjanna mundi fara fram hreinskilnisleg umræða milli þeirra um hvað þjónaði hagsmunum EFTA-ríkjanna og þar mundu menn síðan sameinast um það að vera einn fyrir alla og allir fyrir einn. Þetta er liðið. Af hverju er þetta liðið? Vegna þess að öll þau ríki í EFTA sem ætla að vera með í Evrópska efnahagssvæðinu eru búin að ákveða að ganga í Evrópubandalagið og meira að segja, eins og ég hef vikið að, munu samningaviðræður hefjast við þau áður en EES tekur gildi. Þess vegna er alveg ljóst að það verður rík þörf fyrir Noreg, Svíþjóð, Finnland og Austurríki að sýna í stofnanakerfi EFTA að þau séu reiðubúin að fallast á sjónarmið Evrópubandalagsins því ef þau fallast ekki á sjónarmið Evrópubandalagsins innan stofnana EFTA, þá eru þau að draga úr áhrifum sínum í samningunum um beina aðild að Evrópubandalaginu. Mér finnst þess vegna alveg augljóst að Ísland á eftir að lenda í því hvað eftir annað á næstu missirum að vera eina ríkið innan stofnana EFTA á EES-svæðinu sem vill hafa sérstöðu og þá erum við sett í þá stöðu að ef við viljum fylgja þeirri sérstöðu eftir með formlegum hætti þá erum við að meina hinum ríkjunum, Noregi, Svíþjóð, Austurríki og Finnlandi að laga sig að EB sem þau hafa tekið ákvörðun um að gera. Eða með öðrum orðum, við hljótum hvað eftir að lenda í því að vera hindra Svíþjóð, Noreg, Austurríki og Finnland í aðlögun þeirra að EB. Munum við taka þá ákvörðun? Ég efast um það. Menn munu þá frekar beygja sig undir vald EB í þessum efnum og þar með sé öll grunnhugsun í stofnanakerfi EFTA fokin burt af því að markmið allra hinna ríkjanna nema okkar er orðið allt annað en það var þegar stofnanakerfið var fyrst sett fram.
    Þetta finnst mér líka vera þáttur sem ýmsir talsmenn þessa máls hafa lítt vikið að á Alþingi. Satt að segja hefur maður mjög saknað þess að þeir hefðu einurð til þess að ræða það hvernig þessi veruleiki verður þegar við stöndum frammi fyrir því að ætla að taka þátt í þessu samstarfi.
    Ég hef hér, virðulegi forseti, vikið að fjölmörgum atriðum sem hafa orðið á allt annan veg en ætlað var í upphafi þessa samningsferlis. Það snertir tengsl EFTA og EB innan tveggja stoða kerfis, það snertir kröfur okkar í sjávarútvegi, það snertir stofnanauppbygginguna, það snertir afstöðuna til eignarhalds á landi, orkulindum, það snertir stöðu lykilfyrirtækja í íslenska hagkerfinu og fjölmargt annað.
    Það var alltaf sagt á samningsferlinu að við mundum ekki fá slíkar undanþágur frá almennum reglum í þessum samningum. Ég verð að segja eins og er að þegar utanrrh. var að koma heim með þessar fréttir fyrri hluta ársins 1991 og undir lok ársins 1990 þá trúði ég þessum fullyrðingum. Það kom mér þess vegna dálítið á óvart að sjá það í endanlegri gerð samningsins um Evrópskt efnahagssvæði að Álandseyjar, sem eru lítið eyjasamfélag eins og við, höfðu fengið margvíslegar undanþágur sem utanrrh. var búið að fullyrða að væru alls ekki í boði af hálfu EB. Mér hefur mjög fundist skorta á að það væri ekki útskýrt nægilega vel hvernig stendur á því að Finnum tókst og Svíum að fá fyrir Álandseyjar undanþágur frá þessum almennu reglum sem íslenskir samningamenn segja að hafi ekki tekist fyrir Ísland. Jú, ég veit að staða Álandseyja er að forminu til önnur. Það er aukaatriði í þessu máli. Það sýnir bara það að undanþága frá ýmsum grundvallarreglum er viðurkennd í EES-samningnum sjálfum en því var alltaf haldið fram að Evrópubandalagið neitaði að viðurkenna slíkar undanþágur í prinsippinu í samningnum sjálfum. Það er auðvitað alveg ljóst ef Ísland hefði fengið ýmislegt af því sem var samþykkt gagnvart Álandseyjum þá hefði verið mun auðveldara að ná breiðri samstöðu um þennan samning á Íslandi.
    Virðulegi forseti. Í nefndaráliti 3. minni hluta eru raktar fjölþættar röksemdir sem fram koma í álitsgerðum Guðmundar Alfreðssonar og Björns Þ. Guðmundssonar og sýna

fram á að þeir telja engan vafa leika á því að þessi samningur brjóti gegn stjórnarskránni. Ég ætla ekki að endurflytja þessar röksemdir hér. Ég vísa til þess að í nál. eru raktir sérstaklega 10 þættir í áliti Björns Þ. Guðmundssonar og 23 þættir í áliti Guðmundar Alfreðssonar þar sem þessi röksemdafærsla kemur fram. Ég vil einnig taka undir þá greiningu sem fram kom hjá hv. þm. Steingrími Hermannssyni hér í gær.
    Ég vil að lokum lýsa þeirri skoðun minni að það hafi verið mjög misráðið af hæstv. ríkisstjórn að hafna óskinni um þjóðaratkvæðagreiðslu um þennan samning. Ég held að meðferð málsins hefði orðið farsælli, ég held að það hefði myndast meiri friður um niðurstöðuna og ég held að það hefði líka verið lýðræðislegra. Það er auðvitað ekki út í bláinn að samtök eins og Alþýðusambandið, BSRB, Stéttasamband bænda og Neytendasamtökin hafa stutt kröfuna um þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér telst til að þessi samtök hafa innan sinna vébanda kringum 100 þús. Íslendinga. Það er mikill meiri hluti þeirra sem eru á kjörskrá í landinu.
    Ég hef líka tekið eftir því að í þessum umræðum hafa ýmsir af stuðningsmönnum samningsins kosið að vitna í texta frá Alþýðusambandinu og frá Neytendasamtökunum og lýsa þannig meðmælum með samningnum. En ef þessir menn eru reiðubúnir að taka mark á lýsingum frá Alþýðusambandinu og Neytendasamtökunum varðandi efnistriði, af hverju eru þeir þá ekki líka reiðubúnir að taka mark á afstöðunni varðandi þjóðaratkvæði?
    Ég hef ekki heldur séð af fréttum frá Sviss eða Liechtenstein að það hafi gengið mjög erfiðlega í þessum ríkjum að láta þjóðaratkvæðagreiðsluna fara fram. Þvert á móti, það hefur gengið mjög vel. Það er líka athyglisvert ef menn vilja kynna sér umræðurnar um lýðræði innan Evrópubandalagsins að eitt af því sem menn eru þar að ræða er kannski að beita þjóðaratkvæðagreiðslu meira, þ.e. að finna form þar sem fólkið getur tekið afstöðu beint, óháð fulltrúum flokkanna. Það er tvímælalaust eitt af því sem tengist lýðræðisþróun nútímans að halda inn á þessa braut.
    Ég vil líka láta í ljósi þá skoðun eins og fram kemur í nál. að þótt samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði sé í heild sinni flókinn, þá eru í honum örfá grundvallaratriði sem eru svo einföld og skýr að sérhver landsmaður getur dæmt þau án þess að verja miklum tíma í að kynna sér þá þykku bunka sem liggja hér á borðum þingmanna. Meðal þessara grundvallaratriða er að veita ríkisborgurum Evrópubandalagsins og hinna EFTA-ríkjanna réttindi á flestum sviðum efnahagslífs og vinnumarkaðar hér á Íslandi sem hingað til hafa verið bundin við íslenska ríkisborgara eina.
    Auðvitað vita allir í þessum sal að þetta atriði, íslenski ríkisborgararétturinn í efnahagsmálum og atvinnumálum, hefur verið eitt af lykilatriðum í sjálfsvitund þjóðarinnar. Slíkt kemur fram í miklum fjölda laga í íslenska lagasafninu. Menn geta haft á því ýmsar skoðanir hvort þetta sé rétt eða rangt að vera með slík atriði. En að afnema þau í prinsippinu gagnvart 350 millj. manna með 1 1 / 2 línu í alþjóðasamningi án þess að þjóðin fái að dæma finnst mér lýðræðislega ekki ganga upp. Menn geta verið með lærðar ræður um að okkar stjórnskipun sé byggð á þingræði og ég veit ekki hvað og hvað. En það bara skiptir ekki máli í þessu samhengi. Ég held þvert á móti, virðulegi forseti, að forustumenn ríkisstjórnarinnar hafi haldið þannig á þessu máli að aldrei geti skapast um það varanleg sátt. Hvers vegna ekki? Í fyrsta lagi vegna þess að þjóðinni var meinað að segja álit sitt með sérstökum hætti. Í öðru lagi vegna þess að frá því að álit Guðmundar Alfreðssonar og Björns Þ. Guðmundssonar komu fram hefur enginn lögfræðingur treyst sér til þess að hrekja þau álit. Þau standa þess vegna á borðum þingmanna sem síðasta orðið sem þingið hefur fengið í sínar hendur um þetta mál. Þá er auðvitað svo tvímælalaust að samningurinn --- sumir segja að sé á þann veg að mikill vafi leiki á, ég segi að enginn vafi sé á að hann brýtur í bága við stjórnarskrána eftir þeim gögnum sem maður hefur og getur kynnt sér. Síðan í þriðja lagi að ríkisstjórnarmeirihlutinn hafnar tillögum bæði frá okkur í Alþb. og væntanlega einnig frá hv. þm. Steingrími Hermannssyni og Halldóri Ásgrímssyni um að hefja tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið um framtíðarskipan samskipta Íslands og Evrópubandalagsins. Síðan er kannski að bætast við þessa sólarhringana að knýja í gegn afgreiðslu á frv. sjálfu þrátt fyrir mikinn ágreining og ádeilu um tæknigalla frv.

vegna þeirra breytinga sem orðið hafa eftir úrslit atkvæðagreiðslunnar í Sviss, þá sé verið að halda þannig á málinu að það sé á engan hátt stjórnmálalega farsælt eða faglegt að samþykkja það. Mér finnst mjög miður að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna skulu hafa haldið á þessum þáttum á þann veg að þessi atriði, þjóðaratkvæðagreiðslan, stjórnarskrárþátturinn, form samskipta við Evrópubandalagið þegar ljóst er að EES er ekki til frambúðar og síðan frv. sjálft séu allt saman atriði sem bætist við efniságreining um einstök innihaldsatriði í samningnum sjálfum.
    Eins og fram kemur í nefndarálitinu og samþykkt stofnana Alþb. í sumar er niðurstaða mín og flokks míns sú að í ljósi þess að því hefur verið hafnað að gefa þjóðinni kost á að segja álit sitt á þessum samningi, í ljósi þess að það liggur fyrir að okkar dómi að samningurinn er tvímælalaust brot á stjórnarskránni, í ljósi þess að enn sem komið er a.m.k. hefur ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi ekki viljað fara þá leið að hefja tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið um varanlegt form samskipta okkar, þá teljum við rökrétt og eðlilegt að greiða atkvæði gegn því staðfestingarfrv. sem hér er til meðferðar.