Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 17:53:41 (3563)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. kannast við það að Hæstiréttur Íslands hefur lýst því yfir að þingmaðurinn hafi tekið þátt í því eða staðið í því stjórnskipulega að brjóta stjórnarskrána. Jafnvel þó hann hafi ekki setið sem þingmaður þá bar hann stjórnskipulega ábyrgð sem hluti af bráðabirgðalöggjafarvaldinu þegar þessi lög voru sett. Hann staðfestir hér að hann átti sig á því að Hæstiréttur hafi lýst því yfir að hann hafi brotið stjórnarskrána þannig að hann veit hvernig mönnum líður þegar þeir brjóta stjórnarskrána. Hann og hv. 7. þm. Reykn. eru þeir einu sem ég veit um í þessum sal fyrir utan þá stuðningsþingmenn hans þar sem liggur fyrir yfirlýsing um það að þeir hafi brotið stjórnarskrána. Þingmaðurinn er að nugga okkur upp úr því að við munum brjóta stjórnarskrána. Hann hefur enga burði til að segja fyrir um það. Þessi hv. þm. tekur jafnframt fram að minni hluti dómsins, annar dómendanna, Þór Vilhjálmsson, sem taldi að hv. þm. Steingrímur Hermannsson og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafi ekki verið að brjóta stjórnarskrána, hann hafði ekki vit á málinu. Hann trúði honum ekki þá, hann trúir honum ekki heldur núna.
    En það liggur fyrir að þessi maður sem er að nugga okkur upp úr því að við kunnum að brjóta stjórnarskrána hefur verið staðinn að því samkvæmt úrskurði Hæstaréttar og hann eiginlega bara fagnar því hér og nú fyrst það vildi svo vel til að Þór Vilhjálmsson var í minni hluta og taldi að þingmenn hefðu ekki brotið stjórnarskrána og hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefði ekki brotið stjórnarskrána, þá gerir hann ekkert með það og fagnar því því það veikir Þór Vilhjálmsson. Það er ekki mergur máls. Mergur máls er að Hæstiréttur úrskurðaði að þessir herramenn hefðu brotið stjórnarskrána þannig að þessir menn geta ekki talað hátt við okkur hina.