Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 17:58:07 (3565)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég tel að eðlilegt sé í þessari stöðu að þingmenn geri þá kröfu að þeim verði afhentur þessi dómur Hæstaréttar, að þeir fái í sínar hendur skriflegan dóm Hæstaréttar í þessu máli. Hér hafa verið sögð stór orð, fullyrt hvað Hæstiréttur hafi sagt. Ég ætla ekki að rengja það á þessari stundu. Mér er það ekki ljóst í stöðunni. Mér hafði verið sagt að jafnræðisreglan hefði verið brotin en hvað um það. Hæstv. forseti þingsins gæti auðveldað leitina að sannleikanum í þessu með því að beita sér fyrir að þingmenn fengju í hendur þennan dóm.
    Tveir fyrrv. ráðherrar Sjálfstfl. hafa hlotið dóma í Hæstarétti fyrir reglugerðir sem þeir hafa gefið út. Þeir dómar eru skjalfestir. Annars vegar var það hv. þm. og fyrrv. ráðherra Pálmi Jónsson, það varðaði fóðurbætisskatt. Hins vegar var það hv. þm. Matthías Bjarnason, fyrrv. ráðherra, það varðaði þungaskatt. Þessir dómar liggja fyrir. Hér er talað um nýjan dóm sem hafi verið felldur gagnvart ráðherrum eða þinginu. Ég tel nauðsynlegt að þingmenn fái þennan dóm í hendur og geti lesið hann til að átta sig á því hvort fullyrðingar forsrh. í þessu sambandi standast eða standast ekki.