Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 18:01:07 (3567)


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Komið hefur fram ósk um að hv. efh.- og viðskn. geti haldið fund ótrufluð af því að hér fari fram þingfundur og mun forseti verða við því og fresta þessum þingfundi fyrr en ætlað var. Áður en það gerist vill forseti að gefnu tilefni vegna orða hv. 1. þm. Norðurl. v. fyrr á þessum fundi, endurtekinna fsp. hv. 18. þm. Reykv. og reyndar fleiri þingmanna, svo og vegna bréfs sem lesið var upp hér á fundinum og forseta barst í hendur nokkru síðar, taka eftirfarandi fram:
    Í stjórnarskrá og þingsköpum eru skýr ákvæði um það hvaða formskilyrðum lagafrv. þarf að uppfylla til þess að koma á dagskrá Alþingis til umræðu og afgreiðslu. Í fyrsta lagi þarf frv. að vera borið fram af þingmanni eða ráðherra. Í öðru lagi þarf frv. að vera með lagasniði. Í þriðja lagi má frv. ekki vera um breytingar á stjórnarskrá nema þess sé getið í fyrirsögn þess og loks í fjórða lagi þarf að leggja frv. fram eigi síðar en sex mánuðum eftir að þing er sett nema leyfi þingsins komi til.
    Ekkert þessara skilyrða er að mati forseta í vegi fyrir því að dagskrármálið, sem hér er rætt, geti hlotið umræðu og afgreiðslu. Málið liggur hér fyrir eftir athugun utanrmn. á því. Fyrir liggja nefndarálit og umræða er hafin. Málið er því nú í höndum Alþingis til afgreiðslu við 2. umr.
    Forseti getur ekki sem slíkur lagt efnislegt mat á frv. Á efni þess ber sá ábyrgð sem frv. flytur, í þessu tilviki ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis, hvernig svo sem hann er saman settur hverju sinni, ber ábyrgð á afgreiðslu máls.
    Til að kveða skýrt að orði úrskurðar forseti því að þær athugasemdir, sem fram hafa komið um að málinu sé í einhverju áfátt, að það sé ekki ,,þingtækt`` eins og hv. þm. hafa orðað það, séu ekki gildar og því heldur þessi umræða áfram.