Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 18:10:24 (3571)

     Geir H. Haarde (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að sá úrskurður, sem nú hefur verið lesinn, liggur fyrir. Það er misskilningur hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. að það hafi verið óviðeigandi að fella þennan úrskurð fyrir fund utanrmn. sem haldinn verður eftir um það bil klukkustund. Þetta mál er ekki lengur á forræði utanrmn. Nefndin hefur skilað þessu inn til þingsins. Menn geta að vísu haldið áfram að ræða mál þar áfram ef þeir vilja og það hefur verið

óskað eftir því og sá fundur verður haldinn von bráðar, en það er að sjálfsögðu forseta þingsins að kveða upp úrskurð sem þennan og ef menn vilja ekki una honum eins og fram er komið, þá eiga þeir að óska eftir því að sá úrskurður verði borinn undir þingið sjálft. Það getur enginn tekið slíka ákvörðun fyrir hönd þingmanna. Ef menn vilja ekki una úrskurði forseta þá verður þingið sjálft á endanum að taka af skarið.