Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 23:14:39 (3587)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt auðvitað að fagna því að hæstv. utanrrh. hefur í þessari umræðu allt í einu fengið málið og fengist til að tala eftir yfirlýsingar sínar utan þings

um líkamlega burði alþingismanna, þvagfæri þeirra og annað sem hæstv. ráðherra hefur talið eðlilegt að fjalla um með sérstökum hætti í nafni utanrrn. Sömuleiðis er þetta fróðlegt eftir yfirlýsingar hæstv. forsrh. um það að alþingismenn væru yfir höfuð óróabelgir og vandræðabörn.
    Það alvarlega sem lá í orðum hæstv. utanrrh. var að hann var í raun og veru með kröfu um að breyta í grundvallaratriðum þeim reglum sem gilda um umræður á Alþingi Íslendinga. EES-málið er stærsta málið sem hér hefur komið inn í sögu lýðveldisins, segja margir. Hvað hafa menn fjallað lengi um það á Alþingi til þessa? Í 31 klukkustund. Hvað var fjallað lengi hér um bandorminn á síðasta kjörtímabili, frv. til laga um ráðstafanir í ríksfjármálum? Hversu langan tíma tók það? 49 klukkustundir. Dæmið liggur því þannig núna að Alþingi er ekki nándar nærri búið að eyða jafnmiklum tíma í þetta stærsta mál lýðveldisins, og allar umræðurnar á síðasta þingi um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þess vegna vísa ég á bug þeim ómerkilega skætingi í garð Alþingis Íslendinga sem hæstv. utanrrh. hefur látið sér sæma að fara með nú og fyrr.