Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 23:21:58 (3594)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. spurði hvenær Alþingi hefði afgreitt stjórnarskrármálið. Það gerði Alþingi með því að vísa framkominni tillögu stjórnarandstöðunnar til ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. hafði því miður ranglega eftir mér að ég hefði haft uppi þau orð að við hefðum fengið allt fyrir ekkert. Þetta er ég búinn að leiðrétta úr þessum ræðustól svo oft að ég man ekki lengur hversu oft. Staðreyndin í málinu er sú, og ég bið hv. þm. að taka eftir því, að það var viðsemjandi okkar Frans Andriessen, utanríkisráðherra framkvæmdastjórnar EB, sem hafði þau orð uppi við mig og aðalsamningamann Íslands: Þið Íslendingar skuluð ekki halda að þið komist upp með að fá allt fyrir ekkert í þessum samninum. Ég hef aldrei tekið mér þau orð í munn hv. þm. (Gripið fram í.) Ég hef aldrei tekið mér þau orð í munn. Og ég bið hv. þm. að viðhalda ekki þeirri goðsögn.