Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 23:24:49 (3596)


     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Kvennalistinn er í þeirri sérkennilegu stöðu á Alþingi að fulltrúi þingflokksins í utanrmn. hefur komist að annarri niðurstöðu um afstöðuna til samningsins um

Evrópskt efnahagssvæði en aðrar þingkonur Kvennalistans. Þar sem við höfum ekki tækifæri til að koma sjónarmiðum okkar á framfæri í nefndaráliti mun ég í þessari ræðu gera grein fyrir nokkrum af okkar sjónarmiðum en aðrar þingkonur munu gera frekari grein fyrir sjónarmiðum sínum síðar í umræðunni.
    Kvennalistinn er andvígur því að Ísland gerist aðili að Evrópsku efnahagssvæði og Evrópubandalaginu. Í stefnuskrá samtakanna segir, með leyfi forseta: ,,Kvennalistinn vill að Ísland standi utan Evrópubandalagsins og Evrópska efnahagssvæðisins.`` Jafnframt er í stefnuskránni lögð áhersla á góð samskipti Íslands við Evrópubandalagið, ekki bara á viðskiptasviðinu heldur ekki síður á öðrum sviðum þar á meðal í rannsóknum, umhverfismálum, menningar- og menntamálum.
    Á undanförnum árum hefur verið að birta til í samskiptum risaveldanna og í afvopnunarmálum. Allt frá stríðslokum hefur heiminum verið skipt upp í tvö svæði sem að meira eða minna leyti hafa verið undir áhrifum risaveldanna tveggja. Nú hafa þau stórmerki gerst að Sovétríkin hafa liðið undir lok og með þeim hrundi miðstýrt og ólýðræðislegt stjórnkerfi sem kennt hefur verið við Marx og Lenin. Það er hins vegar kaldhæðnislegt að á sama tíma og það kerfi hrynur til grunna er í uppsiglingu annað og ekki síður miðstýrt kerfi í Vestur-Evrópu en þar á ég við Evrópubandalagið. Þannig er verið að skipta heiminum upp í viðskiptablokkir sem vilja einangra sig að meira eða minna leyti frá öðrum og fátækari hlutum heimsins. Þetta er óheillavænleg stefna sem Íslendingar eiga að vinna gegn.
    Ástæður þess að aðild að Evrópsku efnahagssvæði þjónar ekki hagsmunum Íslendinga eru margvíslegar og hafa mismikið vægi í hugum þeirra sem telja að Ísland eigi að fara aðrar leiðir í samskiptum sínum við aðrar þjóðir. Aðild að Evrópsku efnahagssvæði mun ekki verða konum til framdráttar heldur fremur hið gagnstæða. Þar sem hámarksgróði og aukinn hagvöxtur er höfuðmarkmiðið lúta jafnréttissjónarmið í lægra haldi og lítið tillit er tekið til barna og þeirra sem eldri eru og veikburða. Afleiðing slíkrar stefnu bitnar frekar á konum en körlum. Aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði er skref á leið inn í Evrópubandalagið. Með aðild að EES og EB væri Ísland að afsala sér verulegum hluta af sjálfsákvörðunarrétti sínum í mikilvægum málaflokkum.
    Með myndun Evrópsks efnahagssvæðis eru sjálfstæðar þjóðir ekki að gera viðskiptasamning sín á milli heldur er verið með sama hætti og innan EB að mynda pólitísk samtök með yfirþjóðlegum stofnunum sem fara eiga með hluta þess valds sem nú er í höndum ríkisstjórna, þjóðþinga og dómstóla.
    Aðild að EES samrýmist ekki íslensku stjórnarskránni að mati færustu sérfræðinga. Alþingi ætti aldrei að samþykkja lagafrv. sem líklegt er að samrýmist ekki stjórnarskrá lýðveldisins. Hætta er á að aðild Íslands að EES muni þvinga íslenskt atvinnulíf og framleiðslu til vaxandi einhæfni. Aðild að efnahagssvæði þar sem fyrst og fremst er miðað við hag stórfyrirtækja mun leiða til þess að staða smáiðnaðar og þjónustu versnar í jaðarríkjum. Aukin byggðaröskun blasir við nema til komi víðtækt styrkjakerfi eins og nú tíðkast innan EB.
    Hagsmunir Íslands eru ekki tryggðir með aðild Íslands að EES heldur eigum við að byggja samstarf við EB á gildandi fríverslunarsamningi og knýja á um endurbætur á honum. Aðild að EES hefur þá hættu í för með sér að Ísland verði hart úti í útjaðri svæðisins. Allar líkur eru á að aðild leiði til þess að ekki verði hægt að reisa skorður við útflutningi á hálfunnum og óunnum fiski, sparifé streymi frá landinu og erlendir fjárfestingaraðilar sjái sér hag í að fjárfesta í undirstöðugreinum í íslensku atvinnulífi, ekki síst sjávarútvegi og nái þar varanlegum ítökum. Fyllsta ástæða er til að óttast að ekki verði gerðar fullnægjandi kröfur um umhverfis- og neytendavernd innan EES. Reglur á þessu sviði mega ekki hindra samkeppni í viðskiptum og hefur reynslan sýnt að erfitt er að setja strangar reglur um umhverfismál vegna þessa ákvæðis. Markmiðin um aukna framleiðni og hagvöxt leiða óhjákvæmilega til vaxandi mengunar og orkusóunar.
    Fyrir aðgang að mörkuðum EB og lækkun tolla á sjávarafurðum hafa Íslendingar orðið að greiða með aðgangi EB-skipa að fiskveiðilögsögu landsins. Með aðild að EES

væri Ísland að tengjast efnahagssvæði þar sem stöðug hnignun hefur verið í efnahagslífi að undanförnu, atvinnuleysi hefur farið vaxandi og lífskjör almennings versnað.
    Ég tek eftir því, virðulegur forseti, að hæstv. utanrrh. treystir sér ekki til að sitja hér lengur. ( ÓÞÞ: Það verður að gera hlé á fundinum og hvíla manninn og hefjast svo aftur handa.) ( Gripið fram í: Hvað með líkamsburðina?) ( ÓÞÞ: Það má ekki misbjóða líkamsburðum utanrrh.) Ef hæstv. utanrrh. vill ekki hlýða á álit meiri hluta þingflokks Kvennalistans þá verður það að vera hans mat. Ég hef ekki geð í mér til að óska eftir því að hann sitji hér ef hann hefur ekki frumkvæði sjálfur. Ég verð að viðurkenna það, virðulegur forseti. Ég ætla að halda áfram ræðu minni. Hann verður sjálfur að meta hvort hann sitji hér í þingsal eða ekki. (Forseti: Hv. þm. óskar sem sagt ekki eftir að forseti geri hæstv. ráðherra viðvart.) ( SvG: Forseti getur nú samt látið ráðherrann vita.) Frú forseti. Ég tók það fram að ég óskaði auðvitað eftir að hæstv. utanrrh. hlýddi á álit meiri hluta þingflokks Kvennalistans en ef hann telur sér ekki fært að gera það af einhverjum ástæðum þá verður það að vera hans mat. Ég vek bara athygli á þessari staðreynd. Einnig vekur það athygli mína að formaður utanrmn. hefur einnig vikið sér frá og vill ekki hlusta á það sem við höfum fram að færa.
    Íslendingar eiga meira undir utanríkisviðskiptum en flestar aðrar þjóðir. Frjáls vöruviðskipti eru þjóðinni hagkvæm og mikilvægt að geta stundað tollfrjálsa verslun með útflutningsafurðir. Sérstaða Íslands sem fiskveiðiþjóðar veldur því að afar óskynsamlegt er að binda þjóðina einum markaði eða efnahagssvæði sem þrengt gæti svigrúm hennar. Þvert á móti þjónar það hagsmunum okkar að vera óháð út á við og leita sem bestra samskipta með beinum samningum við einstök ríki og markaðsheildir. Þannig styrkjum við stöðu okkar út á við og treystum efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Við höfum góða vöru að bjóða og ef rétt verður á málum haldið höfum við sterka samningsstöðu.
    Aðild að Evrópsku efnahagssvæði þjónar ekki langtímahagsmunum Íslendinga. Því vill Kvennalistinn móta framtíð utan hins Evrópska efnahagssvæðis. Með því móti getum við aðlagað og mótað okkar innanlandslöggjöf með tilliti til okkar eigin hagsmuna og samkvæmt eigin ákvörðunum í stað þess að taka við löggjöf Evrópubandalagsins á færibandi.
    Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði, sem nú er kominn til 2. umr. í þinginu, á sér nokkuð langan aðdraganda. Það má segja að umræðan um Evrópskt efnahagssvæði hafi hafist á Alþingi hinn 9. mars 1989 er ég kvaddi mér hljóðs utan dagskrár um væntanlegar viðræður um Evrópskt efnahagssvæði. Þá stóð fyrir dyrum að þáv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, og þáv. og núv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, færu á leiðtogafund EFTA í Ósló 14. og 15. mars til að ræða hugmyndir um að stofnað yrði sameiginlegt efnahagssvæði EB-ríkja og EFTA-ríkja. Á þeim fundi lýsti forsrh. því yfir að við yrðum að hafa fyrirvara hvað varðaði frelsi á sviði fjármagnshreyfinga, þjónustu og fólksflutninga en lagði áherslu á frjálsa verslun með vörur. Forsrh. sagði einnig í yfirlýsingu sinni orðrétt, með leyfi forseta: ,,Við getum aldrei gefið okkur á vald yfirþjóðlegum stofnunum. Við getum aldreið afsalað okkur fullveldinu eða rétti til að tryggja afkomu okkar og sjálfstæði.``
    Það leit því í fyrstu út fyrir að ríkisstjórnin ætlaði að fara sér hægt og feta slóðina með þessi orð forsrh. að leiðarljósi. Þann 20. okt. 1989 lauk sex mánaða könnunarviðræðum EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið og þá var stefna tekin á Evrópskt efnahagssvæði með svokölluðum undirbúnings- og samningaviðræðum. Í umræðum á Alþingi um skýrslu utanrrh. um könnunarviðræðurnar þann 23. nóv. 1989 minnti ég á fyrirvara forsrh. og að ósköp lítið færi fyrir þeim og að svo virtist sem samningamenn ríkisstjórnarinnar með utanrrh. í broddi fylkingar hefðu alveg gleymt þeim.
    Í umræðum eftir að könnunarviðræðunum lauk lögðu kvennalistakonur áherslu á að farið yrði í beinar tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið án þess að taka þátt í Evrópsku efnahagssvæði. Við gerðum okkur þá strax ljóst hvert stefnt væri. Við lögðum áherslu á að flýta viðræðum við EB um aðgang að mörkuðum þeirra með fiskafurðir en sá þáttur hafði þá mætt algerum afgangi. Jafnframt lögðum við áherslu að það væri hreint glapræði að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð var með könnunarviðræðunum. Við töldum

einnig að ef ganga ætti til samningaviðræðna yrði tekin formleg afstaða til málsins á Alþingi. Á þetta var ekki fallist en þess í stað samþykkti ríkisstjórnin að utanrrh. fengi umboð til að taka þátt í samningaviðræðum með þeim fyrirvörum sem settir höfðu verið fram.
    Samningaviðræður hófust svo í júní 1990. Fljótlega kom í ljós að utanrrh., sem leiddi viðræðurnar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, tók lítið sem ekkert mark á fyrirvörum sem gerðir voru af hálfu forsrh. á fundi í Ósló í mars 1989. Kom þetta ítrekað fram í umræðum á Alþingi. Því var þó ávallt haldið fram af forsrh. og raunar fleiri ráðherrum í ríkisstjórninni að Ísland gerði enn sömu fyrirvara og áður þó flestum sem kynntu sér málið væri ljóst að þeim var ekki haldið til haga. Það má því segja að utanrrh. hafi tekist að koma samningnum um Evrópskt efnahagssvæði áfram í öll þessi ár án þess að skýrt lægi fyrir um hvað málið snerist eða að pólitískur stuðningur meiri hluta Alþingis væri fyrri því.
    Nú stöndum við frammi fyrir gerðum hlut af stjórnvalda hálfu: samningi um Evrópskt efnahagssvæði sem er stórt skref inn í sjálft Evrópubandalagið. Ríkisstjórnin virðist halda að með því að staðfesta samninginn sé þar með öllu borgið á Íslandi. Hjálpræðið muni koma að utan. Flestir hljóta að sjá að þetta eru blekkingar einar. Við verðum sjálf að vinna okkur út úr erfiðleikunum, enginn annar gerir það fyrir okkur ekki heldur Evrópubandalagið. Alþingi á síðasta orðið í þessu máli og við skulum vona að þingið beri gæfu til að vísa málinu frá.
    Í Evrópu er nú mikil lýðræðisvakning. Sérstaklega á þetta við um Austur-Evrópu þar sem almenningur braust undan oki miðstýrðs og ólýðræðislegs stjórnkerfis. Í Vestur-Evrópu gera fleiri og fleiri sér grein fyrir hvert stefnir með áformum stjórnvalda um að steypa allri Vestur-Evrópu í eina heild. Mótmælt er vaxandi miðstýringu og skerðingu lýðræðis og þeirri tilhneigingu að embættismenn og stjórnmálamenn einir ráði ferðinni. Þrátt fyrir vaxandi áhyggjur fólks af þróuninni kemst almenningur ekki upp með moðreyk. Einskis er svifist til að kveða niður viðleitni til að koma í veg fyrir þá óheillaþróun sem nú er að eiga sér stað í Vestur-Evrópu eins og m.a. kemur fram í gegndarlausum fjáraustri til stuðnings EES og Maastricht-samkomulaginu.
    Evrópubandalagið stefnir að því að aðildarríkin myndi að lokum eitt stórríki með sameiginlega yfirstjórn á flestum sviðum, sameiginlega efnahagsstjórn að öllu leyti og komið verði á efnahags- og myntbandalagi og sameiginlegri utanríkisstefnu. Stefnt er að því að koma á fót sameiginlegum lögreglu- og öryggissveitum og sameiginlegri varnarmálastefnu. Evrópubandalagið stefnir því markvisst í það að verða miðstýrt ólýðræðislegt stórríki. Við eigum að varast þessa þróun og gæta þess að hafna ekki í netinu. Með aðild að Evrópsku efnahagssvæði væri tekið stórt skref inn í Evrópubandalagið.
    Meiri hluti Alþingis hefur hafnað þeirri sjálfsögðu lýðræðiskröfu að um þennan afdrifaríka samning fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Með því er komið í veg fyrir að almenningur fái að segja álit sitt á stærsta máli sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir frá því að lýðveldið var stofnað. Þann 4. nóv. sl. voru forseta Alþingi afhentar undirskriftir meira en 34 þús. kjósenda þar sem tekið var undir kröfuna um þjóðaratkvæði um EES-samninginn. Enda þótt svo margir skrifuðu undir kröfuna um þjóðaratkvæðagreiðslu og skoðanakannanir sýni að yfir 70% kjósenda styðja þá kröfu felldi naumur meiri hluti Alþingis tillögu þess efnis.
    Valdhafar eru því hér sem annars staðar algerlega úr takt við almenning og taka ekkert tillit til vilja fólksins. Ríkisstjórnin og fylgismenn hennar reyna að gera lítið úr því hvað felst í því að Ísland gerist aðili að Evrópsku efnahagssvæði. Þeir reyna jafnvel að halda því fram að aðeins sé um venjulegan viðskiptasamning að ræða. Þeir reyna að gera lítið úr því að með aðild væri Ísland að afsala sér mikilvægum stjórntækjum í efnahags- og atvinnumálum. Samfara samningnum verða Íslendingar að lögfesta 1.400 lagabálka EB sem fjalla m.a. um efnahags- og fjármál. Þannig munu 11.000 síður bætast við íslenska lagasafnið sem nú nær ekki 2.000 síðum. Með EES er í raun verið að steypa allri Vestur-Evrópu í eina efnahagsheild. Allt frumkvæði í lagasetningu á gildissviði samningsins yrði í höndum Evrópubandalagsins og Alþingi gefst aðeins kostur á að segja já eða nei.
    Nú þegar höfum við á Alþingi fengið forsmekkinn að því sem koma skal. Inn á

borð þingmanna streyma lagafrumvörp sem lögtaka þarf ef EES verður að veruleika. En það er ekki þar með búið. Nú þegar liggur fyrir að Alþingi er ætlað að afgreiða á þriðja hundrað samþykktir Evrópubandalagsins sem gerðar hafa verið frá því um mitt ár 1991 þegar samningagerð var lokið og þangað til nú. Enginn íslenskur aðili eða stofnun hefur fjallað um þessar gerðir EB hingað til. Þótt formlega séð geti Alþingi hafnað samþykktum EB væri það með því í raun að segja samningnum upp. Grundvöllurinn er að á öllu svæðinu gildi sömu reglur og á efnahagssviðinu og því getur eitt ríki ekki skorið sig úr að þessu leyti. Því verður ekkert lát á tilskipunum og lagafyrirmælum frá Evrópubandalaginu til Alþingis ef aðild að EES verður að veruleika. Öll lagasetning á gilidssviði samningsins yrði því í höndum EB en ekki Alþingis. Þetta er ekki síst ógnvekjandi miðað við þá efnahagsstefnu sem EB grundvallast á og mótuð er af fjármálarisum og fjölþjóðafyrirtækjum.
    Sú hagvaxtarstefna sem lögð til grundvallar í Evrópubandalaginu og þar með á hinu Evrópska efnahagssvæði er stefna sem Kvennalistinn hefur barist gegn. Hagfræðimælingar, sem víðast hvar er beitt til að leggja mat á efnahagsþróun, eru úreltar og ófullnægjandi þar sem þær taka aðallega mið af skammtímahagsmunum en sniðganga nýja sýn til umhverfismála. Í þeim aðferðum, sem mest er byggt á við ákvarðanir í efnahagsmálum hér sem annars staðar, er ekkert tillit tekið til þeirra hættumerkja sem hrannast upp. Með aðild að EES og EB værum við að ýta undir mengun og sóun sem er afleiðing slíkrar hagvaxtarstefnu. Með því að standa utan efnahagsbandalaga gætu Íslendingar haft nokkur áhrif á þá efnahagsstefnu sem við viljum fylgja hér á landi og hægt væri að fara aðrar leiðir en þær sem Evrópubandalagið ákvæði.
    Árið 1984 náðu aðildarríki EB og EFTA samkomulagi um yfirlýsingu, svokallaða Lúxemborgaryfirlýsingu, sem er sá grunnur sem síðan hefur verið byggt á margþætt samstarf EB og EFTA. Í yfirlýsingunni er lögð áhersla á að með niðurfellingu tolla og magntakmarkana sem höfðu áhrif á tvíhliða viðskipti með iðnaðarvörur hefði stærsta fríverslunarsvæði heims orðið að veruleika. Helstu samstarfssvið, sem tengjast fríverslunarsamningnum og unnið hefur verið að, eru samræming staðla, afnám tæknilegra hindrana og einföldun landamæraeftirlits, reglur um uppruna vöru, aðgerðir til að koma í veg fyrir óheiðarlega viðskiptahætti, ríkisstyrkir og aðgangur að opinberum útboðum. Önnur samstarfssvið sem unnið hefur verið að á grundvelli Lúxemborgaryfirlýsingarinnar eru m.a. samgöngumál, umhverfismál, menntunarmál og samvinna um rannsóknir og þróun. Á þessu sést að um samstarf hefur verið að ræða milli EB og EFTA-ríkja á mörgum sviðum og hægt að þróa slík tvíhliða samskipti áfram báðum til hagsbóta.
    Þótt aðild að Evrópsku efnahagssvæði yrði hafnað er ekkert sem bendir til þess að Íslendingar geti ekki áfram átt aðild að ýmsum samstarfsverkefnum sem þeir hafa verið þátttakendur í fram að þessu. Áhersla hefur verið lögð á það af hálfu Íslendinga að vera þátttakendur í samstarfi á sviði rannsókna og þróunar. Nú er Ísland aðili að áætlun EB um samstarf skóla og atvinnulífs, um þjálfun og vísindarannsóknir, svokallaðri COMETT-áætlun og samstarf um nemenda- og kennaraskipti, ERASMUS eins og það er kallað. Aðild að þessum verkefnum er óháð aðild að EES. Lögð hefur verið á það áhersla að með EES-samningnum taki Ísland fullan þátt í svokallaðri þriðju rammaáætlun EB á sviði rannsókna og þróunar. Þetta gæti orðið lyftistöng fyrir rannsóknir á Íslandi ef rétt er á málum haldið. Áætlað er að full aðild að rammaáætluninni kosti 60--70 millj. kr. sem eru miklir peningar á mælikvarða íslenskra vísindastofnana. Ef ekki verður stefnubreyting af hálfu stjórnvalda í rannsóknamálum er ljóst að íslenskar vísindastofnanir geta ekki nýtt sér þetta samstarf með viðunandi hætti. Knappar fjárveitingar til rannsókna um langan tíma hafa m.a. staðið í vegi fyrir að íslenskir vísindamenn hafi getað tekið eðlilegan þátt í samstarfi við erlenda vísindamenn. Samkvæmt frv. til fjárlaga er ekki gert ráð fyrir aukinni fjárveitingu til rannsókna frá því sem verið hefur. Hætt er því við að aðild að rannsóknaáætlunum EB verði ekki sú lyftistöng sem hún annars gæti orðið. Á sama hátt og þátttaka í COMETT- og ERASMUS-áætluninni er óháð aðild að EES er ekkert sem bendir til annars en að við gætum orðið aðilar að rammaáætluninni, þ.e. þriðju rammaáætluninni að einhverju eða öllu

leyti. Þó ber að hafa í huga að rannsóknaáætlanir Evrópubandalagsins hafa til þessa eingöngu tekið til svokallaðra hagnýtra rannsókna á sviði raunvísinda en minni áhersla verður lögð á grunnrannsókir og hugvísindi hafa verið afskipt með öllu. Jafnframt því að efla og auka samstarf við Evrópuþjóðir á þessu sviði er mikilvægt að rækta önnur tengsl utan álfunnar. Áralöng samvinna hefur verið milli íslenskra vísindamanna við vísindastofnanir og háskóla vestan hafs og er mikilvægt að rækta þau tengsl og efla.
    Í stað þess að gerast aðilar að Evrópsku efnahagssvæði væri eðlilegra að halda áfram samstarfi við Evrópubandalagið á grundvelli Lúxemborgaryfirlýsingarinnar og leita eftir tvíhliða viðræðum um hagsmunamál Íslands. Þetta á ekki síst við vegna þess að önnur aðilarríki EFTA hafa sótt um inngöngu í EB en það hefur ekki verið á dagskrá íslenskra stjórnvalda enn sem komið er. Gildandi fríverslunarsamningar við EB eru okkur tiltölulega hagstæðir. Á þeim eigum við að byggja í viðræðum við EB. Staða íslensks iðnaðar breytist ekki svo að teljandi sé með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Iðnaðurinn býr við fullt tollfrelsi samkvæmt fríverslunarsamningnum frá 1972 og um þær viðskiptahindranir sem kunna að vera til staðar á semja eins og t.d. hefur verið gert á sviði staðla.
    Mikil áhersla hefur verið lögð á það af hálfu þeirra sem vilja aðild Íslands að EES hve ávinningur sjávarútvegsins sé mikill af samningnum. Rétt er að rifja upp að pólitískur aðgöngumiði að samningaviðræðunum í upphafi var krafan um fríverslun með fisk sem fól í sér tollfrelsi með allan fisk og að styrkir Evrópubandalagsins við sjávarútveginn yrðu lagðir af. Þetta hefði auðvitað falið í sér að Evrópubandalagið hefði orðið að láta af sjávarútvegsstefnu sinni sem felst m.a. í því að fiskvinnslufyrirtæki innan EB eru mikið styrkt. Það þurfti ekki að koma á óvart að EB hafnaði þessari kröfu. Það er einkar athyglisvert að nú þegar samningurinn liggur fyrir er reynt að gera niðurfellingu á tollum sem þó fékkst fram að aðalatriði. Auðvitað er mikilsvert að fá lækkun tolla á okkar vörum á markað Evrópubandalagsins og til mikilla hagsbóta fyrir íslenskan sjávarútveg en ætlað hefur verið að tollar af sjávarafurðum frá Íslandi hafi numið 1,5--2 milljörðum kr. Fráleitt er að halda því fram að þær krónur renni allar í vasa Íslendinga.
    En svo góð sem niðurfelling tolla er verður einnig að halda því til haga hvaða verði slík tollalækkun er keypt. Aðgangur fiskiskipa EB að fiskimiðum Íslendinga er aðgöngumiðinn að mörkuðum þeirra þrátt fyrir yfirlýsta stefnu Íslendinga. Í tengslum við EES-samninginn var gerður rammasamningur við EB um fiskveiðimál og lífríki hafsins og fiskveiðisamningur í tengslum við hann. EB gerir að skilyrði að sá hluti EB-samningsins, sem fjallar um lækkun tolla á fiski, þ.e. bókun 9, taki ekki gildi nema fiskveiðisamningurinn liggi fyrir. Reynt hefur verið af hálfu utanrrh. að kalla fiskveiðisamninginn við EB samning um gagnkvæmar veiðiheimildir en það eru blekkingar einar þegar betur er að gáð.
    Reynt er að halda því fram að í stað 30 þús. tonna af karfa sem skip EB eiga að fá að veiða innan íslenskrar lögsögu eigi íslensk skip að fá að veiða 30 þúsund tonn af loðnu í íslenskri eða grænlenskri lögsögu sem við hefðum hvort sem er fengið að veiða. Ef ætlunin er í raun og veru að semja um gagnkvæm veiðiréttindi nær það auðvitað engri átt að afsala sér 3 þús. tonnum af karfa og þiggja í staðinn 30 þús. tonn af loðnu sem við fengjum hvort sem er að veiða. Með þessum samningi er því verið að veita aðgang að íslenskum sjávarauðlindum í skiptum fyrir aðgang að mörkuðum og lækkun tolla en það er nokkuð sem menn sögðu aldrei mundu gera.
    Gildistími rammasamningsins er 10 ár og er hann óuppsegjanlegur á þeim tíma. Á hverju ári er gert ráð fyrir að semja þurfi um veiðiheimildir. Íslendingar þurfa því að standa í árlegu samningastappi við Evrópubandalagið um veiðiheimildir EB-skipa innan íslenskrar lögsögu.
    Nú þegar hefur sýnt sig að EB er erfiður samningsaðili og má alveg búast við að kröfur um auknar veiðiheimildir í íslenskri lögsögu verði settar fram af hálfu bandalagsins strax og það sér sér færi á. Allt of mikið er gert úr þeim ábata sem margir telja að sjávarútvegurinn muni hafa af EES-samningnum. Í áliti Þjóðhagsstofnunar frá því í febrúar 1991 segir, með leyfi forseta:

    ,,Sjávarútvegur er að mestu leyti undanþeginn því frelsi í viðskiptum sem verið er að innleiða í EB á sviði iðnaðar og þjónustu. Þær takmarkanir á viðskiptum með sjávarafurðir og aðföng veiða og vinnslu, tollar og styrkir sjávarútvegs í EB fela í sér kostnað fyrir Íslendinga. Líkur eru á að Íslendingar muni þurfa að bera stóran hluta af þessum kostnaði áfram jafnvel þótt þeir gerist aðilar að EES. Af þessum ástæðum má ætla að ábati íslensks sjávrútvegs af því að tengjast EB/EES verði minni en sá ábati sem aðrar þjóðir gera ráð fyrir í þeim greinum iðnaðar og þjónustu sem eru öflugastar í þeirra löndum. Vegna mikilvægis sjávarútvegs hér á landi má ætla að beinn þjóðhagslsegur ávinningur Íslendinga af því að tengjast EB/EES verði minni heldur en aðrar þjóðir gera sér vonir um.``
    Þetta er álit Þjóðhagsstofnunar.
    Ákvæði í samningnum um að erlendir aðilar geti ekki fjárfest í fyrirtækjum í útgerð og frumvinnslu eru haldlítil. Í samningnum eru jafnframt ákvæði um að þessi höft skuli ekki koma í veg fyrir fjárfestingar erlendra aðila eða ríkisborgara sem eru ekki með lögheimili á Íslandi í félögum sem taka aðeins óbeinan þátt í fiskveiðum eða fiskvinnslu. Aðilar í sjávarútvegi hafa haldið því fram að mjög erfitt gæti reynst að halda erlendu fjármagni utan við sjávaútveginn ef það kæmi á annað borð inn í íslenskt atvinnulíf. Einnig er vert að benda á að mörg fyrirtæki í sjávarútvegi eru illa stödd þannig að ekki þarf stórar upphæðir til að kaupa þau upp. Því er eins líklegt að með aðild að EES muni Íslendingar fljótlega missa yfirráð sjávarauðlinda sinna úr höndum sér þrátt fyrir ákvæði samningsins.
    Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði felur í sér annað og miklu meira en viðskipti með sjávarafurðir. Með samþykkt samningsins þurfum við að taka yfir lög og reglur Evrópubandalagsins sem mótaðar hafa verið í 30 ár á sviði efnahags- og atvinnumála. Með því afsala Íslendingar sér yfirstjórn á stefnumótun á þessu sviði. Við munum verða að hlíta stefnumótun Evrópubandalagsins sem mun ráða för með lögum, reglugerðum, úrskurðum og dómum verði samningurinn staðfestur. Aðild að svo víðtæku efnahagssamstarfi hefði verulegar breytingar í för með sér. Þess má vænta að Ísland framtíðarinnar þróist á allt annan hátt en hingað til hefur verið gengið út frá og verður landið sennilega mun fámennara og fátækara en menn gera ráð fyrir.
    Stórfyrirtækin í kjarnaríkjum efnahagssvæðisins munu stækka enn frekar og samkeppnisstaða smáfyrirtækja í aðildarríkjum versna. Þá mun staða iðnaðar og þjónustu í jaðarríkjum líklega einnig versna. Þetta mun annars vegar leiða til uppsöfnunar auðs í kjarnanum og hins vegar beinlínis leiða til fækkunar á atvinnumöguleikum í jaðarbyggðum. Aukin byggðaröskun blasir við nema til komi víðtækt styrkjakerfi eins og nú tíðkast innan EB. Staða jaðarríkja á borð við Ísland muni því almennt versna.
    Því hefur verið haldið fram að með frjálsum fjármagnsflutningum muni minnka þörf á erlendum lántökum. Í stað þeirra muni koma erlent áhættufjármagn. Í greinargerð Seðlabanka íslands frá 27. nóv. 1992 er bent á að ólíklegt sé að svo muni fara en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Það er ekki sjálfgefið að verðbréfaviðskipti aukist á næsta ári með rýmkun gjaldeyrisreglna heldur ráðast þau af vaxtamun hér á landi og erlendis ásamt gengisþróun krónunnar. Þó gætu viðskiptin aukist ef stærri fjárfestar, svo sem lífeyrissjóðir, vildu dreifa áhættunni með kaupum á erlendum verðbréfum. Mikið hefur verið rætt um beina fjárfestingu útlendinga hér á landi og talið æskilegt að auka áhættufjármagn í atvinnurekstrinum í stað lánsfjármagns. Erlent áhættufjármagn fæst þó ekki nema von sé um góðan arð og dæmin sanna af fiskeldi og eignarleigu að erlendir aðilar eru fljótir að hverfa þegar illa árar. Eins og nú horfir í innlendri atvinnustarfsemi eru ekki líkur á miklu innstreymi af erlendu áhættufjármagni. Aftur á móti gæti þátttaka okkar í EES kallað á auknar fjárfestingar íslenskra fyrirtækja í útlöndum. Niðurstaðan gæti því orðið sú að áframhaldandi viðskiptahalli samfara auknum fjármagnsflutningum gæti rýrt gjaldeyrisstöðu Seðlabankans á næsta ári.``
    Þetta er úr greinargerð Seðlabanka Íslands.
    Evrópskt efnahagssvæði felur í sér að Ísland verður hluti af 380 millj. manna markaði með óheftu flæði fjármagns, þjónustu og vöru og að fólk hafi sama rétt á svæðinu öllu til atvinnu, stofnun fyrirtækja, kaupa fasteignir þar með talið land og fleira. Allan tímann var látið að því liggja að auðvelt væri að koma í veg fyrir að erlendir aðilar gætu fjárfest hér í landi og í öðrum auðlindum. Nú hefur komið í ljós að það er ekki hægt nema skerða um leið verulega rétt Íslendinga sjálfra. Frv. sem nú liggur fyrir Alþingi og er ætlað að setja þær girðingar sem talað er um í þessu efni er allsendis ófullnægjandi. Það mun því ekki reynast eins auðvelt og utanrrh. vildi vera láta meðan á samningaviðræðunum stóð að koma í veg fyrir að erlendir aðilar geti eignast íslenskar auðlindir til lands og sjávar.
    Með samningnum er Alþingi ekki aðeins að framselja til EB vald til lagasetningar á veigamiklum sviðum heldur felst einnig í samningnum framsal á dómsvaldi og framkvæmdarvaldi til stofnana EB og EFTA.
    Dr. Guðmundur Alfreðsson og prófessor Björn Þ. Guðmundsson hafa ákveðið lýst því yfir að þeir telji að samþykkt EES-samningsins standist ekki stjórnarskrána. Nefnd fjögurra lögfræðinga sem utanrrh. skipaði komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að valdaframsalið sem fælist í samningnum væri ekki það mikið að breyta þyrfti stjórnarskránni. Ég tel að ekki megi nokkur vafi leika á því að frv. sem samþykkt er á Alþingi standist stjórnarskrá og á stjórnarskráin að njóta vafans. Ef þingmenn telja að líklegt sé að frv. standist ekki stjórnarskrána ber að hafna því.
    Hér á landi hefur ekki verið reynt að meta það sérstaklega hvaða áhrif aðild að EB og EES muni hafa á stöðu kvenna. Umræðan hefur fyrst og fremst miðast við hagsmuni atvinnulífs og fyrirtækja en aðrir þættir hafa orðið út undan. Þingkonur Kvennalistans fluttu tillögu um það á síðasta þingi að látin yrði fara fram athugun á líklegum áhrifum aðildar Íslands að Evrópsku efnahagssvæði á efnahagslega og félagslega stöðu kvenna. Tillagan hlaut ekki afgreiðslu.
    Bent hefur verið á að líklegt sé að aðild að EB og EES muni hafa önnur áhrif á stöðu kvenna en karla. Fullyrða má að við gerð Rómarsáttmálans og endurskoðun á honum hafi hagsmunir kvenna ekki verið hafðir að leiðarljósi fremur en endranær þegar mikilvægar ákvarðanir hafa verið teknar. Konur hafa verið nær áhrifalausar þar sem ráðum hefur verið ráðið. Það er því ekki að ástæðulausu að fjölmargar konur í Vestur-Evrópu og samtök þeirra hafa sett spurningarmerki við þær breytingar sem nú eiga sér stað um alla álfuna. Er líklegt að sú hugmyndafræði sem lögð er til grundvallar í Evrópubandalaginu og á Evrópsku efnahagssvæði sé til hagsbóta fyrir konur? Eða er e.t.v. eins líklegt að hagur þeirra sé þar hreinlega fyrir borð borinn?
    Einn þeirra þátta sem taldir eru til mikilla hagsbóta fyrir fólk með aðild að EES er að hægt verði að fá vinnu hvar sem er á svæðinu án nokkurra hindrana. Ekki hafa íbúar þeirra landa sem ætla að mynda hið Evrópska efnahagssvæði átt í teljandi vandræðum að flytjast á milli landa vegna atvinnu eða náms. Þetta ákvæði gæti orðið til hagsbóta fyrir einhverja en konur hafa notað sér slíkan rétt í minna mæli en karlar og er lítið sem bendir til breytinga á því. Konur eiga yfirleitt erfiðara með að flytja búferlum vegna meiri bindingar af fjölskyldu, sérstaklega meðan börn eru ung og á skólaaldri. Einnig taka þær meiri ábyrgð á eldri fjölskyldumeðlimum og þeim sem eiga við veikindi að stríða og eiga af þeim ástæðum ekki heimangengt á sama hátt og karlar. Þetta ákvæði mun því væntanlega ekki breyta miklu, sérstaklega ekki fyrir konur.
    Undanfarin ár hefur atvinnuleysi aukist hér á landi og er það meira meðal kvenna en karla. Það sama er uppi á teningnum í löndum EB nema þar er atvinnuleysi víðast hvar langtum meira en hér á landi. Atvinnulausir Íslendingar eiga því varla auðvelt með að fá vinnu á markaði þar sem atvinnuleysi er langtum meira en hér á landi. Konur í EB-ríkjum eru minna úti á vinnumarkaði en konur hér á landi og vinna margar óreglulega vinnu og heimavinnu. Þær hafa í flestum tilvikum lítið atvinnuöryggi og búa við réttleysi að því er varðar tryggingar og annað. 75--90% af þeim sem búa við slíkt óöryggi eru konur.
    Fjölskyldupólitíkin innan EB byggist fyrst og fremst á því að karlar séu fyrirvinnur heimilanna en konur eigi að gæta barna, sjúkra og aldraðra. Nauðsynlegt er fyrir íslenskar konur að reyna að gera sér grein fyrir hvaða áhrif það muni hafa á stöðu kvenna

á vinnumarkaði hér á landi ef Ísland verður hluti af 380 milljón manna vinnumarkaði EES þar sem ofangreind viðhorf eru ríkjandi. Ég er ekki bjartsýn á að það muni verða til hagsbóta fyrir konur.
    Konur á Norðurlöndum hafa enn sem komið er nokkra sérstöðu miðað við kynsystur sínar annars staðar í Evrópu. Norrænar konur vinna almennt utan heimilis og er atvinnuþátttaka þeirra sú hæsta í heimi. Á Íslandi vinna yfir 80% giftra kvenna á vinnumarkaði, að miklu meiri hluta í þjónustustörfum og störfum sem halda uppi velferðarkerfinu. Niðurskurður á því sviði bitnar því harðar á konum en körlum.
    Þótt fæðingarorlof hérlendis sé allt of stutt er það þó lengra en í flestum EB-löndum. Nýlega ákvað framkvæmdastjórn EB að mæla með því að fæðingarorlof yrði ekki minna en 14 vikur í aðildarríkjunum. Margar konur óttast að það geti leitt til þess að krafa komi um að fæðingarorlof verði stytt í löndum þar sem það er lengra en þessar 14 vikur. Ummæli heilbrigðisráðherra að undanförnu gefa tilefni til þess fyrir íslenskar konur að halda vöku sinni í þessum efnum.
    Hér á landi hafa konur í fullu starfi að meðaltali aðeins 60% af þeim launum sem karlar fá fyrir sitt vinnuframlag. Innan EB er launamunurinn álíka mikill, að Danmörk þó undanskilinni, en á Norðurlöndum er hann miklu minni. Í lögum EB er ákvæði um launajafnrétti sem sett var inn árið 1975. Þetta ákvæði hefur því miður ekki haft þau áhrif innan EB að laun kvenna hafi hækkað frekar en samsvarandi lagaákvæði hér á landi. Ákvæðið er meira að segja svo veikt að þótt EB-dómstóllinn hafi dæmt konum í hag breytti það engu í reynd. Í frægu máli, svokölluðu Danfors-máli, lögðu konur fram kæru en þrátt fyrir úrskurð dómstólsins um að jafnlaunaákvæðið væri brotið fá þær eftir sem áður lægri laun en karlar í því fyrirtæki.
    Fullyrða má að áhrifa kvenna hafi gætt allt of lítið í heiminum öllum. Gildir þar einu um hvers konar stjórnskipulag er að ræða. Menn eru nú í auknum mæli að gera sér grein fyrir að ef takast á að snúa mannkyninu af braut þeirrar sjálfseyðingar sem það er nú á verður að taka tillit til sjónarmiða kvenna og veita þeim hlutdeild í stjórn samfélagsins. Mikilvægt er að fjarlægðar séu þær hindranir sem koma í veg fyrir fulla þátttöku kvenna á öllum sviðum efnahagslífs, félagslífs og stjórnmála.
    Það stjórnkerfi sem er við lýði í EB tekur ekki mið af þessum sjónarmiðum. Konur eru fáar í æðstu stöðum hvort sem um er að ræða embættismannakerfið eða það pólitíska. Í miðstýrðum kerfum er hlutur kvenna fyrir borð borinn og gildir þá einu hvort hagkerfið er kennt við frjálsan markað eða sósíalisma. Hugmyndafræðin að baki EB og EES er langt frá því að taka mið af þörfum kvenna. Stjórnkerfið sem þar ríkir er bæði miðstýrt og ólýðræðislegt.
    Vel má vera að einhver ákvæði í löggjöf EB á sviði jafnréttismála séu þannig að ástæða sé fyrir okkur að taka slík ákvæði upp í íslenska löggjöf. En það er aumt ef Íslendingar geta ekki tekið upp góð og sjálfsögð ákvæði í lög nema hafa grýlu yfir sér. Hins vegar er rétt að minna á að lög og reglur eru ekki það sem skiptir höfuðmáli í réttindabaráttu kvenna, þó vissulega sé sá þáttur mikilvægur, heldur er það fyrst og fremst hugarfar og viðhorf til kvenna sem máli skiptir, afl þeirra og samtakamáttur.
    Íslendingar hafa ætíð lagt mikið upp úr norrænu samstarfi, telja það jákvætt og gefa okkur mikið. Þjóðfélagsgerð á Norðurlöndum er mjög svipuð og þar hefur hingað til verið lögð áhersla á félagsleg réttindi og samhjálp. Norðurlönd hafa einnig haft mjög jákvæða ímynd út á við sem málsvarar friðar og mannréttinda. Þannig hafa þau oftar en ekki komið fram sem sterk pólitísk heild og haft þannig meiri áhrif. En nú eru blikur á lofti. Ríkisstjórnir landanna stefna að aðild að EB. Ef það verður að veruleika mun það þýða endalok norræns samstarfs í núverandi mynd. EB leyfir ekki að landahópar innan bandalagsins hafi með sér formlegt samstarf. Allt tal um að aðild að Evrópubandalaginu og EES muni þýða aukið norrænt samstarf er byggt á óraunhæfum hugmyndum.
    Eins og hér hefur komið fram er það fátt sem mælir með því að Ísland gerist aðili að Evrópsku efnahagssvæði. Ríkisstjórnir annarra EFTA-ríkja stefna að því að löndin gerist fullgildir aðilar að Evrópubandalaginu eins fljótt og þess gerist kostur. Nú eftir Edinborgarfund EB er líklegt að Maastricht-samkomulagið verði að veruleika og þá má búast við að aðildarumsóknir sem fyrir liggja verði afgreiddar fljótlega. Ef ætlun ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga mun þess ekki langt að bíða að aðild Íslands að Evrópubandalaginu verði tekin á dagskrá. Þau rök sem notuð hafa verið með aðild að EES eru þau sömu og notuð verða fyrir aðild að Evrópubandalaginu, enda grunnurinn lagður. Allt bendir því til þess að Íslandi verði þvælt áfram á sömu braut og þeirri sem nú hefur verið mörkuð alla leið inn í Evrópubandalagið.
    Kvennalistakonur hafa ætíð haldið því fram að EES væri aðeins áfangi á leið inn í EB og vil ég ítreka þá skoðun hér. Það verður fátt til að stöðva þá lest sem er komin á skrið til Brussel ef við staðfestum samninginn um Evrópskt efnahagssvæði og hann verður að veruleika. Í þessu máli megum við ekki hugsa í árum eða láta hugmyndir um hugsanlegan skammtímaávinning ráða niðurstöðu. Við eigum að setja okkur í spor þeirra Íslendinga sem unnu að því á síðustu öld að endurheimta sjálfstjórn í landinu eftir aldalanga áþján. Í máli sem varðar grundvallaratriði í stöðu þjóðanna um langa framtíð má ekki rasa um ráð fram. Það hefur því miður verið gert en ekki er um seinan að spyrna við fótum og ná áttum.
    Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt mun sú sem hér stendur og hv. þingkonur Kvennalistans, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir, greiða atkvæði gegn því að Ísland gerist aðili að Evrópsku efnahagssvæði.
    Virðulegur forseti. Áður en ég vík héðan úr ræðustól langar mig til að minnast aðeins á þá greinargerð sem hæstv. utanrrh. minntist á áðan og taldi vera lögfræðilegt álit. Mig langar til að vitna í nokkur atriði í því sambandi vegna þess að ég furða mig sérstaklega á niðurstöðu þeirrar álitsgerðar sem hæstv. utanrrh. vitnaði til áðan. En þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Sökum þess að Sviss er horfið úr hópi EES-ríkja verður samningurinn aldrei fullgiltur í þeirri merkingu að hann gildi óbreyttur.`` Og annars staðar segir: ,,Ekkert því til fyrirstöðu að Alþingi samþykki EES-frv. miðað við samninginn eins og hann liggur fyrir. Í frv. felst heimild til þess að fullgilda EES-samninginn. Þótt fullgilding fari fram er ljóst að hann tekur aldrei gildi í óbreyttri mynd.`` Enn síðar segir: ( ÓÞÞ: Er þetta rökstuðningurinn fyrir þessu?) Hann er að vísu nokkuð lengri en þetta er hluti af honum. ,,Hér verður ekki tekin afstaða til þess hvort nauðsynlegt sé að lögfesta bókunina. Það veltur á því hvernig hún er orðuð.``
    Síðan kemur niðurstaðan, sem ég á mjög erfitt með að skilja í ljósi þess sem á undan er sagt: ,,Engar ástæður er varða þjóðarétt né lagatækni kalla á breytingar á því frv. til laga um Evrópskt efnahagssvæði sem nú liggur fyrir Alþingi.``
    Mér þykir mjög einkennilegt að þetta skuli vera lagt til grundvallar því að allt í lagi sé að samþykkja það lagafrv. sem við nú fjöllum um í óbreyttri mynd. Það er ljóst, eins og segir í áliti þessara sérfræðinga --- sem reyndar eru ekki nafngreindir í álitinu þó að hæstv. utanrrh. gæfi í skyn að þeir væru nafngreindir, en með því að gagnrýna þetta plagg getur maður því ekki verið gagnrýna einn eða neinn, það er stílað frá utanrrh. --- að þessi samningur tekur aldrei gildi í óbreyttri mynd. Sú niðurstaða sem þarna er komist að getur því ekki staðist að mínu mati. Það má vel vera að hægt sé að gera það, en að mínu mati tel ég það ófært.