Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 00:31:33 (3604)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það hefur verið talað um svokallaða jafnræðisreglu og samkvæmt henni er það viðurkennt, þó ekki sé það af öllum, að ríkja eigi visst jafnræði meðal íslenskra þegna og visst jafnræði meðal þingmanna. Það er athyglisvert að í gærkvöldi gerist það að menn mótmæla því að halda fundi fram kl. 12 á þeirri forsendu að tveir ræðumenn ætli að fara að tala sem hafa eytt miklum tíma í að undirbúa sitt mál. Það endar með því að samþykkt er að fresta fundi. Þingmenn eru bornir þeim sökum að hér sé haldið uppi málþófi. Sé farið yfir það hver heldur þó uppi mestu málþófinu, þá er það hæstv. utanrrh. Hann fer inn á dagskrána núna og flytur langa ræðu. Var það beinlínis gert til að tryggja það að sú ræða sem var flutt seinast yrði flutt á þeim tíma að fáir mundu hlusta? Var það tilgangurinn? Ég sé að formaður þingflokks Sjálfstfl. ypptir öxlum ( GHH: Ég veit það bara ekki.) og veit ekki hvort svo mjög var hugsað. En ég tel það mikinn skaða að

þannig skuli að þingstörfum staðið að þegar sú ræða er flutt úr liðshópi sjálfstæðismanna sem er best undirbúin af þeim sem hér hefur verið flutt úr þeirra liðssveit, þá skuli valinn til þess sá tími sem í gær þótti ekki boðlegur fyrir þann fulltrúa sem talaði fyrir Kvennalistann.
    Ég vil undirstrika það að ég lít svo á að forseti hafi brotið jafnræðisregluna með því að halda áfram fundi eftir kl. 12 þegar það var ekki talið boðlegt í gær.