Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 00:34:28 (3606)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Forseti bar af sér þann áburð sem ekki var á hann borinn. Ekkert af því sem hæstv. forseti bar af sér hafði sá sem hér stendur borið á hann. Það er eins og það sé sjálfvirk klisja sem fari á stað hvað eigi að segja úr forsetastóli ef athugasemdir eru bornar fram. Ég bar það á hæstv. forseta að hann hefði brotið jafnræðisregluna og ég hika ekki við að halda því fram að hæstv. utanrrh. hafi með ráði farið inn í umræðuna til þess að ýta þessari ræðu út af venjulegum tíma. Ég hika ekki við að halda því fram.
    En ég vil spyrja hæstv. forseta miðað við hans viðhorf: Hve lengi hyggst hann halda áfram fundi? Það er rétt að menn fái að vita það. Menn hafa skráð sig á mælendaskrá. E.t.v. meta menn það eftir því hvar þeir eru í röðinni hvort þeir muni hlusta á mál manna eða hvort þeir telji að þeir þurfi að hvíla sig þar til kemur að þeim.