Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 00:52:14 (3620)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að mótmæla þeirri röngu fullyrðingu sem kom fram í ræðu hv. þm. Eggerts Haukdals um að Gylfi Þ. Gíslason, fyrrum ráðherra og formaður Alþfl., hefði verið sérstakur talsmaður þess að Ísland gengi í Efnahagsbandalagið. Þetta er auðvitað fullkomlega rangt og á sér ekki neina stoð í veruleikanum, enda færði hv. þm. engin rök fyrir þessari fullyrðingu sinni.
    Hann sakaði íslenska jafnaðarmenn um alþjóðahyggju. Það er rétt hjá honum að þeir hafa haft til að bera víðsýni og viljað efla samstarf við þjóðir Vestur-Evrópu á sviði viðskipta og varnarmála, svo og þjóðir Vesturheims. Að því leyti er þessi fullyrðing hans rétt. Í því efni höfum við átt góða samleið með flokki hans, Sjálfstfl., m.a. um aðildina að EFTA sem varð fyrir forgöngu þessara tveggja flokka en í andstöðu við Framsfl. og Alþb. Þetta tel ég nauðsynlegt að komi fram í umræðunum.