Tilhögun þingfundar, nefndafundir o.fl.

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 13:35:51 (3626)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir ummæli síðasta ræðumanns þess efnis að meðan hér er ekkert samkomulag um þinghaldið og meðan hæstv. ráðherrar eru með sífelldar yfirlýsingar í fjölmiðlum um ofbeldisverk stjórnarandstöðunnar hér á þingi, þá verði ekki samtímis nefndafundir í mikilvægum nefndum sem eru að fjalla um stórmál og þingfundir. ( Gripið fram í: Heimildir?) Heimildir, hv. frammíkallandi, eru m.a. Morgunblaðið í morgun, viðtal við hæstv. forsrh., kveðjur sem við fáum frá utanrrh. frá blaðafundum erlendis og viðtal við hæstv. forsrh. á Stöð 2 í gærkvöldi. Þetta gerist, virðulegi forseti, á sama tíma

og við nefndarmenn í stjórnarandstöðunni höfum verið tilbúnir til þess að vinna hér nánast dag og nótt til að koma einhverju lagi á fylgifrumvörp ríkisstjórnarinnar með EES. Ég vil, virðulegi forseti, nefna það að efh.- og viðskn. hefur kappkostað að viðhafa vönduð vinnubrögð. Við höfum formann sem hefur skilning á stöðu Alþingis og við höfum lagt fram alla okkar starfskrafta til þess að koma málum í það horf að þau horfi til heilla fyrir land og þjóð burt séð frá því hver yrðu afdrif samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Að fá síðan yfirlýsingar frá hæstv. ráðherrum eins og við höfum legið undir síðustu daga er óþolandi.
    Ég vil nefna það til viðbótar, virðulegi forseti, að sá sem hér stendur sat í morgun í rúma tvo tíma með formanni landbn. við að reyna að koma einhverju lagi á lagafrv. til þess að framkvæmdarvaldið gæti staðið við búvörusamninginn með það fyrir augum, ef samkomulag næðist um það að nefndin flytti málið, því að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki haft manndóm í sér til þess. Og að koma síðan út af slíkum fundum og lesa yfirlýsingar hæstv. forsrh. er óþolandi.
    Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. forsrh. hefði verið hér og hlýtt á mitt mál en sá ágæti maður virðist ekki þurfa að sinna þingskyldum. Sá ágæti maður virðist telja vettvanginn til þess að ræða um þingsköp, hvernig þau séu túlkuð og með þau farið, vera í fjölmiðlum en ekki við okkur alþingismenn hér á þingi. (Forseti hringir.) Þetta vil ég segja hér, virðulegi forseti, undir liðnum um gæslu þingskapa því að þingstörf geta ekki farið fram með eðlilegum hætti undir stöðugum yfirlýsingum hæstv. ráðherra í fjölmiðlum um störf þingmanna, störf þeirra manna sem hér hafa lagt nánast nótt við dag til þess að koma einhverju lagi á frumvörp.
    Ég vil, virðulegi forseti, endurtaka hér það sem ég sagði í ræðu í fyrra að að hluta til er þetta væntanlega vegna þess að hæstv. forsrh. hefur aldrei tekið þátt í almennu þingstarfi og hefur ekki hugmynd um hvað nefndastörf á Alþingi snúast.