Framhald umræðna um EES og fjarvera utanríkisráðherra

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 13:54:09 (3633)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Út af þessum umræðum vil ég að það komi hér fram að hæstv. utanrrh. kom að máli við mig í nótt og greindi mér frá því að hann teldi sig þurfa að fara til skyldustarfa á nauðsynlegan fund í Brussel og spurði hvort við framsóknarmenn mundum gera um það umkvörtun þó að hann yrði ekki viðlátinn þessa umræðu. Ég svaraði honum því að við hefðum ekkert samþykkt að hafa þessa umræðu, hún væri haldin í trássi við okkur. Ég skyldi kanna það hjá þingmönnum Framsfl. hvort þeir gerðu sérstakar athugasemdir við það að staðgengill hans, hæstv. viðskrh., væri hér og sæti fyrir embættisins hönd undir umræðunni. Ég hafði samband við þá þingmenn Framsfl. sem voru í húsinu. Ég held að mér hafi tekist að ná tali af þeim öllum nema kannski einum og niðurstaða okkar varð sú að hindra ekki för hæstv. utanrrh. enda höfum við skilning á því að hann þarf að sinna sínum embættisverkum. Ég vona að hann geri það vel og endist bæði líkamlegt og þá kannski ekki síður andlegt þrek til að gera það með viðhlítandi hætti. Ég tók persónulega fram við utanrrh. að ég hefði fram að færa spurningar til hans og athugasemdir sem ég vildi koma á framfæri við hann persónulega héðan úr ræðustól. Ég mundi þá geyma mér þær þangað til síðar í umræðunni eða þá í versta falli að láta þær koma fram við 3. umr.
    Mér er það nokkurt áhyggjuefni ef hinn menntaðasti af fulltrúum Alþfl. hér á þingi, hv. 17. þm. Reykv., dr. Össur Skarphéðinsson, svo lærður maður og gætinn, getur ekki setið á sér og ég vil nú biðja hann þar sem hann er fremstur sinna flokksbræðra að lærdómi og ýmsu fleiru og auk þess skynsamur og skemmtilegur náungi að passa það nú að sitja á sér ekki síður heldur en hæstv. ráðherrar. Það fer aldrei vel þegar byssurnar skjóta sjálfar, þá geta orðið óhöpp.