Framhald umræðna um EES og fjarvera utanríkisráðherra

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 14:04:15 (3638)


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Lái mér hver sem vill fyrir að gera athugasemd við það hvernig mál ber að hér og fjarveru hæstv. utanrrh. Ég hygg að ég sé annar á mælendaskrá sem hér liggur fyrir hæstv. forseta og ég hafði gert ráð fyrir því að röðin kæmi að mér sl. nótt, fylgdist með umræðu frá skrifstofu minni, þar á meðal að hér var fundi slitið um hálfþrjúleytið í nótt. Síðan frétti ég það þegar ég kem til nefndarfundar í morgun að ráðherrann sé farinn, heyrði það að vísu á skotspónum hér svo að öllu sé til haga haldið á bifreiðastæði Alþingis þegar ég var að fara heim á leið um þrjúleytið að það gæti verið að hann væri á förum og spurðist því fyrir um það í morgun þegar ég kom til nefndarfundar. Þar var mér tjáð að svo væri og ég varð satt að segja afar undrandi á því að ráðherrann tæki til þessa bragðs að fara úr landi án þess að hlutast til um að umræðunni væri frestað. Ég geri að sjálfsögðu enga athugasemd við það að ráðherrann fari úr landi. En að halda hér áfram þessari umræðu að ráðherranum fjarstöddum, umræðu sem er nauðsynjalaus að mati okkar í stjórnarandstöðunni og óréttmæt, fæ ég einfaldlega ekki skilið. Það gengur ekki upp í mínum huga að ætla að koma þannig fram við Alþingi í þessu máli.
    Ég ætla hins vegar ekki, ef menn líta svo til að hér hafi verið gert einhvers konar samkomulag, heiðursmannasamkomulag án þess að ég frétti af því hið minnsta, þá ætla ég ekki að standa á móti því að þessi umræða fari hér fram og nýta minn rétt til þess að tala hér þó að það verði ekki við ráðherrann og þá eingöngu í trausti þess, virðulegur forseti, að mér gefist kostur á að tala við ráðherrann í annarri umræðu þegar hæstv. ráðherra er kominn aftur til landsins. Og það legg ég áherslu á: Í trausti þess að mér gefist kostur á að ræða við hæstv. ráðherra þegar hann kemur til landsins í annarri umræðu þessa máls.