Framhald umræðna um EES og fjarvera utanríkisráðherra

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 14:08:23 (3640)

     Stefán Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Það er vegna brotthvarfs hæstv. utanrrh. sem við göngum hér í þennan ræðustól nú. Hann hefur vikið sér frá og sjálfsagt mun hann halda þar einn af sínum alkunnu blaðamannafundum á erlendri grund þannig að erlendar þjóðir munu þá fá að fylgjast enn betur með störfum þessa þjóðþings og hvernig vinnutilhögun okkar hér er háttað.
    Vegna orða hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur hér áðan þegar hún sagði það að hún vildi fremur tala til þings og þjóðar heldur en til hæstv. utanrrh., þá getur verið nokkuð til í því en því miður er það nú svo og það sem mestum áhyggjum veldur hjá mörgum okkar þingmanna er einmitt það að umboðið er því miður í höndum þessa manns. Það er sá galli sem er á gjöf Njarðar. Það er hins vegar nokkuð merkilegt sem hefur komið hér fram í máli hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar þar sem ráðherra mun hafa komið að máli við hann hér í nótt og hv. formaður Alþb. mun hafa lýst því yfir að hann gerði ekki athugasemdir við þetta brotthvarf ráðherrans. Ef ég man rétt, þá er ekki langt síðan hv. þm. stóð í þessum sama ræðustól og baðst vægðar fyrir hönd Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að hún gæti ekki hafið hér upp raust sína vegna þess að klukkan var þá 12 að kvöldi. En hann getur fallist á það að bjóða þingmönnum sínum og þeim þingmanni t.d. sem hefur lagt sjálfsagt allra mesta vinnu nokkurs þingmanns Alþb. sem er hér á mælendaskrá að hann tali hér í fjarveru utanrrh. Mér finnst þetta því nokkuð merkileg sinnaskipti sem hér hafa orðið.
    Ég vil einnig bæta því við að gefnu tilefni að aldrei hefur verið við mig rætt um það að Jón Baldvin Hannibalsson væri að fara hér út af þingi. Ég er fyrst að heyra þetta nú og ég veit að það er einnig svo með hv. þm. Guðna Ágústsson. Ég hef ekki rætt við

aðra þingmenn Framsfl.