Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 16:21:16 (3643)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég er út af fyrir sig óánægður með þessa athugasemd frá hv. formanni utanrmn. Birni Bjarnasyni. Ég var að vísu ekki við þegar fundinum var slitið í utanrmn. í gær, en ég aflaði mér upplýsinga um hvað þar hefði gerst. Það var að formaður synjaði beiðni minni að kalla eftir áliti Lagastofnunar. Mér þykir það slæmt og ámælisvert. Ég hefði talið heppilegra að það hefði verið utanrmn. sem bað Lagastofnun fremur en þingflokkur framsóknarmanna. Það hefði verið miklu öflugra og líklegra til árangurs ef hv. 3. þm. Reykv. hefði skrifað Lagastofnun í nafni nefndarinnar heldur en ég fari að gera það í nafni þingflokks framsóknarmanna.
    Hv. þm. vitnaði í úrskurð forseta. Ég er ekki sammála honum um það. Ég vil að vísu virða úrskurði forseta og ég veit að forseti úrskurðaði eins og ég tel að stuðningsmenn meiri hlutans hafi vonast eftir að hann mundi úrskurða. Ég vitna eftir minni því ég hef ekki hlutaðeigandi gögn á takteinum hér í ræðustólnum en mig minnir að það hafi verið dr. Bjarni Benediktsson sem sagði einhverju sinni þau viturlegu orð að þannig væri með þingræðið að meiri hlutinn ætti að fá leyfi til að hafa rangt fyrir sér.