Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 16:28:37 (3647)


     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða um ljósrit sem ganga á milli manna og eiga að vera dr. Birni Þ. Guðmundssyni til ófrægingar að mati stjórnarliða. Ég nefndi þau fyrst og fremst til marks um vinnubrögðin. Ég held að stjórnarsinnar séu orðnir ansi sneyddir húmor ef þeir geta ekki séð að þessi tilvitnaða grein, ef grein skyldi kalla, er sett upp í spaugi. Hún minnti mig á það að einu sinni þegar við hæstv. heilbrrh. vorum ungir samdi hann heilt frv. og lét sem það væri eftir hv. þáv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, um ákaflega einfaldar lausnir á vandamálum í þjóðfélaginu. Það var auðvitað bara til þess að hlæja að því.
    Ég veit ekkert um hvernig þetta efnisyfirlit sem er á ljósritinu er orðið til. Hver segir að Björn Þ. Guðmundsson hafi til vitnað þetta sem eitthvert vísindarit eftir sig? Mér er það alveg hulin ráðgáta hvernig mönnum getur dottið það í hug. Ég held að það sjái hvert barn að hér er um einhvers konar efnisyfirlit að ræða.
    Varðandi stjórnarskrána þá er það rétt að í þeim frv. sem lágu fyrir til afgreiðslu á þinginu var illu heilli ekki tekið á öllum þeim ákvæðum sem ég fetti fingur út í. Mér fannst persónulega einfaldasta leiðin ef menn vildu lögtaka samning um Evrópskt efnahagssvæði og ég hefði lagt til, ef ég hefði verið stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, að setja bara ákvæði inn í stjórnarskrána að þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrár skyldi samningur um Evrópskt efnahagssvæði öðlast gildi. Það hefði verið einfaldasta lausnin.