Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 22:05:44 (3652)

     Frsm. meiri hluta utanrmn. (Björn Bjarnason) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. síðasti ræðumaður vitnaði til þess að ég hafi lesið hér ályktun síðasta Alþýðusambandsþings og hann leitaðist við að túlka þá ályktun á þann veg að Alþýðusambandið væri andvígt aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Þingmaðurinn las einnig tillögu sem lá fyrir þinginu og í ljósi þeirrar tillögu er alveg skýrt að ályktun þingsins er stuðningur við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Hv. ræðumaður kom að því hér hvað eftir annað í ræðu sinni að þeir þingmenn, sem ætla að sitja hjá á Alþingi við afgreiðslu þessa máls, séu stuðningsmenn málsins og ef ályktun Alþýðusambandsins er hjáseta með þeim hætti og í ljósi þeirrar tillögu, sem lá til grundvallar, er alveg ljóst af hans eigin orðum að það beri að líta á afstöðu Alþýðusambandsins sem stuðning við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.