Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 22:06:57 (3653)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er þarflaust að svara þessu innleggi hv. þm. mörgum orðum svo ljóst sem þetta mál liggur fyrir. Ég vitnaði í ræðu minni til þeirra ályktunardraga sem lágu fyrir þingi Alþýðusambandsins og ályktana þingsins sem bera ljósan vott um það að þeirri ályktun sem mátti túlka, ef samþykkt hefði verið, sem stuðning við málið var í reynd hafnað af þinginu og sú samþykkt sem gerð var verður með engu móti túlkuð sem stuðningur við hið Evrópska efnahagssvæði. Mig þarf ekki að undra með tilliti til margra annarra þátta í nál. meiri hluta utanrmn. að svona séu túlkanirnar. Hið sama varðaði einnig hvernig hv. þm. túlkar niðurstöður umsagnaraðila um þetta mál þar sem hann leyfir sér að láta líta svo út að allir sem ekki hafa tekið beina afstöðu gegn málinu séu stuðningsmenn þess.
    Hvað varðar þá þingmenn sem hafa lýst því yfir að þeir ætli að sitja hjá hér á Alþingi þá hefur það fylgt þeirra máli að þeir séu efnislega samþykkir samningnum en kjósi ekki að bera pólitíska ábyrgð á honum. Þannig hafa þeir sjálfir lýst þessu máli og ég hef leyft mér að túlka það svo að þeir séu efnislega stuðningsmenn málsins og með því að greiða ekki atkvæði gegn málinu, þá greiða þeir auðvitað fyrir framgangi þess hér í þinginu.