Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 22:11:16 (3655)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Bjarnasyni fyrir það hvernig hann túlkar sitt mál hér vegna þess að það segir þjóðinni miklu meira en mörg orð í rauninni um það hvernig rökstuðningur og álitsgerð við þetta mál er byggð af meiri hluta utanrmn. Þegar menn leyfa sér að setja á blað eins og gert er í nál. og hv. þm. fylgdi eftir með því að leiða líkur að því í ræðu sinni að Alþýðusamband Íslands styddi samninginn um Evrópskt efnahagssvæði og hefur ítrekað hér, þar sem hann segir með þessum hætti um álit umsagnaraðila: ,,Þegar þær 35 umsagnir sem nefndinni bárust eru skoðaðar er athyglisvert að aðeins einn umsagnaraðili, BHMR, treystir sér ekki til að mæla með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.`` Lesist: Ályktun sem menn eiga að draga af þessum málflutningi er sú að allir hinir eru meðmæltir málinu. Heldur hv. þm. að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusamband Íslands og þeir sem staðið hafa að ályktunum þar taki undir málflutning af þessu tagi? Heldur þingmaðurinn það?
    Ég er hreykinn af því að hv. þm. reynir að afgreiða minn málflutning og mín sjónarmið í þessu máli sem einhver sérvitringssjónarmið. Ég fullyrði það, virðulegi þingmaður, að þeir eru býsna margir sérvitringarnir á Íslandi sem taka undir þau meginsjónarmið sem ég hef túlkað og sem Alþb. stendur fyrir í þessu máli.