Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 22:14:22 (3657)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Alþb. hefur barist gegn þessum samningi og gerir það á Alþingi. Alþb. mun að sjálfsögðu meta málið ef svo illa færi að Ísland yrði njörvað inn í það gangverk sem hér er á ferðinni, hið Evrópska efnahagssvæði með Evrópubandalagið fyrir stafni. Ég hef lýst því í þessari umræðu að ég tel mjög langt frá því að menn hafi afgreitt málið með samþykkt frv. sem staðfestir þennan samning og veitir honum lagagildi. Þetta á eftir að verða átakamál í íslenskum stjórnmálum og það sem því mun fylgja, þ.e. sóknin inn í Evrópubandalagið sjálft, og Alþb. mun áreiðanlega standa í fæturna í því máli eins og það gerir hér og nú.
    Varðandi tilvísun í einstaka flokksmenn í Alþb., eins og hæstv. forsrh. var að víkja að, þá er að sjálfsögðu öllum heimilt að túlka sitt mál þar sama hvar þeir eru settir, hvort það er í þingflokki eða annars staðar. Svo vildi til að í miðstjórn Alþb. höfðu tveir fulltrúar annað sjónarmið en hópurinn að öðru leyti og annar þeirra var nefndur af hæstv. forsrh.