Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 22:23:58 (3663)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er dálítið sérkennilegt að menn skuli líta svo á mál, eins og hv. þm. túlkaði það og reyndar fleiri sem ræða þessi mál, að Íslendingum sé nánast nauðugur einn kostur að tengjast þessu samræmda gangverki sem ein tönn í hjóli eins og verður hlutskipti okkar innan Evrópska efnahagssvæðisins og enn frekar í Evrópubandalaginu. Og að við eigum ekki möguleika á því að gæta okkar hagsmuna og laga okkur að breytingum í umheiminum út frá okkar mati á því hvað sé okkur fyrir bestu sem þjóð, hverjir séu okkar hagsmunir, hvað sé æskilegt fyrir Íslendinga að breyta í löggjöf og í samstarfi út á við án þess að ganga inn í þetta gangverk. Það eru kostirnir að halda sjálfræði sínu að geta valið þarna og hafnað.
    Ég ímynda mér ekki eina einustu stund að við getum látið breytingar í umheiminum eins og vind um eyrun þjóta, enda væri það mjög einkennileg skoðun. En ég er þeirrar skoðunar að við eigum að nota kosti þess að vera þrátt fyrir allt sjálfstæð og fullvalda þjóð með þeim möguleikum sem því fylgir í staðinn fyrir að afsala okkur sjálfræðinu með þeim hætti sem þingmaðurinn er að mæla með.