Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 22:27:07 (3665)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er vissulega athyglisvert að hæstv. umhvrh. sem talsmaður Alþfl. skuli leggja kapp á að bera blak af máli Gylfa Þ. Gíslasonar, þess mæta stjórnmálamanns á sínum tíma. Ég held það hafi ekki dulist neinum á þessum árum hver var áhugi hv. þm. og um skeið formanns Alþfl., fyrir utan það að vera ráðherra um langan tíma, í sambandi við Evrópubandalagið. Sú athyglisverða ræða sem ég vitnaði til og hann flutti á sínum tíma endurspeglar viðhorf sem ganga nú eins og rauður þráður í gegnum málflutning alþýðuflokksmanna að því er varðar spurninguna um fullveldi og sjálfstæði

þjóða og reyndar gengur eftir í málflutningi hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur einnig eins og lesa má í hennar áliti, þ.e. þá breyttu stöðu sem kalli á þá niðurstöðu að besta ráðið til þess að varðveita sjálfstæðið sé að fórna því. Það er þessi nýja skilgreining á fullveldishugtakinu.