Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 23:55:29 (3668)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þóttist nú rökstyðja nokkuð hugmyndina um sjálfbæra þróun og hvernig hún gengur þvert á þessa hagvaxtar- og iðnaðarpólitík sem hefur verið ráðandi í Evrópu undanfarin 200 ár. En það er auðvitað alveg ljóst að það að breyta um stefnu og að þróa Evrópu í átt til annarra lifnaðarhátta, sem byggjast á sjálfbærri þróun, tekur tíma. Það er ekki eitthvað sem gerist í einu vetfangi þannig að það sem stefna ber að er að snúa frá þessum markmiðum um stöðugan hagvöxt, um að auka og auka og auka vegna þess að í því felst að ganga sífellt nær gæðum jarðar. Að vísu er hægt að reikna út hagvöxt á mismunandi hátt og bent hefur verið á það að á þeim hagvaxtarútreikningum, sem við t.d. byggjum á, eru miklir gallar. En það breytir ekki því að þó að hagvöxtur sé takmarkaður geti auðvitað átt sér stað miklar breytingar innan hagkerfisins. Hagkerfið getur þróast og breyst og við þurfum auðvitað að styrkja íslenskt atvinnulíf og efnahagslíf. Það er enginn að tala um einhverja stöðnun og afturhvarf heldur er ég að tala um langtímastefnumörkun sem felur í sér þá náttúruvernd sem við verðum að beina okkur að og byggja á í framtíðinni. --- [Fundarhlé.]