Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 02:49:16 (3677)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það kom fram í svari hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að hann gat um hinn efnahagslegan ávinning. Um það hefur í sjálfu sér ekki verið deilt að tollalækkun er ávinningur eða menn ganga a.m.k. út frá því að svo muni vera. Hitt er nauðsynlegt að undirstrika, svo menn ofreikni ekki þann hugsanlega ávinning, að við megum ekki gleyma því að markmið samningsins er af hálfu Evrópubandalagsins að lækka verðlag. Það er hluti af þeirra útreikningum á hagvaxtaráhrifum samnings að verðlag lækki. Því vil ég leyfa mér að segja að einhver hluti af þeirri fúlgu sem má segja að felist í tollalækkununum rennur til neytendanna, þeirra sem við erum að selja fiskinn til og eykur kaupmáttinn hjá þeim. Við getum því ekki tekið þessa tollalækkun og reiknað hana sem tekjur til Íslands. Ég tel alveg ljóst að þarna sé um einhverja upphæð að ræða. Menn geta haft mismunandi skoðanir um hvað hún sé stór. Það er út af fyrir sig hægt að deila um það. En mér þætti gott ef við héldum helmingnum eftir.
    Ég minni á að áviningurinn af bókun 6 einni og sér er metinn tæpir 5 milljarðar kr. í formi tollalækkunar miðað við árið 1990. Ef það er eins og ég ímynda mér að kannski helmingurinn skili sér heim af tollalækkununum þá erum við að tala um tölu sem er innan við 1 / 4 af því ef ekki 1 / 5 . Á móti þeim ávinningi tökum við á okkur ýmis óþægindi og kostnaðarauka og þar þurfa menn að vega saman réttu tölurnar.