Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 03:02:40 (3686)

     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu hefur verið rætt allítarlega af þeim sem hafa talað við 2. umr. málsins og einnig þeim sem hafa talað við 1. umr. þess. Mér

þykir miður það fjölmiðlafár sem hefur verið í þjóðfélaginu um þessa umræðu og einstakir ráðherrar hafa staðið fyrir. Það er a.m.k. hart fyrir okkur sem höfum verið að reyna að taka málefnalega á þessu máli, sem allir hafa gert sem hafa talað, og reynt að ræða sem ítarlegast um þetta viðamikla mál sem er það stærsta sem fyrir þingið hefur komið.
    Þessi orð sem ég segi núna eru fyrsta innlegg mitt í þessa umræðu. Ekki þar fyrir að ég hef reynt eftir föngum að setja mig inn í þetta viðamikla og flókna mál. Ég hef reynt að fylgjast með þeirri umræðu síðustu árin sem verið hefur um samrunaþróunina í Evrópu. Árið 1987 voru þessi samrunamál að koma fyrir alvöru á dagskrá og þá þegar var Alþingi Íslendinga farið að láta þessi mál til sín taka. Utanrmn. Alþingis heimsótti Evrópuþingið í Strassborg sumarið 1987 og einnig aðalstöðvar Efnahagsbandalags Evrópu í Brussel undir forystu Eyjólfs Konráðs Jónssonar, hv. 4. þm. Reykv. Ég var þátttakandi í þeirri ferð sem varamaður í nefndinni. Í henni fengum við að ræða við og fengum fundi með ýmsum forustumönnum hjá Evrópubandalaginu, bæði í Evrópuþinginu og í aðalstöðvunum í Brussel. Áhugamál okkar Íslendinga voru á þeim tíma að fá sem frjálsasta verslun með fisk og sjávarafurðir og aðgang að þeim stóra markaði sem er í Evrópubandalaginu.
    Ég varð auðvitað var við það í þessari ferð, eins og félagar mínir sem í henni tóku þátt, að hjá Evrópubandalaginu fæst ekki allt fyrir ekkert eins og síðar átti eftir að koma á daginn. Það var auðheyrt á þeim mönnum sem við áttum viðræður við í þessari kynnisferð að þeir vildu fá eitthvað fyrir snúð sinn.
    Ég skrifaði stutta forustugrein í blað okkar framsóknarmanna á Austurlandi, Austra, haustið 1987 um Evrópumálefni eða utanríkisviðskiptin og Evrópubandalagið og vil vitna til þeirrar forustugreinar til þess að lýsa viðhorfi mínu á þessum tíma til þessara mála. Hún er þannig, með leyfi forseta:
    ,,Með stjórnarmynduninni í sumar var tekin sú ákvörðun að færa utanríkisviðskipti undir utanrrn. Með því er mögulegt að nýta utanríkisþjónustuna betur í þágu þeirra viðskipta. Við Íslendingar erum, eins og önnur smærri ríki í okkar heimshluta, mjög háðir utanríkisviðskiptum. Árið 1984 var innflutningur okkar 38,2% af vergri landsframleiðslu og útflutningur 34%. Sambærilegar tölur fyrir Bandaríkin eru 9,9% og 6,7% og segja þessar tölur sína sögu um þann risaheimamarkað sem er í því landi.
    Á sjötta áratugnum stofnuðu sex iðnaðarþjóðir í Vestur-Evrópu Evrópubandalagið eða Efnahagsbandalag Evrópu eins og það hefur oftast verið nefnt hér. Tilgangur þess má segja að hafi verið tvíþættur. Í fyrsta lagi að auka samstöðu Evrópuríkja í kjölfar biturrar reynslu tveggja styrjalda Evrópuþjóða á þessari öld. Hitt markmiðið var að efla sameiginlega markað í Evrópu sem sambærilegur væri við hina stóru markaði eins og vestan hafs.
    Það voru misjafnar spár fyrir bandalaginu í upphafi og á ýmsu hefur gengið. Hitt er staðreynd nú að aðildarþjóðum hefur fjölgað um helming og sett hafa verið markmið um innri markað þessara þjóða sem fela í sér nánari samskipti heldur en nokkru sinni fyrr. Að okkur Íslendingum snýr sú staðreynd að yfir 50% af útflutningi okkur eru til bandalagsþjóðanna eftir að Spánn og Portúgal eru orðnir fullgildir aðilar að því. Það er sýnt að við Íslendingar getum ekki látið fram hjá okkur fara þær miklu breytingar sem fara fram í Evrópu um þessar mundir né litið fram hjá þýðingu Evrópubandalagsins fyrir utanríkisviðskipti okkar.
    Hér þurfum við þó að fara að öllu með gát. Það er ljóst að viðræður við EB um stöðu okkar gagnvart bandalaginu byggjast á þeim meginatriðum að ekki kæmi til greina að framselja rétt til veiða í fiskveiðilögsögu okkar. Aðild að bandalaginu kemur því ekki til greina af þeim sökum og vegna annarra ákvæða í stofnsamningi um sameiginlegan vinnumarkað og óhindraða fjármagnsflutninga milli aðildarríkjanna.
    Um þessar mundir eru það tvö atriði framar öðrum sem áhyggjum valda í viðskiptum við Evrópubandalagslöndin. En það er tollur af saltfiski og hár tollur af fiskflökum saman borið við óunninn fisk. Til þess að njóta fríverslunar höfum við gerst aðilar að fríverslunarsamtökunum EFTA sem hafa fríverslunarsamning við Evrópubandalagið. Á þessari staðreynd verða samskipti okkar við það að byggja.

    Umræður um utanríkismál hérlendis hafa einkum snúist um varnarliðið og afstöðuna til NATO. Þó þessi málefni séu þýðingarmikil eru utanríkisviðskiptin og staða okkar í milliríkjasamstarfi það einnig. Það þarf að vera vel á verði og gera sitt til þess að tryggja stöðu okkar í náinni framtíð.``
    Á næstu árum voru utanríkisviðskipti og alþjóðasamskipti okkar svo sannarlega efst á baugi. Á næstu árum fór umræðan um samrunaþróunina í Evrópu á fullan skrið. Eins og fram kemur í þessari tilvitnuðu grein minni, þá einkenndist afstaða mín til þessara mála af varfærni á þessum tíma og það eru beinlínis nefnd í greininni mál sem öll eru lykilatriði í því máli sem er til umræðu núna, fríverslun með fisk, veiðar í íslenskri fiskveiðilögsögu, sameiginlegur vinnumarkaður og frjálsir fjármagnsflutningar. Í greininni segir einnig að sett hafi verið markmið um innri markað EB-þjóða en það er einmitt um þessar mundir sem hann átti að taka gildi þó að ýmis ljón hafi verið á þeirri leið eins og kunnugt er.
    Atburðarásin var hröð næstu árin og ég ætla ekki að rekja hana í smáatriðum. Ég staðnæmist við dagsetninguna 14. mars 1989 þegar ráðherrafundurinn var í Ósló sem oft hefur borið á góma í þessum umræðum. Segja má að með honum hafi viðræðum um Evrópska efnahagssvæðið verið hleypt af stokkunum. Fyrirvarar Steingríms Hermannssonar, sem hann lýsti í ræðu á fundinum, hafa verið raktir í þessum umræðum og ég ætla ekki að endurtaka þá nú. En á þeim fyrirvörum höfum við framsóknarmenn byggt málflutning okkar í málinu á þeim árum sem liðin eru síðan.
    Embættismannanefnd sem undirbjó viðræður við Evrópubandalagið skilaði sameiginlegum niðurstöðum þann 20. okt. saman ár. Þann 29. nóv. fékk svo Jón Baldvin Hannibalsson, þáv. og núv. utanrrh., umboð ríkisstjórnarinnar til að taka þátt eins og segir: í undirbúnings- og samningaviðræðum þessara aðila sem byggðar verða á sameiginlegum niðurstöðum könnunarviðræðna, þar með talið þeim fyrirvörum sem Íslendingar hafa sett fram. Þannig hljóðaði það umboð sem hæstv. utanrrh. fékk hjá þáverandi ríkisstjórn til að reka þessar viðræður.
    Með þessu umboði til ráðherrans var teningnum kastað. Samflot var hafið um viðræður með öðrum EFTA-ríkjum. Um það var ríkisstjórnin á þeim tíma sammála. Eins og allir, sem áttu sæti á Alþingi á þessum tíma, muna og áreiðanlega einnig þeir núverandi þingmenn sem áttu þá ekki sæti á Alþingi, gekk þessi ákvörðun ekki átakalaust fyrir sig. Sjálfstæðismenn á Alþingi héldu uppi maraþonumræðum um þetta mál dögum saman. Það er hægt að sjá það í þingtíðindum að þessi umræða byrjaði í nóvember og endaði ekki fyrr en í mars. Málið var níu sinnum tekið fyrir og stóð umræðan tugi klukkustunda en það er hægt að fá upplýsingar um það í þingtíðindum. Umræðurnar þá hefðu, eins og málin eru rekin nú úti í þjóðfélaginu af hálfu stjórnarliða, verið kallaðar málþóf eða eitthvað þaðan af verra.
    Inntakið í umræðunum frá sjálfstæðismönnum og það mál sem þeir ráku svo hart á þessum tíma var að við ættu ekki að hafa samflot með EFTA-ríkjum en ættum að taka upp tvíhliða viðræður án þess að hafa þetta samflot. Þeir flokkar sem stóðu að ríkisstjórninni á þeim tíma voru á öðru máli en það voru Framsfl., Alþb., Alþfl. og Borgaraflokkurinn sálugi. Ég studdi það á sínum tíma að gefa þetta umboð og hefja þessar viðræður. Það gerðu einnig, eins og ég sagði áðan, allir þessir flokkar, þeir stjórnarflokkar sem þá voru. Við gerðum meira. Við vottuðum ríkisstjórninni hollustu okkar í vantrauststillögu sem borin var fram á Alþingi um þessar mundir af Sjálfstfl.
    Mín afstaða í þessu máli þá byggðist á nokkrum grundvallartriðum og hafa skoðanir mínar ekki breyst um þau atriði. Það var ekki völ á tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið á þessum tíma, m.a. vegna þess að forustumenn Evrópubandalagsins voru þá önnum kafnir við að undirbúa þann innri markað sem átti að taka gildi 1992.
    Mikilvægi Evrópumarkaðar, einkum fyrir sjávarútveginn, fór sívaxandi og nauðsynlegt var að njóta bestu kjara. Í tilvitnaðri grein sem ég las í upphafi ræðu minnar frá 1987 var nefnt að 50% af útflutningsafurðum okkar færu til Evrópu en síðar fór þetta hlutfall hækkandi og fór í allt að 70%. Ég var þeirrar skoðunar einnig að hindrunarlaus verslunarviðskipti á sem flestum sviðum væru okkur nauðsynleg.

    Ég vil nefna það að landbúnaðurinn hefur nokkra sérstöðu í þessu sambandi þar sem allar þjóðir hafa styrkt sinn landbúnað og viðskipti með landbúnaðarvörur hafa langt frá því verið án opinberra afskipta, hvorki hér né annars staðar. Ég tel hann því hafa nokkra sérstöðu í þessu efni. Ég áleit einnig þann þátt sem sneri að rannsókna- og þróunarstarfsemi og menntunarmálum mikilvægan. Ég áleit á þessari stundu að ef við fengjum hagfella niðurstöðu út úr þessum viðræðum gæti það forðað okkur frá aðild að Evrópubandalaginu en þeirri aðild er ég algerlega andvígur.
    Ég áleit þessi atriði svo mikilvæg að þau væru þess virði að taka áhættuna af sameiginlegum vinnumarkaði eða öryggisákvæði um félagslega röskun eða aðra röskun vegna smæðar þjóðarinnar og sérstöðu væri fyrir hendi. Ég hef heldur aldrei litið fram hjá þýðingu gagnkvæmninnar í hindrunarlausum vinnumarkaði, samanber norræna vinnumarkaðinn sem við höfum haft mikið hagræði af í gegnum tíðina. Hins vegar geng ég ekki dulinn þeirrar áhættu sem er tekin með þessum sameiginlega vinnumarkaði, ekki síst vegna hárrar atvinnuleysisprósentu í Evrópubandalagslöndum og þess ástands sem er á vinnumarkaði hér.
    Ég gekk þess aldrei dulinn að með þessari samningagerð yrðum við Íslendingar að afsala okkur valdi eins og í öðrum alþjóðaviðskiptum og alþjóðasamningum. Þessi mynd skýrðist svo síðar eins og ég mun nánar víkja að.
    En viðræðurnar fóru í gang og á þeim tíma sem eftir lifði af valdatíma þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat fylgdumst við þingmenn Framsfl. með framvindu þessara samningaviðræðna eftir föngum og okkar forustumenn tóku þátt í þeim og viðræðunum miðaði nokkuð á leið.
    Í kosningabaráttunni á Austurlandi var þetta mál það sem við frambjóðendur Framsfl. töluðum mest um. Við héldum fund eftir fund um þetta mál og það sem við lögðum áherslu á á þeim fundum var að aðild að Evrópsku efnahagssvæði væri æskileg ef við næðum þar hagfelldum samningum en við yrðum að láta þar staðar numið. Við lögðum kapp á að skýra þann mun sem væri á Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópubandalaginu og töldum að Evrópska efnahagssvæðið væri kostur fyrir okkur ef því fylgdi ákvörðun um að ganga ekki lengra. Þetta var umræðuefnið á fjölmörgum kosningafundum á Austurlandi og var rætt á mjög málefnalegan hátt um þetta mál sem auðvitað voru um skiptar skoðanir, bæði í okkar flokki og einnig í öðrum flokkum. Ýmsir flokksmenn í Framsfl. voru á móti þessari samningagerð frá upphafi.
    Tvenn rök voru mest áberandi. Hin fyrri, ef ég nefni þau tvenn sem bar mest á í þessu sambandi, voru að við værum að afsala fullveldi og jafnvel sjálfstæði þjóðarinnar með þessum samningum. Hin rökin voru þau að við mundum einangra okkur frá öðrum heimshlutum í viðskiptum og í öðrum samskiptum með því að fara inn fyrir múra Evrópubandalagsins. Ég vil alls ekki gera lítið úr þessum rökum, langt í frá. Þessi umræða og þessar efasemdir áttu fullkomlega rétt á sér og eru fullkomlega réttmætt innlegg í þessa umræðu.
    Eins og ég kem nánar að síðar hefur það skemmt fyrir málinu í seinni tíð að það hefur verið rekið áfram með einstrengingshætti og ekki hirt um að virða skoðanir þeirra sem af þjóðernislegum ástæðum eða sýn til annarra átta í veröldinni höfðu sterka fyrirvara og voru á móti þessum samningi. Hins vegar finnst mér það grundvallaratriði fyrir okkar fullveldi að vera efnahagslega sjálfstæðir og hafa yfirráð yfir auðlindum okkar. Að mínum dómi er aðild að Evrópubandalaginu fullveldisafsal. Það þýðir að við höfum ekki yfirráð yfir auðlindum okkar lands.
    Eftir kosningar urðu stjórnarskipti og þá urðu þáttaskil í þessu máli. Eitt af því sem hæstv. utanrrh. taldi lykilatriði þegar ný ríkisstjórn var mynduð, og það var brúin yfir til Sjálfstfl., var það að hann vildi fá ótakmarkað umboð til þess að leiða þetta mál. Hann treysti því ekki að hann fengi það í því stjórnarsamstarfi sem áður var. Hann fékk það líka sumarið 1991 og hefur unnið samkvæmt því síðan. Fljótlega fóru að koma í ljós vankantar á málinu eftir því sem það var lengra unnið sem voru stjórnarfarslegs eðlis og kröfunni um þjóðaratkvæði óx fiskur um hrygg og fylgi. Ekki var deilt um að hér var um

valdaafsal að ræða en deilur urðu um það meðal sérfræðinga hvort málið bryti í bága við stjórnarskrá eða ekki.
    Við framsóknarmenn fjölluðu um þetta mál mjög ítarlega á fjölmörgum þingflokksfundum, sérstökum ráðstefnum um það og fræðslustundum og fundum miðstjórnarflokksins, þeim síðasta þann 2. maí sl., sama daginn og samningurinn sem nú liggur fyrir var undirritaður í Óportó í Portúgal. Þar var samþykkt samhljóða ályktun þess efnis að stuðningur við samninginn kæmi ekki til greina nema ákveðnum skilyrðum væri fullnægt sem voru m.a. þessi:
    1. Að tvíhliða samningur um sjávarútvegsmál liggi fyrir.
    2. Að skorður við kaupum á landi og auðlindum verði settar í löggjöf.
    3. Að samningurinn verði borinn undir þjóðaratkvæði.
    4. Að samningurinn brjóti ekki í bága við stjórnarskrá.
    Um þetta var alger samstaða þrátt fyrir að í okkar hópi hafa ávallt verið mismunandi áherslur í afstöðu til þessara mála.
    Að vonum hefur margt verið rætt og ritað um kosti og galla þessa samnings sem nú liggur fyrir og var undirritaður í Óportó þann 2. maí. Það hafa birst fjölmargir útreikningar um hagnað af þessum samningi og útgjöld hans vegna. Ýmsar stofnanir hafa verið að reikna þetta upp á krónur og aura. Það getur áreiðanlega verið eitthvað til í þessum útreikningum. Ég ætla ekkert að rengja að þeir séu gefnir eftir bestu vitund. Hins vegar skipta þessir útreikningar mig ekki höfuðmáli þegar ég er að meta þetta mál. Þessi ákvörðun verður ekki byggð á tölum. Þetta er pólitísk ákvörðun. Þetta er ákvörðun um að ganga inn í annað umhverfi með veigamikla þætti í þjóðlífinu á sviði fjórfrelsins, og það fer allt eftir því hvernig spilað er úr þessum málum hvaða hagnað þjóðin hefur af inngöngunni ef af verður. Útreikningar í þessu sambandi geta verið ágætir út af fyrir sig en við getum aldrei notað þá til að taka lokaákvörðun í þessu máli. Samningurinn hefur ýmsa kosti og ýmsa galla og það sem menn verða einfaldlega að gera er að vega kostina og gallana og gera síðan upp við sig málið á þeim forsendum.
    Síðan samningurinn var undirritaður í vor, í byrjun maí, hefur tvíhliða samningur um sjávarútvegsmál verið gerður sem liggur fyrir Alþingi. Umræður um hann það sem af er hafa leitt í ljós að ekki er um jafngild skipti á veiðiheimildum að ræða eins og er þó forsenda fyrir því að sá samningur geti talist ásættanlegur fyrir Ísland. Með þessu er ekki fullnægt því atriði sem miðstjórn Framsfl. setti sem númer eitt sem skilyrði fyrir samþykkt samningsins.
    Í undirbúningi er löggjöf um landakaup sem er þó gölluð að því leyti að vegna jafnræðisreglunnar í samningnum þrengir hún óhjákvæmilega mjög kosti Íslendinga sem vilja kaupa jarðir og eykur hættuna á verðfalli á jörðum þess vegna. Tillögur um þjóðaratkvæði hafa verið felldar hér á hv. Alþingi og sömuleiðis tillögur eða frumvörp til stjórnskipunarlaga þess efnis að eyða öllum vafa um stjórnarskrárþátt málsins. Mjög sterkar álitsgerðir liggja fyrir frá sérfræðingum um stjórnarskrármálið sem ekki er hægt að hunsa á þann hátt að segja að enginn vafi leiki á um það mál.
    Ég hef furðað mig á þeirri afstöðu hjá hæstv. ríkisstjórn og flestum stjórnarliðum að hafa ekki kjark til að leggja þetta mál í þjóðaratkvæði, leggja það í umræðu þjóðarinnar því að hún kallar eftir umræðu um þetta mál og upplýsingum, sem því miður þrátt fyrir hina miklu umræðu sem hér hefur verið, skilar sér ekki út til þjóðarinnar nema að takmörkuðu leyti. Þjóðaratkvæði og sá undirbúningur sem hefði verið að því hefði verið ákjósanlegur til að upplýsa málið frá sem flestum hliðum fyrir þjóðinni og leggja það í dóm hennar. Þetta er kjarkleysi sem ég furða mig á. Einnig furða ég mig á því að ekki skuli gengið til þess verks að eyða öllum vafa um stjórnarskrárþátt málsins.
    Þá er komið að síðustu atburðunum í þessu máli en það er sú staðreynd að Sviss felldi samninginn. Við þennan atburð er samfloti EFTA-ríkjanna við þessa samningagerð lokið. Þar með er auðvitað kollvarpað stofnanavirki samningsins og það þarf að breyta honum í fjölmörgum tæknilegum atriðum auk þess sem óvissa ríkir um framlög EFTA-landa í þróunarsjóðinn. Til viðbótar hefur Evrópubandalagið ekki brugðist við þessum tíðindum

með formlegum hætti. Fyrir liggur að samningurinn getur ekki tekið gildi fyrr en um mitt ár 1993 þannig að áramótin eru ekki lengur sá mikilvægi tímapunktur í þessu efni sem áður var. Í mínum huga var það strax ljóst þegar þessi samningagerð var hafin að slitnað gæti upp úr þessu samfloti EFTA-ríkjanna. Það var mér ríkt í huga strax og þessar viðræður byrjuðu og strax og þessi mál voru til umræðu í nóvember árið 1990. Ég þóttist þess þá fullviss að ef svo færi mundu íslensk stjórnvöld fara fram á tvíhliða viðræður um samskipti Íslands og Evrópubandalagsins. Mér fannst ekki rétt að fara fram á þessar tvíhliða viðræður meðan ekki hafði slitnað upp úr samflotinu og allar þjóðirnar í EFTA fylgdust að og voru á sama báti. Nú er það ekki lengur. Þetta samflot er ekki lengur fyrir hendi. En nú er líka komin ríkisstjórn sem hefst ekki að í þessum efnum. Samflotið er reyndar löngu farið veg allrar veraldar því að öll ríki EFTA nema Ísland hafa sótt um aðild að EB. Þó að þetta sé fyrir löngu ljóst hefur vilji EB til tvíhliða viðræðna við Ísland ekki verið kannaður með formlegum hætti. Þetta mál hefur verið nefnt að sögn hæstv. utanrrh. í spjalli við forustumenn EB en ekki hefur verið gengið í það verk með neinum formlegum eða viðhlítandi hætti.
    Nú hefur verið lagt fram formlegt þingmál um þetta atriði, þáltill. um að taka upp þessar viðræður sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson og Halldór Ásgrímsson eru flm. að og ég trúi því ekki að umræðu verði lokið og þessi samningur afgreiddur áður en vilji þingsins til þessarar tillögu liggur fyrir. Auðvitað á ríkisstjórnin strax að láta reyna á þessa leið, ekki síst í ljósi þess að á leiðtogafundinum í Edinborg í fyrri viku, þegar leiðtogar EB funduðu þar, var m.a. samþykkt að herða á aðildarviðræðum annarra EFTA-þjóða að Evrópubandalaginu og vilji er á því að leysa sérmál Danmerkur varðandi Maastricht-samkomulagið.
    Ég sagði fyrr í ræðu minni að ég áleit á sínum tíma að aðild að Evrópska efnahagssvæðinu gæti komið í veg fyrir aðild okkar að Evrópubandalaginu. Ég er alfarið á móti aðild að EB m.a. vegna eftirfarandi atriða: Í EB er sameiginleg viðskiptastefna. Þar er sameiginleg orkustefna, sameiginleg byggðastefna, sameiginleg landbúnaðarstefna, sameiginleg sjávarútvegsstefna, sameiginleg tollskrá, sameiginleg utanríkisstefna er í undirbúningi ef að Maastricht-samkomulagið fær samþykki í einhverri mynd og einn gjaldmiðill er sömuleiðis í undirbúningi ef hið sama samkomulag fer á einhvern hátt í gegn. Það er þetta sem er auðvitað fullveldisafsal. Það er þetta sem ég get ekki sætt mig við og mundi aldrei styðja en vera alfarið á móti. Það vekur mér hins vegar ugg að í stjórnarliðinu hafa verið þær raddir með vaxandi þunga að við eigum að hafa samflot með öðrum þjóðum um aðildarumsókn og viðræður um aðild. Einkum eru þessar raddir háværar í Alþfl. Ástæðurnar fyrir því eru m.a. sögulegar rætur alþjóðlegra samskipta í flokkapólitík sem liggja í Alþfl. Í evrópska stórríkinu eru kratar mikils ráðandi og bjóða bæðraflokknum hér á Íslandi í húsið. Sannir íhaldsmenn eins og Margrét Thatcher hafa óttast þetta veldi og vilja spyrna við fótum. En hvað gerir Sjálfstfl. á Íslandi þegar fram í sækir? Ég treysti því illa að hann hafi mótstöðuafl í þessu efni þó að hann og forustumenn hans telji sér henta að gefa slíkar yfirlýsingar nú að þeir séu andvígir aðild. Því gæti formleg umsókn um tvíhliða viðræður sem byggist á því að standa utan EB verið mjög mikilvægt innlegg í stöðu málsins nú.
    Fyrir kosningarnar 1991 talaði ég gegn aðild að EB en ég taldi þó að Evrópskt efnahagssvæði gæti komið í veg fyrir slíka aðild. Á kosningafundum sem ég minntist á á Austurlandi reyndu frambjóðendur Framsfl. eftir föngum að draga fram muninn á þessu tvennu og leggja spilin á borðið. Við gerðum þetta mál þá að kosningamáli.
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum draga saman nokkur meginatriði í þessu máli.
    Í fyrsta lagi. Ég er hlynntur nánum samskiptum við Evrópuþjóðir og tel að við verðum að tryggja þau samskipti sem best án þess að það komi niður á möguleikum okkar annars staðar. Við megum með engu móti halda þannig á þessu máli að það stofni viðskiptum okkar við aðra heimshluta í hættu eða við vanrækjum samskipti við aðrar viðskiptaþjóðir okkar og aðra mikilvæga markaði eins og í Norður-Ameríku og Japan, en hins vegar koma þeir markaðir ekki í staðinn fyrir Evrópumarkað. Við getum ekki búist við því þó

að vissulega séu þeir mikilvægir og beri að efla viðskipti þangað eins og kostur er. Ég tel að bókun 6 nægi okkur ekki til framtíðar í viðskiptum okkar við Evrópuþjóðir. Ég hef áhyggjur af stöðu okkar í alþjóðlegu samstarfi ef við tryggjum ekki samskipti okkar við Evrópuþjóðirnar. M.a. hef ég áhyggjur af Norðurlandasamstarfinu sem ég hef tekið þátt í með setu í Norðurlandaráði og ég hef heyrt umræðurnar á þeim vígstöðvum og get rétt ímyndað mér hvernig þær verða ef svo færi að Norðurlandaþjóðirnar yrðu aðilar að Evrópubandalaginu en við yrðum einhvers konar aukaaðili þar fyrir utan og mundum ekki tryggja með neinum hætti viðskipti okkar og samskipti við Evrópu. Það er hætt við því að við þyrftum að semja okkur inn með ærinni fyrirhöfn í allar rannsóknaáætlanir. Síðast í morgun kom Vilhjálmur Lúðvíksson á fund fjárln. vegna framlaga til rannsókna hér á landi og taldi hann aðild okkar að rannsóknaáætlunum mikilvæga. Eins og ég hef áður komið að þá held ég að eins og málin standa nú eigum við að tryggja þessa hagsmuni með tvíhliða viðræðum sé þess nokkur kostur.
    Þrátt fyrir þessi atriði, sem ég hef talið hér upp sem eru jákvæð gagnvart samningnum, get ég með engu móti tekið pólitíska ábyrgð á honum. Við framsóknarmenn höfum ekki tekið ábyrgð á málinu nú undanfarið eitt og hálft ár eða haft nokkur áhrif á framvindu viðræðna né haft nokkur áhrif á þau óteljandi atriði sem til skoðunar og ákvörðunar hafa komið við þessa samningagerð. Af þessum sökum kemur ekki til greina af minni hálfu að samþykkja þennan samning. Einnig m.a. vegna þess að ekki hefur verið orðið við því að eyða vafa um stjórnarskrárþátt málsins. Álits þjóðarinnar hefur ekki verið leitað. Sjávarútvegssamningurinn, sem liggur fyrir, er ekki ásættanlegur fyrir Íslendinga. Fullkomin óvissa er um það hvernig samningurinn muni líta út í endanlegri gerð og ekkert liggur fyrir um tvíhliða viðræður né vilja til að efna til þeirra. Það leiðir til þess að lagt er út á ísinn án þess að reyna fyrir sér um traustleika hans. Ég furða mig á því offorsi sem nú er að knýja þetta mál í gegn án þess að fyrir liggi hvernig samningurinn muni líta út að lokum né að reynt hafi verið hvort völ sé á tvíhliða viðræðum.
    Ég hygg að staða málsins sé þannig að með tilliti til forsögunnar muni ég hins vegar að öllu óbreyttu sitja hjá við atkvæðagreiðslu við 2. umr. samningsins en lykilatriðið er að láta reyna á það áður en samningurinn fær lokaafgreiðslu hér á Alþingi hvort völ er á tvíhliða samningi og þá mun ég meta þetta mál.
    Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.