Evrópskt efnahagssvæði

84. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 03:49:44 (3687)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég ætla mér ekki að lengja mikið þær umræður sem standa yfir um þátttöku okkar Íslendinga í hinu Evrópska efnahagssvæði. Þær umræður hafa nú þegar staðið alllengi og væntanlega flest sjónarmið þegar komið fram. Ég ætla því að leyfa mér að vísa í ítarlegar ræður hv. 7. þm. Reykn., Steingríms Hermannssonar, formanns Framsfl., og hv. 1. þm. Austurl., Halldórs Ásgrímssonar. Þótt endanleg afstaða þeirra til málsins og atkvæðagreiðslu um það sé ekki alveg samhljóða hafa þeir komist að svipaðri niðurstöðu um flesta efnisþætti þessa viðamikla máls. Ég get því stytt mál mitt mjög en tel þó nauðsynlegt að láta afstöðu mína koma fram og drepa á nokkur atriði sem ég tel þýðingarmikil í meðferð málsins.
    Þegar gengið var til þessara samninga vorum við framsóknarmenn þátttakendur í ríkisstjórnarsamstarfi undir forustu flokksformanns okkar, hv. þm. Steingríms Hermannssonar. Utanríkismálin voru í höndum þess hv. þm. sem enn gegnir embætti hæstv. utanrrh. Okkur framsóknarmönnum er fullkomlega ljóst hversu þýðingarmikið það er fyrir þjóð okkar að eiga góð samskipti við önnur lönd og aðrar þjóðir á sem allra flestum sviðum. Þar má telja upp menningar- og menntamál, félagsmál ýmiss konar á sviði heilbrigðis-, trygginga- svo og atvinnumála, rannsókna- og þróunarmála og síðast en ekki síst viðskiptamála. Við erum í raun svo háð þessum samskiptum og viðskiptum öllum að slíkt getur varðað pólitískt og efnahagslegt sjálfstæði okkar og einmitt þess vegna er svo afar mikilvægt hvernig þessum málum er skipað og hvernig tekst til í samningum okkar við aðrar þjóðir. Við vorum því sammála um það að hefja viðræður við Evrópubandalagið í upphafi árs

1989, sameiginlega með öðrum EFTA-þjóðum og töldum öll rök hníga að því að samningar á þeim vettvangi yrðu okkur hagstæðari en tvíhliða samningar.
    Öllum má vera ljóst að samningar kosta eitthvað, það fær enginn allt sem hann vill án þess að gjalda eitthvað fyrir. Við töldum að ,,gjaldið`` yrði lægra fyrir okkur Íslendinga sem þátttakendur í samningi með öðrum EFTA-þjóðum en ef við værum einir á báti. Við töldum einnig að slíkur samningur tveggja bandalaga, EFTA annars vegar og EB hins vegar, væri líklegur til þess að standa um alllangan tíma ef hann á annð borð næðist og yrði viðunandi. Hann yrði því mikilvægasta vörnin gegn þeim hugmyndum og áróðri að við ættum að ganga í Evrópubandalagið beint og það helst fyrr en seinna. Gegn inngöngu í EB höfum við framsóknarmenn alltaf barist og munum gera áfram. En þingflokkur okkar gaf ekki umboðið til annars en að taka þátt í þessum samningaviðræðum og sjá til hvers þær gætu leitt. Stöðuna yrði að meta jafnóðum og mál þróuðust og endanleg afstaða ekki tekin fyrr en drög að endanlegum samningi kæmi til umfjöllunar. Algert umboð til ríkisstjórnar, hvað þá heldur til hæstv. utanrrh. til að ganga frá samningum var aldrei veitt.
    Nú hefur líka komið á daginn að ýmislegt hefur breyst á þeim tíma sem liðinn er, þessum tæplega fjórum árum síðan samningaviðræðurnar hófust. Í raun er ótrúlega margt sem hefur breyst á ekki lengri tíma. Á ég þar ekki aðeins við efnisatriði samningsins sem þó eru mörg hver með öðrum hætti en að var stefnt í upphafi viðræðnanna. Það eru hinar ytri aðstæður í Evrópu sem ég vil fyrst nefna. Ástandið allt er þar með mikið öðru yfirbragði en var fyrir fjórum árum. Er bæði of langt mál og reyndar ástæðulaust að rekja það allt fyrir hv. þm. en benda má á alla upplausnina og óvissuna sem hlýtur að vera fram undan í efnahags- og viðskiptamálum þegar stór hluti Mið- og Austur-Evrópu logar í stríði og mikil hætta yfirvofandi að þau átök geti hvenær sem er leitt til enn víðtækara stríðs sem Vestur-Evrópuþjóðir geta hvenær sem er lent inn í.
    Gífurlegir efnahagserfiðleikar og stórkostlegt atvinnuleysi þessara þjóða hefur og áhrif á ríki í Vestur-Evrópu sem verið hafa efnahagslega mjög sterk. Þar koma vandamálin fram í vaxandi kynþáttahatri og andstöðu gegn flóttamönnum og innflytjendum. Auk þess eru stórir hlutar þjóða, sums staðar meiri hluti, svo sem í Danmörku og í Sviss, á móti þeirri stefnu sem stjórnmálamenn viðkomandi landa berjast fyrir, þ.e. auknu samstarfi og jafnvel samruna þessara þjóða á ýmsum sviðum. Þetta eru hinar ytri aðstæður í álfunni sem vissulega er ástæða að hafa nokkrar áhyggjur af og hafa í huga þegar rætt er um svo viðamikinn samning eins og Evrópusamningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er.
    Varðandi umgerð EES-samningsins sjálfs má fyrst nefna að þeir tveir aðilar sem að samningnum ætluðu að standa áttu í upphafi að vera jafnréttháir. Nú er ljóst að svo er ekki og EFTA-stoðin svokallaða er mun veikari en EB-stoðin. Í öðru lagi er ljóst að allar EFTA-þjóðirnar aðrar en Íslendingar vilja sem allra fyrst gerast fullgildir aðilar að Evrópubandalaginu.
    Í þriðja lagi verður svo að geta þess að Sviss hefur hafnað aðild að EES svo að EFTA-stoðin er ekki lengur veik heldur brotin. Af þessu er ljóst að sú forsenda sem við byggðum á í upphafi að samningar þessir gætu staðið um lengri tíma og komið í veg fyrir ásókn ýmissa afla að koma okkur inn í Evrópubandalagið er því miður ekki lengur fyrir hendi. Því er okkur mikilvægt að leita nýrra leiða til að tryggja okkar mikilvægu hagsmuni í samskiptum við þessar þjóðir, einkum á viðskiptasviðinu. Í því skyni hafa hv. þm. Steingrímur Hermannsson og Halldór Ásgrímsson flutt till. til þál. um tvíhliða samning við Evrópubandalagið.
    Hæstv. forseti. Um efnisatriði samningsins ætla ég ekki að fjölyrða eða rekja áhrif af fjórfrelsinu svokallaða á þjóðlíf okkar. Það hafa aðrir gert mjög vel og ítarlega á undan mér. Ljóst er að ýmislegt í þessum samningi er okkur mikilvægt og nauðsynlegt að ná fram en spurningin og matið hlýtur að snúast um það hvort sá ávinningur sé of dýru verði keyptur með þeim ákvæðum sem við getum e.t.v. kallað greiðslur af okkar hálfu fyrir hina jákvæðu þætti.
    Þegar við lögðum upp í þessa ferð var markmiðið að fá algert tollfrelsi fyrir allar sjávarafurðir okkar á mörkuðum Evrópubandalagsins. Því miður hefur þetta markmið ekki

náðst í þeim samningi sem nú er hér til umræðu. Þrátt fyrir það tel ég að þær tollalækkanir sem samningurinn gerir ráð fyrir séu mjög mikilvægar fyrir okkar fiskvinnslu og má telja fullvíst að með þessu opnist nýir möguleikar fyrir íslenskan sjávarútveg. Það er a.m.k. álit forsvarsmanna í sjávarútvegi. Ég tel að það muni á hinn bóginn reynast mjög erfitt að meta hag af þessum tollalækkunum í beinhörðum peningum þó það hafi verið reynt og ýmsir áhugasamir stuðningsmenn samningsins ekki sést fyrir í ákafa sínum við að gylla hann og fegra. Heyrst hafa tölur um hagnað upp á tvo milljarða kr. en Þjóðhagsstofnun fer þó varlegar í málið og áætlar árlegan hag 1.200--1.500 millj. Allt er þetta þó ágiskun og eins líklegt að neytendur í viðskiptalöndum okkar muni leggja alla áherslu á að ná beint til sín sem mestum hagnaði af tollalækkununum með lægra fiskverði eða vöruverði. Vonandi mun batinn þó ef rétt er á málum haldið skapa ný atvinnutækifæri hér á landi og ekki veitir af því að hætt er við að aðrir þættir samningsins, t.d. á sviði landbúnaðar og í sumum greinum iðnaðar muni leiða til þess að atvinnutækifærum fækkar. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með það hvernig landbúnaðurinn hefur á seinni stigum dregist inn í samninginn, en í fyrstu var gert ráð fyrir að hann yrði algerlega utan við og ég leyfi mér að fullyrða að hæstv. utanrrh. hafi ekki lagt sig sérstaklega fram um að verja þá atvinnugrein. Hann hefur margoft lýst þeirri skoðun sinni yfir opinberlega að það beri að auka innflutning á landbúnaðarvörum og hér var auðvitað kjörið tækifæri til þess að opna farveg og þoka þeim markmiðum áleiðis.
    Aðrir þættir eru jákvæðari eins og opnari leið fyrir þátttöku í ýmiss konar rannsóknar- og þróunarverkefnum á vegum Evrópubandalagsins, greiðari aðgangur á sviði mennta- og menningarmála og opinn vinnumarkaður þó sumir telji það síðastnefnda tvíbent ef yfir okkur flæðir ódýrt vinnuafl frá löndum þar sem atvinnuleysi er enn þá meira en það sem við eigum nú við að búa.
    Við settum fram ýmsa fyrirvara í upphafi viðræðna sem því miður hafa ekki allir náðst fram. Þar á meðal var fyrirvari um að takmarka fólksflutninga til landsins. Eftir stendur almennur fyrirvari sem hætt er við að erfitt verði að beita. Sumt af því sem við vildum ná fram til að tryggja rétt okkar sjálfra má e.t.v. girða fyrir með eigin löggjöf en það hefði þurft að vera búið að gera og liggja skýrt fyrir þegar eða ef samningurinn verður samþykktur. Full yfirráð yfir fiskimiðum okkar er það eina sem fengist hefur viðurkennt skýlaust. Vissulega er það mikilvægt og án þess hefði varla neinn samningur orðið til. Við höfum ekki talið koma til greina að skipta á aðgangi að auðlindum landsins fyrir aðgang að mörkuðum. Því miður er það nú samt staðreyndin að til að ná þeim samningi sem hér liggur fyrir varð að semja um svokallaðar gagnkvæmar veiðiheimildir og liggur sá samningur einnig fyrir þinginu til staðfestingar.
    Við framsóknarmenn teljum að hér sé ekki um ,,gagnkvæmar`` veiðiheimildir að ræða og munum því ekki styðja þann samning. Auk þess verður það að teljast mjög miður að hafa þurft að sætta sig við slíkan samning og fá nú flotann frá Evrópubandalaginu inn í fiskveiðalögsöguna á ný. Það getur átt eftir að reynast erfitt að verjast aukinni ásælni við endurnýjun þessa samnings, hvað þá að koma Evrópubandalaginu út úr fiskveiðilögsögunni aftur. Ég óttast að hér hafi ekki heldur verið haldið nægilega vel á spilunum af hálfu hæstv. utanrrh. Gáleysislegt tal hans hefur ekki verið trúverðugt eða traustvekjandi, jafnvel ekki um stjórnarskrána sem ber þó að sýna virðingu þótt skoðanir séu skiptar. Kem ég að því síðar.
    Kynningin á máli þessu af opinberri hálfu hefur verið ótrúverðug. Málflutningur hæstv. utanrrh. hefur verið einlitur og allt gert til að fegra hlutina. Hvergi hefur örlað á gagnrýni eða minnstu viðleitni til að benda á það sem betur hefði mátt fara. Það hefði að mínu áliti skapað almennari skoðanaskipti og fólk hefði átt auðveldara með að meta kosti og galla og gera síðan upp hug sinn. Einhæf kynning og fullyrðingar um það að allt hafi fengist fyrir ekkert hafa á hinn bóginn skapað tortryggni og andstöðu. Kannski má segja að þetta skipti ekki máli þar sem ríkisstjórnin og meiri hluti hennar á hinu háa Alþingi hafa hafnað þeirri sjálfsögðu kröfu tugþúsunda landsmanna að fá að segja sitt álit í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórnin neitar að kynna málið ítarlega og hlutlaust og benda á kosti

og galla en það hefði verið nauðsynlegur og mikilvægur undanfari þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
    Hæstv. forseti. Ég hef hér á undan drepið á nokkur þau atriði sem ég tel mikilvæg í þessari samningsgerð og nefnt bæði kosti og galla. Margt fleira mætti tína til en ég læt nægja að vísa aftur í aðrar og ítarlegri ræður sem hér hafa verið fluttar.
    Ég ætla að lokum að fara nokkrum orðum um stjórnarskrárþátt málsins. Um hann hafa verið skiptar skoðanir svo sem allir hv. þm. vita og alþjóð er ljóst. Á fundi miðstjórnar Framsfl. sem haldinn var 3. maí í vor kom fram í ályktun um hið Evrópska efnahagssvæði að uppi væru efasemdir um gildi samningsins gagnvart íslenskri stjórnarskrá. Þá var ályktað að stuðningur við EES kæmi ekki til greina nema samningurinn stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar. Síðan hefur margt verið ritað og rætt um málið. Ég hef sjálfur e.t.v. ekki velt þessum þætti nægjanlega vel fyrir mér á fyrri stigum málsins og svo hygg ég að hafi verið um fleiri hv. þm.
    Á fundi í hv. utanmrn. sem ég sat sem varamaður 19. júní sl. gerði Guðmundur Alfreðsson lögfræðingur nefndarmönnum ítarlega grein fyrir skoðunum sínum á stjórnarskrárþættinum. Var það afdráttarlaus skoðun hans að löggjafi og forseti gætu ekki með neinu móti lögfest samninginn án stjórnarskrárbreytingar. Síðan sendi Guðmundur hv. utanrmn. ítarlega skýrslu um málið sem dags. er 16. ágúst 1992. Þar segir Guðmundur m.a., með leyfi forseta:
    ,,Stjórnarskráin geymir enga heimild til framsals á dómsvaldi út úr landinu til dómstóla sem gætu kveðið upp bindandi dóma sem kæmu beint til fullnustu að landsrétti. Engin fordæmi eru til um slíka niðurstöðu. Það verður að telja slíkt óheimilt að óbreyttri 2. gr. stjórnarskrárinnar með hliðsjón af 60. og 61. gr. hennar.``
    Þetta er að mati höfundar eitt skýrasta dæmið um stjórnarskrárbrot sem mundi leiða af lögfestingu EES-samningsins. Síðar í skýrslunni segir, með leyfi forseta:
    ,,Að mínu mati stangast valdaframsal til EB greinilega á við 1. og 2. gr. stjórnarskrárinnar. Við stofnun lýðveldisins skipti stjórnarskrárgjafinn verkum milli íslenskra valdhafa. Ég held því fram í meginmáli þessarar greinargerðar að valdaframsal til yfirþjóðlegra stofnana sé óheimilt að óbreyttri stjórnarskrá, en ég fullyrði að stjórnarskrárgjafinn hafi útilokað valdaframsal til yfirþjóðlegra stofnana sem við erum ekki aðilar að. Engu máli skiptir þótt framsalið sé afmarkað og takmarkað við ákveðna málaflokka á viðskiptasviðinu. Þetta er einfaldlega ekki hægt að óbreyttri stjórnarskrá.``
    Hér talar Guðmundur Alfreðsson mjög afdráttar- og tæpitungulaust um stjórnarskrárbrot. En um það eru lögfræðingar ekki á einu máli og í seinni tilvitnuninni, sem ég las, talar Guðmundur um afmarkað og takmarkað valdaframsal og vísar þar til greinargerðar sem fjórir lögfræðingar á vegum hæstv. utanrrh. sömdu um málið. Ég hef lesið þessa skýrslu ítarlega svo sem hina fyrri og verð að segja að mér finnst hún um margt óljósari. Mig langar að lesa hér fjórar tilvitnanir, með leyfi forseta:
    1. ,,Í 2. gr. stjórnarskrárinnar er talað um forseta lýðveldisins og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskránni og öðrum landslögum. Ekki er tekið fram að þetta skuli vera alíslensk stjórnvöld og hugsanlegt er að alþjóðastofnanir séu stjórnvöld eftir 2. gr.``
    Hér finnst mér jaðra við að gert sé grín að stjórnarskrá okkar. Önnur tilvitnunin sem mig langar til að taka, með leyfi forseta, er svo:
    2. ,,Við teljum jafnframt að engin nauðsyn sé til að ráðast nú í breytingar á stjórnarskránni vegna þessa möguleika. Ef fram kemur síðar að slíkra breytinga sé þörf er Ísland að þjóðarétti skuldbundið til að gera þær.``
    3. ,,Vald það sem alþjóðastofnunum er ætlað með samningum sem hér er fjallað um er vel afmarkað. Þetta vald er á takmörkuðu sviði. Það er ekki verulega íþyngjandi fyrir íslenska aðila.``
    4. ,,Þá bendum við á að síðar megi eða beri að gera stjórnarskrárbreytingu ef fram kemur að forsendur okkar standast ekki.``
    Hér sýnist mér í raun að valdaframsal sé viðurkennt en af því að það sé afmarkað, takmarkað og ekki verulega íþyngjandi og svo megi alltaf breyta stjórnarskránni síðar sé þetta í lagi. Vissulega er um ágreining að ræða og sjálfsagt ekki auðvelt að skera afdráttarlaust úr um hvað sé rétt og rangt í þessum efnum. Ég er ekki löglærður maður og treysti mér því ekki til þess að gerast dómari í málinu en afstöðu hlýt ég að sjálfsögðu að taka svo sem samviska mín býður mér. Ég tel að rétt hefði verið að breyta stjórnarskránni til að taka af vafa og gera þeim fært að samþykkja samninginn sem það hefðu viljað gera með tilliti til efnisatriða hans án þess að þurfa að kljást við samvisku sína um hvort hér sé um stjórnarskrárbrot að ræða. Þessu hefur hæstv. ríkisstjórn hafnað og þingmeirihluti hennar.
    Að undanförnu höfum við hv. þm. afgreitt ýmis frumvörp sem á einn eða annan hátt tengjast EES-samningnum og alltaf hefur legið ljóst fyrir að yrði hann samþykktur kallaði það á margvíslega lagasetningu. Flest eru þessi frumvörp með ákvæði um að þau öðlist gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið. Þau falla því og standa með því hvernig honum reiðir af. Verði hann samþykktur er lagasetningin nauðsynleg. Verði hann felldur taka þau aldrei gildi. Þetta á m.a. að hluta til við um frv. til samkeppnislaga sem var til 2. umr. í hinu háa Alþingi fyrir nokkrum dögum. Hér er um mikilvæga löggjöf að ræða sem samstaða var um utan einn kafla hennar sem snýr að EES-samningnum. Því hljóðar svo 62. gr. frv., sem fjallar um gildistökuna, með leyfi forseta:
    ,,Lög þessi öðlast gildi 1. mars 1993 nema XI. kafli laganna sem öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið.``
    Frv. þetta var til meðferðar í hv. efh.- og viðskn. en í henni eiga sæti af hálfu Framsfl. hv. þm. Halldór Ásgrímsson og Jóhannes Geir Sigurgeirsson og undirrituðu þeir nál. með fyrirvara. Hv. þm. Halldór Ásgrímsson gerði svohljóðandi grein fyrir afstöðu sinni og fyrirvara, með leyfi forseta:
    ,,Að því er varðar þann fyrirvara sem við setjum í nál. þá er ljóst að einn kafli þessarar löggjafar fjallar um framkvæmd samkeppnisreglna og fleira samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þar er fjallað um eftirlitsstofnun EFTA og dómstól EFTA og þar eru ákvæði sem hafa verið til mikillar umfjöllunar að undanförnu í ljósi þess að við höfum átt í samningum um hið Evrópska efnahagssvæði. Mér er alveg ljóst að nauðsynlegt er að það sé fyrir hendi úrskurðaraðili í ágreiningsefnum að því er varðar samninginn. Engin leið er að koma á slíkum alþjóðlegum samningi nema slíkur úrskurðaraðili sé fyrir hendi. Hins vegar hefur komið fram að á því er mikill vafi hvort slíkt framsal á valdi standist stjórnarskrá okkar og mjög margir lögfræðingar hafa sett fram skoðanir um að sá vafi sé hendi. Sumir hafa gengið svo langt að halda því fram að það standist alls ekki. Aðrir halda því fram að rétt sé að taka af allan vafa með því að breyta stjórnarskránni. Það hefur jafnframt komið fram hjá þeim lögfræðingum sem ríkisstjórnin fékk til þess að fara yfir málið að trúlega muni koma til þess þótt þeir telji ekki nauðsynlegt á þessu stigi að slík breyting eigi sér stað. Hér er því greinilega tekin áhætta sem ríkisstjórnin hlýtur að bera ábyrgð á og fyrirvari okkar Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar, hv. 6. þm. Norðurl. e., lýtur að þessu atriði málsins. Að öðru leyti mælum við með að frv. þetta verði samþykkt og leggjum á það áherslu að það hljóti afgreiðslu sem fyrst. Við teljum að hér sé um merka breytingu á lögum um samkeppni að ræða.``
    Með vísun til þessa og þess sem ég hef áður sagt um málsmeðferð taldi ég eðlilegt að sitja hjá við afgreiðslu þessa frv. Málið er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og fylgir afgreiðslu EES-samningsins. Það er við afgreiðslu hans en ekki einstakra frumvarpa sem endanleg afstaða hv. þm. til málsins í heild kemur fram. Atkvæðagreiðsla þessi hefur af ýmsum verið blásin út og jafnvel gerð tortryggileg. Fjölmiðlar hafa látið sem þetta væri einhvers konar generalprufa á afgreiðslu frv. um samninginn sjálfan. Því taldi ég nauðsynlegt að þetta viðhorf mitt kæmi fram þó ég hafi reyndar strax eftir atkvæðagreiðsluna greint frá því í samtölum mínum við fréttamenn blaða.
    Hæstv. forseti. Ég tel afar brýnt að við Íslendingar náum viðunandi viðskiptasamningum við þau lönd sem við eigum mest og mikilvægust viðskipti við og samskipti við þau séu að öllu öðru leyti sem best. Ég tel EES-samninginn að vissu marki þjóna þessu hlutverki en í honum eru einnig ýmis atriði sem betur mættu fara og enn önnur sem erfitt eða

útilokað er að sætta sig við.
    Flokksþing framsóknarmanna sem haldið var dagana 27.--29. nóv. sl. fjallar um þessi atriði í ályktun og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Jafnvel þótt ofangreind atriði verði tryggð og efnissvið samningsins talin viðunandi telur flokksþingið vafasmt að það standist hina íslensku stjórnarskrá að framselja til eftirlitsstofnunar og dómstóls EFTA vald eins og gert er ráð fyrir í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Flokksþingið ber virðingu fyrir íslensku stjórnarskránni og telur að túlka beri allan vafa henni í hag. Flokksþingið telur því nauðsynlegt að breyting fari fram á íslensku stjórnarskránni áður en unnt væri að samþykkja aðild Íslands að hinu Evrópska efnahagssvæði.``
    Breyting á stjórnarskránni hefur verið felld. Þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn hefur verið hafnað. Nauðsynlegir fyrirvarar um einstöku atriði hafa ekki náðst eða eru ófullnægjandi. Sjávarútvegssamningurinn er óásættanlegur. Mér finnst hæstv. utanrrh. ekki trúverðugur í framgöngu sinni og málsmeðferð og fjalla af lítilsvirðingu, jafnvel stundum hæðni, um viðkvæma þætti í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum, svo og í sjálfu stjórnarskrármálinu eða með hans eigin orðum ,,dómsvald, löggjafarvald og framkvæmdarvald eða hvað þetta nú allt saman heitir og er``. Mér finnst að hæstv. ráðherra eigi að fjalla um stjórnarskrána af meiri viðringu er hann ræðir við aðra hv. þm. þótt skoðanir hans fari ekki saman við skoðanir þeirra.
    Ég tel að í samningi þessum felist valdaframsal sem er stjórnarskrárbrot og mun því greiða atkvæði gegn frv. þessu.