Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 10:32:33 (3688)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir á þskj. 427 fjallar um fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumrn. og tengist á þann veg afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1993. Meginmál frv. er í þremur köflum.
    Sá fyrsti fjallar um embætti hreppstjóra og í honum er lagt til að þau embætti verði lögð niður og þau verkefni sem hreppstjórar höfðu með höndum og enn eru í fullu gildi færist til annarra embættismanna.
    Í örðum kafla er lagt til að heimilt verði að leggja á sérstakt umferðaröryggisgjald sem renni til Umferðarráðs og í þriðja lagi er lagt til að tiltekin verkefni á sviði kirkjumála verði kostuð af hlutdeild kirkjugarða í tekjuskatti á árinu 1993.
    Að því er varðar I. kafla frv. hefur komið fram af hálfu margra hv. þm. að þeir telji óeðlilegt að leggja þessi embætti niður. Einkanlega hafa menn vísað til þess að hér er um að ræða stofn nútímavaldakerfis á Íslandi, elsta embætti í Íslandssögunni, og það leiði til þess að óeðlilegt sé í sparnaðarskyni að leggja sjálfan grunn þjóðfélagsvaldsins niður með þessum hætti sem ráðgert er í frv. Mér er kunnugt um að hv. fjárln. hefur fjallað um þetta mál og mun væntanlega gera tillögur um það að fjármunum verði veitt til þess að kosta störf hreppstjóra og fallist hið háa Alþingi á þá tillögu á að vera tryggt að unnt sé að halda þessum embættum óröskuðum og því þurfi ekki að koma til þess niðurskurðar sem I. kafli frv. fjallar um.
    Ég þakka hv. fjárln. fyrir afgreiðslu þessa máls og vænti þess í framhaldi af því að hv. allshn., sem væntanlega fær þetta frv. til meðferðar, flytji tillögu þess efnis að I. kafli frv. falli brott. Vænti ég þess í framhaldi af því að góð samstaða geti tekist um frv. að öðru leyti.
    Í II. kafla frv. er vikið að breytingu á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987. Í 30. gr. frv., sem er eina grein þess kafla, er lagt til að dómsmrh. verði heimilað að leggja á sérstakt umferðaröryggisgjald er renni til Umferðarráðs. Gjaldið ná nema allt að 100 kr. og á að greiðast við hverja almenna skoðun ökutækis, skráningu ökutækis og skráningu eigendaskipta að ökutæki. Með greininni er því verið að veita Umferðarráði hlutdeild í tekjum af aðalskoðun og skráningu ökutækja. Fjöldi slíkra verka er um 150 þúsund á ári. Aðalskoðanir eru 92 þúsund, skráningar eigendskipta um 50 þúsund og nýskráningar um 8 þúsund. Gjaldið gæti því skilað Umferðarráði um 15 millj. kr.

    Flest slys verða fremur rakin til mannlegra mistaka en bilunar í ökutækjum. Ökutækjaskoðun hefur bætt umferðaröryggi að markmiði og má færa fyrir því rök að einhverjum hluta skráningar- og skoðunargjalda sé varið til uppfræðslu í sama skyni.
    1. maí sl. voru Bifreiðapróf ríkisins sameinuðu Umferðarráði en Bifreiðaprófin höfðu haft með höndum umsjón og framkvæmd ökuprófa og kennslu til aukinna ökuréttinda frá því að Bifreiðaskoðun Íslands hf. tók við meginþorra verkefna Bifreiðaeftirlits ríkisins í ársbyrjun 1989. Umferðarráð gegndi þegar því hlutverki samkvæmt umferðarlögum að stuðla að öruggari umferð, bættum umferðarháttum og aukinni umferðarmenningu. Sameining þessara þátta er talin munu auka möguleika stofnunarinnar á því að ná árangri í starfi sínu og er mikill áhugi á því að efla hana til þess. Hefur stofnunin t.d. í undirbúningi að setja fram heildstæða áætlun um fækkun umferðarslysa og markmið og leiðir í þeim efnum. Er vonast eftir að áætlunin sjái dagsins ljós á þessu þingi.
    Nokkur óvissa er um hvernig breytingar á starfsemi Umferðarráðs muni hafa áhrif á ýmsar tekjur stofnunarinnar en talið er að sértekjur muni lækka nokkuð, um 8--9 millj. kr., aðallega vegna þess að kennsla vegna ökuprófa leggst af hjá stofnuninni en sú starfsemi hefur skilað rekstrarafgangi. Samkvæmt frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 mun ríkisframlag til stofnunarinnar hækka um um það bil 3 millj. kr., í um 22 millj. Verði þetta frv. að lögum mun Umferðarráð því hafa úr að spila um 10 millj. kr. hærri fjárhæð á árinu 1993 en stofnanirnar tvær hafa haft á árinu 1992, eða alls tæpar 77 millj. kr., ef núverandi áætlun um sértekjur gengur eftir.
    Þess má að lokum geta að dómsmrn. hefur áhuga á að kanna hvort heppilegt sé að flytja ýmis bílatæknileg mál, sem nú er sinnt í ráðuneytinu, til Umferðarráðs. Hér er t.d. um að ræða ýmsar afgreiðslur og túlkanir á reglum um gerð og búnað ökutækja og fleira sem heppilegra gæti verið að sinna utan ráðuneytisins sjálfs, en getur illa vistast hjá skoðunarfyrirtækjum sem eru í samkeppni.
    Í III. kafla frv. er svo vikið að breytingum á verkaskiptingu milli ríkis og kirkju. Með þeim breytingum er gert ráð fyrir að lækka útgjöld á sviði kirkjumála um um það bil 87 millj. kr. Er ráðgert að lækka ríkisframlag til kirkjumála með því að mæla fyrir um að kostnaður við tiltekin verkefni skuli greiddur af hlutdeild kirkjugarða í óskiptum tekjuskatti.
    Sú skipan mála sem frv. þetta gerir ráð fyrir að því er þetta varðar er bundin við árið 1993. Dóms- og kirkjumrn. hefði kosið að þjóðkirkjan tæki sjálf yfirstjórn þessara verkefna og að varanlegri breyting yrði gerð á fyrirkomulagi tekjustofna, t.d. þannig að jöfnunarsjóður sókna yrði efldur til að standa straum af kostnaði við þessi verkefni en kirkjugarðsgjald lækkað og sniðið eftir því sem þau verkefni krefjast. Kirkjuráð taldi hins vegar ekki unnt að fjalla um og taka afstöðu til svo stórfelldrar kerfisbreytingar á stuttum tíma og taldi skárri kost að búa óumflýjanlegum tilflutningi kostnaðar það tímabundna form sem frv. gerir ráð fyrir. Þó er gert ráð fyrir því að breyting verði á lögum um kirkjugarða þannig að laun umsjónarmanns kirkjugarða verði eftirleiðis greidd beint úr kirkjugarðssjóði en ekki ríkissjóði eins og verið hefur.
    Þau verkefni sem kostuð verða með þessum hætti eru viðhald og bygging prestssetra, kaup eigna á prestssetursjörðum, embætti söngmálastjóra þjóðkirkjunnar og Tónskóli Íslands, starfsþjálfun guðfræðikandídata, kirkjuþing, prestastefna, kirkjuráð, fjölskylduþjónusta kirkjunnar og fjárlagaliðurinn Ýmis verkefni. Samtals nema þessar fjárhæðir rúmum 85 millj. kr. en við það bætist svo kostnaður vegna umsjónarmanns kirkjugarða svo sem að framan greinir. Vísast um þetta nánar til athugasemda með frv.
    Frú forseti. Ég hef þá í aðalatriðum gert grein fyrir efni frv. og þeim efnislegu breytingum sem ég legg til að gerðar verði á því í meðförum þingsins og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar hv. allshn.