Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 10:41:16 (3689)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hér hefur hæstv. dóms- og kirkjumrh. mælt fyrir frv. til laga um fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumrn. Ég minnist ekki svona framsöguræðu og uppákomu, eins og stundum er sagt, eins og kom fram í máli hæstv. dómsmrh. Hann hóf ræðu sína með því að fagna því að svo virtist sem ekki væri meiri hluti fyrir fyrstu 29 greinum þessa frv. sem hann hefur lagt hér fram og því muni það ekki ná fram að ganga. Nú held ég að í fyrsta lagi standi lítið eftir af frv. þegar búið er að taka burtu fyrstu 29 greinarnar og því hljóti að verða að koma fram annað frv. með því efni en það mun allshn. að sjálfsögðu taka til athugunar þegar hún fjallar um málið og skal ég ekki eyða meiri tíma í það.
    Þegar fjárlagafrv. var lagt fram á þessu hausti kom í ljós að ekki var í því ætluð nein fjárveiting til greiðslu á launum hreppstjóra. Allshn. fjallaði um þetta atriði sem önnur sem snerta dóms- og kirkjumrn. í yfirferð sinni um þann kafla fjárlagafrv. Það varð ekki samkomulag í allshn. um afstöðu til þessa atriðis eins og fleiri í frv. Minni hluti allshn. benti á í umsögn sinni til fjárln. að hér væri um ákaflega vitlausa hugmynd að ræða að leggja niður hreppstjóraembættin. Ekki væri aðeins um langa hefð að ræða í þessu embætti þó ég haldi að fáir geti skilið það sem hv. 3. þm. Suðurl. segir í blaðagrein í morgun að einhverjir í þeirri stétt hafi 900 ára starfsaldur að baki. Engu að síður hafa margir orðið aldraðir hreppstjórar, en því var breytt fyrir fáum árum þannig að um þá gilda sömu reglur og aðra opinbera starfsmenn.
    Það sem kannski er aðalatriðið í sambandi við fjárlagagerðina er sú hugmynd sem sett var fram um tilfærslu þeirra verkefna sem hreppstjórar hafa annast og annast samkvæmt lögum. Það er áreiðanlegt

að það yrði miklu dýrara fyrir ríki og sveitarfélög, sem áttu að taka við hluta af því starfi, að annast það heldur en þau laun sem hreppstjórar hafa fengið fyrir þessi störf.
    Því miður tók fjárln. ekki til greina ábendingar okkar minni hluta allshn. fyrir 2. umr. fjárlaga. Því lögðum við tveir þingmenn, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og ég, fram tillögu við 2. umr fjárlaga um að áætluð yrði upphæð sem mundi nægja til greiðslu launa hreppstjóra fyrir næsta ár en því miður var sú tillaga felld við 2. umr. þó ekki væru allir þingmenn stjórnarliðsins svo harðákveðnir í að fella þetta niður að þeir sátu hjá. Þegar svo var komið fluttum við Ólafur Þ. Þórðarson aftur tillögu um að hreppstjórum yrðu áætluð sömu laun og í núgildandi fjárlögum, þar sem fjárveitingu til þeirra er skipt niður á hvert sýslumannsembætti í landinu.
    Það er mér að sjálfsögu mikið ánægjuefni að heyra nú að stjórnarliðið virðist vera búið að snúa við blaðinu og ætla að láta undan þessum þrýstingi og muni því styðja þá tillögu sem við Ólafur Þ. Þórðarson höfum flutt um að þeim verði greidd laun. Reyndar var alveg óskiljanlegt að ætla sér að svipta þessa menn launum sínum fyrirvaralaust um áramót þegar ekki er enn búið að afgreiða það frv. sem hér liggur fyrir og gerir ráð fyrir að þessi embætti yrðu lögð niður.
    Ég skal við þessa umræðu ekki eyða meiri tíma í að fjalla um þetta atriði. Þarna virðist hæstv. ríkisstjórn og stjórnarlið ætla að snúa frá villu síns vegar og er það meira en hægt er að segja um flest þau atriði sem þeim er bent á að séu óskynsamleg af þeim hugmyndum og tillögum sem þeir leggja hér fram um þessar mundir.
    Í II. kafla laganna, 30. gr., er fjallað um gjald á ökutæki. Það má segja að hér sé framhald af þeirri stefnu sem mörkuð var á síðasta þingi þegar gjald var lagt á unglinga, sem eru að taka próf í fyrsta sinn, til þess að létta á útgjöldum ríkissjóðs og það er að heyra að við þá stefnu eigi að halda.
    Þá er III. kaflinn um fjármálaráðstafanir á sviði kirkjumála. Við minnumst þess sjálfsagt öll að fyrir rúmu ári síðan urðu nokkuð hörð orðaskipti milli hæstv. dóms- og kirkjumrh. og biskups þar sem kirkjuþing mótmælti því að kirkjugarðsgjald yrði skert. Þá fell allt í ljúfa löð milli biskups og hæstv. ráðherra eftir að hæstv. dómsmrh. hafði lýst því yfir að þetta yrði aldrei gert aftur. Nú er ekki hægt að sjá annað en hér sé vegið aftur í sama knérunn, þ.e. það á að taka 20% af kirkjugarðsgjaldi og láta það renna til að greiða útgjöld ríkissjóðs og breytir þá litlu um þó að það sé merkt til ákveðinna liða í dóms- og kirkjumrn.
    Þar að auki á síðan að láta eftirlitsmann kirkjugarða fá laun af kirkjugarðsgjaldi. Er því óhætt að segja að þarna sé gengið lengra en gert var í fyrra í að draga úr ráðstöfunartekjum kirkjunnar.
    Ég skal á þessu stigi ekki hafa fleiri orð um þetta furðulega frv. Eins og hæstv. ráðherra sagði verður það skoðað í allshn. þar sem ég á sæti og þá kemur í ljós í hvaða mynd það kemur aftur fram til Alþingis ef það birtist á ný.