Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 11:07:06 (3692)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv. sem hér er til umræðu. Ég tek undir það sem fram hefur komið að þetta frv. er allt með mjög sérkennilegum hætti og meðferð þess er með mjög sérkennilegum hætti. Það er því kannski ekki mjög mörgum orðum að því eyðandi þegar verið er að kippa út meginkafla frv., eða a.m.k. viðamesta kaflanum, sem snýr að hreppstjórum. Satt að segja er afskaplega hroðvirknislega að máli staðið þegar það kemur fram með þessum hætti að ráðherrann sem leggur málið fyrir er manna fegnastur að þessu er spyrnt frá. Ég satt að segja átta mig ekki á því hvernig haldið er á málunum með þessum toga í ráðuneyti. Ég þekki nú ekki mjög náið til málefna dóms- og kirkjumrn. en eitthvað sýnist manni að þarna sé jarðsambandið við verkefnin, sem eru vítt um landið t.d. á þessu sviði, ekki mjög traust. En það vonandi stendur til bóta.
    Það liggur fyrir sú stefna að gefa hreppstjórunum líf og menn ganga fram í fjöllesnum blöðum í landinu og komnir með oddi og egg upp þannig að það verður sjálfsagt myndarleg sveit til varnar fyrir hreppstjórana þegar ekki aðeins sagnfræðideild Kvennalistans er komin í málið heldur einnig einn af vígreifustu þingmönnum Sjálfstfl. með oddi og egg uppi og þær söguskoðanir sem hér hafa verið nefndar um starfsaldur hreppstjóra. Mér sýnist því að þeirra málum hljóti að vera sæmilega borgið það sem eftir er aldarinnar og spurning hvort dóms- og kirkjumrh. á ekki einfaldlega að setja málið í hendur þessara aðila og stofna nefnd um málið til þess að skoða hvernig megi vernda hreppstjóraembættin í landinu í önnur 900 ár í viðbót.
    Ég greiddi atkvæði á móti þeirri brtt. sem var uppi um að fella þetta niður og er því ánægður með þá stefnu. Ég vil samt ekki þar með fullyrða að þessi mál megi ekki skoða í sambandi við stjórnskipun í landinu eins og hvað annað. Ég er ekki svo verndarsinnaður í þessu efni þó ég eigi nokkrar ættir og tengsl við hreppstjóraembætti í landinu litið til baka. Ég held að það sé mjög farsælt að menn taki sér betri tíma til að líta á þetta svið.
    Það held ég að ætti að gilda um aðra þætti sem þetta frv. fjallar um því mér sýnist að hér sé verið að reyna að bjarga fyrir horn út af hroðvirknislegum vinnubrögðum og niðurskurði af hálfu fjármálayfirvalda starfsemi sem menn telja þrátt fyrir það að þurfi að lifa og þurfi að gefa eitthvert svigrúm í sambandi við umferð í landinu sem er auðvitað svið sem er afar nauðsynlegt að sinna, ekki síst með tilliti til öryggismála. Hitt er svo annað mál að ég er ekki alveg sannfærður um að þetta Umferðarráð hafi verið sett upp með þeim hætti sem æskilegast væri. Mig minnir að þetta sé afar fjölmenn stofnun sem þarna er á ferðinni. Ég óttast dálítið að áherslur t.d. í sambandi við starfsemi að þeim málum, sem undir ráðið heyri, nái ekki sem skyldi út um landið og þar þyrfti kannski að huga að málum með tilliti til þess að þær áherslur, fræðsla og leiðbeiningar, sem þarna er um að ræða, nái um allt landið. En hér er verið að leggja á þjónustugjald eins og kemur fram í frv. til að tryggja að Umferðarráð hafi eitthvert fé handa á milli. Varðandi þau efni skiptir hins vegar nú kannski mestu að skipulag þessara mála og skipulag með tilliti til umferðar, ekki síst í þéttbýli, verði tekið öðrum tökum en nú er þar sem stefnt hefur verið að því að einkabíllinn hafi forgang á öllum sviðum en almenningssamgöngur og annað sem að þeim lýtur verði hornreka sem og gangandi vegfarendur og að ekki sé nú talað um þá sem á reiðhjóli ferðast þannig að þetta mál tengist nokkuð víða, en ég ætla ekki að fjalla um það frekar hér og nú.
    Svipurinn á þessu frv. batnar ekki þegar litið er til III. kaflans, þ.e. til fjármálaráðstafana á sviði kirkjumála, því að þar er greinilega það sama uppi að dóms- og kirkjumálaráðuneytið er að verjast í nauðvörn varðandi málefni sem snúa að kirkjumálefnum til þess að bjarga þar fjárveitingum til verkefna. Ég treysti mér ekki til að leggja mat á hvort skynsamlega er ráðið í þeim efnum og skiptingu eins og fram kemur í grg. með frv. Ég vil ekki kveða neitt á um það. En ég vildi aðeins segja um þetta efni að ég tel að það sé mikil nauðsyn á því að það verði farið yfir þetta málasvið, þ.e. sem snýr að þjóðkirkjunni, að kirkjugörðum og slíkum hlutum með miklu skilmerkilegri hætti en fyrir liggur, enda er hér náttúrlega ljóslega um hreint bráðabirgðafyrirkomulag að ræða og fram kemur að áform séu nú uppi um að taka það einhverjum öðrum tökum. Ég held að þetta sé sem sagt svið sem þurfi að fá miklu meiri athygli á vegum ráðuneytis og þingsins þannig að eðlilega sé á því haldið og séð fyrir nauðsynlegum þörfum í þeim efnum sem og að samhengi sé á milli ákvæða, trúfrelsisákvæða og annars þess háttar. Þó að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar tengist auðvitað þjóðkirkjunni, sem er ríkiskirkja hér, þá eru auðvitað aðrir söfnuðir og

önnur viðhorf uppi sem þurfa auðvitað líka að njóta ákveðins jafnræðis í sambandi við aðstöðu og annað þess háttar. Ég tel út af fyrir sig að það sé sjálfsagt að líta á þau efni, skipun presta og prestakalla og annað þess háttar getur tengst þessum málum. Þarna þarf auðvitað að vera eðlileg þróun og eðlileg málsmeðferð. Þetta er hálfkák sem hér er og hreint til bráðabirgða og skynsamlegast hefði auðvitað verið og best ef hægt hefði verið að leggja málið til hliðar, frv. allt, en þar sem það tengist ákvörðunum sem verið er að taka fjármálalegs eðlis þá er kannski hægt að una því að þeir kaflar, sem eftir standa af þessari sérkennilegu smíð, fái einhverja meðferð sem nauðsynleg er talin af hálfu þingnefndar.