Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 11:15:07 (3693)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það er nauðsyn að þakka stjórnarsinnum fyrir að í þessu máli, sem hér er til umræða, hafa þeir hlustað á rök og það er virðingarvert. Ég er líka þeirrar skoðunar að í upphafi, áður en umræða hófst um hið forna embætti, hreppstjórana, hafi verið í þeirra röðum margir sem ekki undu því að menn gengju þannig um garða eins og þar var lagt til.
    Ég get tekið undir það að náttúrlega er ekkert öryggi að þetta sé tryggt næstu 900 árin en ég held samt að mikill vilji sé orðinn til þess hjá Sjálfstfl. að svo verði.
    Ég ætlaði aftur á móti að víkja að einu atriði varðandi umferðaröryggisgjaldið og það er þessi árátta að setja alls staðar í lagatexta að heimilt sé að hækka gjald í réttu hlutfalli við vísitölu. Svona ákvæði í lagatexta vinna mót öllum skynsamlegum markmiðum í hagstjórn í landinu. Svona ákvæði í lagatexta fjölgar skrúfunum sem knýja áfram verðbólguna í landinu. Ef af einhverjum ástæðum þjóðin nær ekki þeirri efnahagsstjórn sem leiðir til þess að framfærsluvísitalan hækkar á það þá að vera sjálfgefið að þetta hækki? Ef fiskbrestur verður við landið sem leiðir af sér gengisfellingu á það að vera sjálfgefið að sumir hafi allt sitt á þurru, aðrir ekki? Ég tel ákaflega vitlaust að fjölga þessum ákvæðum. Og mér sýnist að ekki sé um það stórmál að ræða að ekki sé hægt að feta sig inn á þá braut í rólegheitunum að afnema það úr öllum lagatextum helst, þetta sjálfvirka vísitöluákvæði sem skrúfar stöðugt og ýtir stöðugt á eftir. Auðvitað er hér um skatt að ræða. Það er aftur á móti, eins og hér kemur fram, e.t.v. rökrétt að ökutækin greiði til þessara mála og þá sé það ekki óeðlilegt að það sé greitt af ökutækjunum, en hins vegar er ég þeirrar skoðunar að hvað sem um það sérstæða gjald, kílógjaldið má segja, þá sé það náttúrlega dálítið hlálegt að láta smæstu tegund af bílum greiða sama gjald og þá sem eru fyrirferðarmestir umferðinni. Ég held að það sé ekki rökrétt.
    Varðandi fjármálaráðstafanir á sviði kirkjumála þá getur sá sem hér stendur ekki þvegið hendur sínar af því að hafa tekið þátt í því að greiða atkvæði með því á Alþingi að viss hluti af þessum tekjum færi til ríkissjóðs. Það var ekki gott að þurfa að gera það og það verður lengi í minnum haft að hæstv. núv. dómsmrh. nýtti sér það mjög hversu vel menn lágu við höggi þegar þetta var lagt á í fyrsta skipti. Ég hélt satt best að segja þess vegna að hann mundi reyna að kalla saman þá aðila sem um þetta fjalla þannig að við gætum farið í einhverjar heildarbreytingar á þessum lögum, endurskoðun þessara laga. Það má segja að 33. gr. sé í þeim anda að þar er um heildarbreytingu að ræða, varanlega breytingu og ég tel eftir atvikum að ekki sé óeðlilegt að því sé hagað á þann veg sem þar er gert, en ég hygg að það þætti aftur á móti dálítið sérstætt ef á launaseðli til söngmálastjóra þjóðkirkjunar stæði: Greitt af kirkjugörðum landsins. Menn sæju að það væri dálítið skondið ef slíkur texti fylgdi. Það er ekki lausn í þessum efnum að tjalda til einnar nætur eins og hér er verið að gera.
    Mér finnst það liggja dálítið ljóst fyrir að kirkjugarðarnir fengu verulega mikla rýmkun á tekjustofnum sínum sem leiddi til þess að þeir höfðu mun meira fé en áður. En þeir fóru í það að niðurgreiða útfararkostnað og gerðu það á þeirri þjónustu sem þeir stóðu sjálfir að. Ég verð að segja eins og er að mér hefði fundist eðlilegt að þeir hefðu gert það á þann hátt að greiða jafnt niður útfararkostnað þann sem þeir stóðu að og þann útfararkostnað sem einkaaðilar sáu um. Og ég held að það fari nú ekki á milli mála að um slíkt hefði verið nokkur sátt í samfélaginu.
    Það sem ég vildi fyrst og fremst undirstrika með því að ræða þessi mál er að það verður hvorki kirkjunni né þinginu til farsældar ef það á að vera árviss atburður á Alþingi að kirkjunni finnst að á hana sé hallað af Alþingi Íslendinga. Það er mjög slæmur kostur að standa frammi fyrir því. Og þess vegna þarf að ná sátt um að það fjármagn, sem tekið er í sköttum og ætlað er til ákveðinna verkefna hjá kirkjunni, sé merkt til þeirra verkefna en menn sitji ekki uppi með stöðugar deilur á milli kirkjunnar og þingsins um það að þingið sé með ósæmilegum hætti að taka fé af kirkjunni og ráðstafa því til annarra hluta en ákveðið hafði verið. Þessu vildi ég koma á framfæri sérstaklega vegna þess að ég skil það svo að hæstv. dómsmrh. hafi verið þeirrar skoðunar á sínum tíma að þannig bæri að standa að málum að hafa frið á milli þingsins og kirkjunnar.