Framleiðsla og sala á búvörum

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 11:40:44 (3697)


     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir að flytja frv. það sem hér liggur fyrir og lögfestir ýmis þau atriði sem nauðsynlegt er að gera í sambandi við framkvæmd búvörusamnings sem gerður var á sl. sumri við mjólkurframleiðendur og Stéttarsamband bænda leggur áherslu á að nái fram að ganga sem allra fyrst.
    Ég skal ekki tefja umræðuna með löngu máli því að ég tel mjög brýnt að þetta nái fram að ganga og ég veit að framsóknarþingmenn munu vilja vinna að því eftir því sem þeir geta. Ég vil þó aðeins láta koma fram fyrirvara við einstök atriði. Þetta er að sjálfsögðu allflókið mál og erfitt á stuttum tíma að gera sér grein fyrir áhrifum allra þeirra og má sérstaklega nefna þar d-lið bráðabirgðaákvæða þar sem fjallað er um að verja megi allt að 175 millj. kr. úr Verðmiðlunarsjóði mjólkur til að standa straum af hluta kostnaðar við niðurgreiðslu á birgðum mjólkurvara sem til staðar verða í árslok 1992. Þar kemur fram í skýringum með þessum lið og reyndar í máli hæstv. landbrh. líka að hér sé um að ræða lántöku sem eigi að endurgreiða á árunum 1994, skilst mér vera. Ég held að það hljóti að vera eðlilegt að það komi skýrt fram í lagatextanum að hér yrði um að ræða endurgreiðslur þannig að það færi ekkert á milli mála. Það væri lögfest þannig að menn væru ekki í vafa um það og ekki væri hægt að skjóta sér undan því.
    Að öðru leyti skal ég ekki tefja tímann nú að ræða þetta mál vegna þess hversu málið er brýnt og vonast til þess að það nái fram að ganga á þann hátt sem hæstv. ráðherra óskaði eftir, með góðu samkomulagi og þá að það yrði tekið tillit til ábendinga sem mönnum sýndist að gætu betur farið.