Húsnæðisstofnun ríkisins

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 12:33:04 (3701)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég hef áður boðað það þegar önnur þingmál voru til meðferðar fyrir nokkru sem tengdust húsnæðismálum að óhjákvæmilegt væri að mínu mati að fá sem allra fyrst á þessu þingi tækifæri til að ræða þann málaflokk ítarlega. Ég fagna því að þetta frv. er loksins komið á dagskrá. Ég hefði garnan kosið að það hefði gerst fyrr og meiri tími hefði gefist til að ræða það því að eins og öllum hv. alþm. er kunnugt er orðið nokkurt annríki á þingi þessa dagana. Ég mun því af þeim sökum stytta mál mitt við 1. umr. málsins, enda er mér tjáð að samkomulag sé um að það fái ítarlega skoðun að aflokinni þessari umræðu í nefnd og frekari skoðun hér á þinginu. Ég vil engu að síður byrja á því að ítreka þá skoðun mína að það sé mjög mikilvægt að tími gefist til þess sem fyrst að fara rækilega yfir stöðu mála í húsnæðismálum.
    Enginn vafi er á því í mínum huga að sá málaflokkur á eftir að verða fyrirferðarmikill á næstu mánuðum af ýmsum ástæðum. Þar eru blikur á lofti og ég held því fyrr, því betra sem menn gera sér grein fyrir því að þar er erfiðleika að vænta og þar þarf að taka á málum. Mér liggur við að segja því miður því auðvitað er ákaflega erfitt og dapurlegt að vera með þennan stóra málaflokk því marki brenndan eins og hefur verið undanfarin ár að með reglubundnu millibili, þriggja, fjögurra til fimm ára fresti, standi menn í stórkostlegum æfingum hvað húsnæðismálin snertir, kerfisbreytingum, greiðsluerfiðleikaaðgerðum skuldbreytingum, afleggja lánaflokka, taka upp nýja breyta á vaxtabótum, taka upp húsnæðisbætur, hætta við þær o.s.frv. Þegar við lítum yfir sögu þessa málaflokks síðustu 10--12 árin frá því um 1980 þá er auðvitað með ólíkindum hvernig þetta hefur tekist til. Ætli kerfin séu ekki orðið þrjú eða fjögur sem menn hafa búið við og jafnmörgum sinnum hafa menn staðið að meiri háttar breytingum á þessum málum með ekki meiri uppskeru eða árangri en þetta.
    Ég ætlaði þess vegna, hæstv. forseti, í tengslum við þetta mál sem tengist stjórnsýsluþætti húsnæðismálanna, skipulagi þeirra, hlutverki Húsnæðisstofnunar ríkisins og fleiri slíku að fara yfir málin dálítið í þessu samhengi. Ég hefði þurft til þess allverulegan tíma og með tilliti til aðstæðna mun ég geyma það að einhverju leyti þangað til við 2. umr. málsins. Ég held nefnilega að ræða eigi um það í tengslum við þetta frv. hvaða hlutverk menn ætla hinu opinbera húsnæðislánakerfi og þar með þessari opinberu stofnun, Húsnæðisstofnun ríkisins. Sums staðar í rökstuðningi með þessu frv. og einnig í skýrslu Hagsýslu ríkisins, sem unnin var fyrir félmrh. um málefni Húsnæðisstofnunar á sl. sumri, glittir í að þau sjónarmið séu jafnvel að verða ofan á að ekkert opinbert húsnæðislánakerfi nema þá einhver angi félagslegra íbúðarlána eigi að verða til og þetta hlutverk eigi að færast alfarið yfir í bankakerfið. Ég held að menn þurfi að fara í gegnum grundvallarumræðu af því tagi í tengslum við þessa áformuðu skipulagsbreytingu á Húsnæðisstofnun.

    Ég hef miklar efasemdir um að það væri farsæl þróun fyrir okkur Íslendinga. Ég held að rétt eins og annars staðar þurfum við að reikna með því að þessari miklu langtímafjárfestingu, sem íbúðarhúsnæði er fyrir flestar fjölskyldur, verði skipað með öðrum hætti en lögmál skammtímalánaviðskipta í bankakerfinu bjóða upp á. Það blasir við þeim sem skoða þessi mál hér á Íslandi að eitt af því sem skilur okkur frá nálægum löndum er skortur á eðlilegri langtímafjármögnun þessarar fjárfestingar í sæmilegu jafnvægi við þarfir kaupenda eða húsbyggjenda. Auðvitað gætir þar enn að nokkru leyti áhrifanna af óðaverðbólgu liðinna ára sem afskrifuðu í raun og veru lán af íbúðarhúsnæði landsmanna að mestu leyti fyrir daga verðtryggingar. Um það bil sem verðtrygging var tekin upp á húsnæðislánum má segja að íbúðarhúsnæði í landinu hafi verið skuldlaust praktískt talað. Það er auðvitað fullkomlega óeðlilegt ástand og gat ekki kallað á annað en mikla erfiðleika þegar menn færu að reyna að byggja upp á nýjan leik eðlilega langtímafjármögnun á þessari fjárfestingu.
    Auðvitað er augljóst öllum að þegar borin eru saman lánsviðskipti, t.d. vegna bílakaupa sem endast í besta falli í um tíu ár eins og framleiðslan er nú orðin, þessar druslur úr næfurþunnu járni sem nú eru framleiddar, þær eru hrynja niður eða grotna sundur á um tíu árum og hins vegar íbúðarhúsnæði sem á að geta enst og verið í fullkominni notkun hundruðum ára saman ef allt er með felldu. Þetta er eins og svart og hvítt. Í raun og veru hefur það verið svo að mönnum hefur gengið illa að gera einhvern umtalsverðan greinarmun á fjármögnun þessara tveggja mismunandi fjárfestinga sem fjölskyldurnar standa frammi fyrir og þetta er auðvitað óeðlilegt. Það sjá allir menn.
    Ekki er talið veita af því þar sem ég þekki til húsnæðismála víða í nálægum löndum að svona frá 40--60% í fjármögnun í íbúðaviðskiptum og kaupum séu bundin langtímafjármögnun sem menn geti nokkuð gengið að í því húsnæðiskerfi sem ráðist með nokkuð öðrum hætti, annaðhvort í formi þess að lánin séu beint á hagstæðari kjörum til lengri tíma o.s.frv. en gengur og gerist í markaðsviðskiptum með skammtímalán ellegar þá með öðrum hætti er stutt við bakið á fólki í þessari fjárfestingu í formi vaxtaniðurgreiðslna eða húsnæðisbóta af einhverju tagi.
    Það glittir í það, hæstv. forseti, eins og ég sagði í umfjöllun um þetta mál að menn séu að láta sér detta það í hug í meira og minna mæli að leggja niður hlutverk Húsnæðisstofnunar ríkisins og vísa þessum málaflokki út á markaðinn í bankakerfið og til annarra sem hafa það að atvinnu að veita mönnum úrlausn varðandi fjármögnun og þá yfirleitt til skemmri tíma litið.
    Ég var nokkuð hissa þegar ég kom höndum yfir þessa skýrslu frá Hagsýslu ríkisins til félmrh. sem var unnin að beiðni ráðherra um möguleika á að hagræða í Húsnæðisstofnun ríkisins. Ekki ætla ég að lasta það að Hagsýslan sé að sinna svona skýrslugerð og gera úttektir á stofnunum en ég átti ákaflega erfitt með að átta mig á því þegar ég fór að lesa betur skýrsluna hvers konar sambland af fræðimennsku og pólitík þessi vinna er. Það úir og grúfir af hreinum pólitískum eða stefnumarkandi fullyrðingum og setningum í skýrslunni sem ég hef ekki átt að venjast að hlutlausar opinberar stofnanir sem fengnar eru til þess að gera hagkvæmnisúttekt eða arðsemisúterikninga eða kannanir af því tagi heldur vera í sínu hlutverki að koma með. Þar eru lagðar til beinar pólitískar aðgerðir og stefnumarkandi hlutir settir fram, fullyrtir eins og ekkert sé sjálfsagðara, og ég mun, hæstv. forseti, við betra tækifæri fara nokkuð yfir þessa skýrslu og ræða hana í tengslum við þetta mál því að það er satt best að segja talsvert af kostulegum fullyrðingum í þessu plaggi. Ég hef átt þess kost á einum fundi sem varamaður í stjórn Húsnæðisstofnunar að ræða þetta mál nokkuð þar, en ég teldi ástæðu til að hv. nefnd, sem fær þetta mál til umfjöllunar, færi dálítið í saumana á þessum þætti og ræddi það hvort t.d. þær fullyrðingar í skýrslu Hagsýslunnar, sem hér standa um ýmis stefnumarkandi atriði í sambandi við húsnæðiskerfið, hlutverk Húsnæðisstofnunar ríkisins o.s.frv. standist í raun. T.d. er fullyrt á bls. 13 í skýrslunni að yfirstjórn Húsnæðisstofnunar leggi áherslu á að eðlilegt sé að auka gjaldtöku stofnunarinnar og draga þannig úr beinum framlögum til rekstrar. Reyndar er ekki útskýrt hvað átt er við með yfirstjórn Húsnæðisstofnunar. Er það stjórnin, er það hæstv. ráðherra, er það ríkisstjórnin eða er það Alþingi? En einu má gilda hver það er. Er þetta einhver mörkuð stefna og hver hefur þá markað hana, þ.e. að halda eigi lengra út á þessa þjónustugjaldabraut, hæstv. félmrh.? Það eru alveg ný tíðindi fyrir mig ef hæstv. félmrh. er kominn í fararbrodd þeirra sem vilja halda lengra út á þessa þjónustugjaldabraut, að menn þurfi að borga fyrir hvert hæti sem þeir fá í þjónustu eða aðstoð frá opinberum stofnunum. Ég ætla að leyfa mér að spyrja hæstv. félmrh. að því pólitískt: Er það svo að hæstv. félmrh. hafi allt í einu skotist í fremstu röð þeirra hæstv. ráðherra sem eru með þetta á heilanum að helst megi ekki byggja upp einhverja opinbera þjónustu eða opinbera starfsemi án þess að menn borgi fyrir það? Það væru heilmikil tíðindi fyrir þá sem hafa talið hæstv. félmrh. standa frekar fyrir eitthvað annað.
    Höfundar skýrslunnar fullyrða að í Hagsýslu ríkisins sé nauðsynlegt að móta markvissa stefnu um frekari tilflutning verkefna til banka og annarra fjármálastofnana. Síðan hvenær fékk Hagsýslan prókúru upp á það að vera með pólitískar fullyrðingar af þessu tagi? Ég verð að segja það alveg eins og er, hæstv. forseti, að það kemur mér mjög á óvart og ég er hissa á mörgu fleiru í þessu uppleggi, fyrir utan gullkorn eins og þau að á bls. 10 í skýrslunni stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þar sem Húsnæðisstofnun virðist eitthvað skorta á upplýsingar á tölvusviðinu er að vera beinskeyttur kaupandi þjónustu.`` Nú bið ég um hjálp. Hvernig er þetta í framkvæmd? Hvað er að vera beinskeyttur kaupandi? Kannski getur hæstv. menntmrh. aðstoðað okkur í þessum skilgreiningarvanda. Ég hélt . . .   (Gripið fram í.) Það þarf einhvern góðan íslenskumann til að útlista þetta fyrir okkur. Eða er einhver

í salnum sem getur komið með löggilta skýringu á því hvað sé að vera beinskeyttur kaupandi?
    Margt fleira er athyglisvert í skýrslunni. Hún er að sjálfsögðu einnig góð að ýmsu leyti og í henni margt athyglisvert. Hún dregur fram upplýsingar sem þörf var á. Svo kem ég að niðurstöðunum og það tengist efni þessa frv. væntanlega þó að það sé að vísu nokkuð vel falið í frv. sjálfu. Niðurstöður í skýrslu Hagsýslu ríkisins eru þær að einkavæða og selja hluta af starfsemi stofnunarinnar eins og er í tísku núna og það á að spara heilmikla peninga að mér er sagt miðað við forsendur núv. fjárlagafrv., gott ef ekki einar 40 millj. eða guð má vita hvað, í rekstri stofnunarinnar á næsta ári sem er reyndar ekki hægt og er tóm della. Menn ættu að fara að átta sig á því að það er ósiður að henda svona skýrslum fram og tillögur í fjárlagafrv. sem eru þess eðlis að það ætti að henda fólkinu út um áramót ef það ætti að vera möguleiki að ná fram þessum sparnaði.
    En annað er mjög sérstakt í þessari tillögu um sparnað, ef það sem vakir aðallega fyrir mönnum er að spara peninga, en það er að leggja á niður, draga úr eða selja þá starfsemi Húsnæðisstofnunar sem hefur verið nokkuð sjálfbjarga, sem hefur skilað sértekjum og að verulegu leyti staðið undir eigin útgjöldum vegna þess að það hefur verið um útselda þætti starfseminnar að ræða. Þetta er furðuleg aðferð við sparnað. Ef menn eru með nokkrar deildir í opinberri stofnun að velja þá þær sem hafa staðið undir eigin rekstrarkostnaði með sértekjum og skera þær alveg. Í hverju felst sá sparnaður? Ég er hræddur um að reiknimeisturum hafi yfirsést það þó að þeir nái brúttóútgjöldum stofnunarinnar eitthvað niður, þá skera þær líka tekjurnar á móti. Ég er ansi hræddur um að sparnaðurinn verði ekki mjög mikill, a.m.k ekki á fyrsta árinu, þegar upp er staðið. Auðvitað er hægt að selja í eitt skipti einhverjar eignir ríkisins. Það er engin speki og það er hægt að lifa á þeim í einhver ár. Það er alveg ljóst að það væri hægt að reyna að koma í verð öllum eignum íslenska ríkisins og lifa á þeim í um tíu ár. En hvar stæðu menn þá? Þeir færu reyndar að leita út fyrir landsteinana eftir kaupendum því að það fé er ekki til innan lands. Ég held að það verði að gera skýran greinarmun á því sem einhver skynsemi er í og skilar einhverjum markmiðum og hinu að rjúka til í einhverju peningahallæri og selja eignir sem verða ekki seldar nema einu sinni. Að vísu var maður á Raufarhöfn sem seldi sama hundinn þrisvar út í skip af því að hann stökk alltaf í land og synti upp á bryggjuna um leið og skipin lögðu frá. Þetta var ágætur bisness en það mun ekki takast með eignir ríkisins. Þær munu ekki synda í land þannig að ríkisstjórnin geti selt þær aftur ár eftir ár. Þess vegna er engin speki fyrir mér að menn geti náð einhverjum aurum út með því að selja einhverjar teikningar eða einkavæða þvottahús Ríkisspítalanna og selja einhverjar þvottavélar o.s.frv. Menn gera það ekki nema einu sinni.
    Hins vegar held ég að það væri þarft að hv. félmn., sem ég treysti til að vinna faglega að þessu máli, færi yfir starfsemi Húsnæðisstofnunar og skoðaði það að gera þar ákveðnar skipulagsbreytingar en ég held að það eigi ekki að vera neinn útgangspunktur í þeirri vinnu að það sé alveg lífsnauðsynlegt að selja einhvern hluta starfseminnar og leggja hana niður. Ég hef verið þeirrar skoðunar um nokkurt árabil að ástæða gæti verið til að endurskipuleggja t.d. hina tæknilegu og faglegu þætti í starfsemi Húsnæðisstofnunar en ég vil ekki leggja þá niður. Það er vitlaust vegna þess að ef Húsnæðisstofnun ríkisins á að sinna hlutverki sínu þarf hún að hafa faglega burði. Hún þarf að þekkja til þessara mála. Hún þarf að vera sjálf dómbær á byggingarkostnað. Hún þarf að geta veitt verktökum, arkitektum og öðrum slíkum aðilum aðhald og það gerir hún ekki ef þessi starfsemi verður öllsömul seld eða rústuð niður. Það er vitlaust. Það er ósiður sem þarf að fara að hætta að tala þannig um allan opinberan rekstur að það sé endilega og sjálfkrafa alltaf af hinu góða að minnka hann. Það er komið úr tísku og hæstv. ríkisstjórn þarf að átta sig á þessu. Hvernig halda menn að ástandið væri hjá Vegagerð ríkisins ef þar væri enginn maður sem hefði vit á vegagerð eða í Flugmálastjórn ef menn þekktu þar ekki stél og tagl á flugvél? Það væri ekki mjög gáfulegt. Auðvitað ekki. Ef opinberar stofnanir eru til á annað borð og eiga að valda sínu hlutverki þurfa þær að hafa faglega burði á sínu sviði. Þær þurfa að hafa sérfrótt fólk og það þarf Húsnæðisstofnun ríkisins líka að gera ef við á annað borð ætlum að byggja á einhverju opinberu lánakerfi og einhverri slíkri þjónustu í þessum efnum.
    Ég held þess vegna að nauðsynlegt sé að taka þetta frv. hæstv. félmrh. til rækilegrar skoðunar. Ég vona satt best að segja að það komi frá hv. félmn. í verulega breyttri mynd. En ég er ekki þar með að segja að ekki eigi að verða neinar breytingar. Ég held að það geti verið þarft að taka þarna dálítið til hendi. Ég hef t.d. verið þeirrar skoðunar að það ætti að efla Húsnæðisstofnun ríkisins hvað varðar rannsóknir og þróunarþátt mála í húsnæðismálum. Ég held að við Íslendingar höfum lagt allt of lítið á okkur í þeim efnum að rannsaka t.d. mögulegar, tæknilegar lausnir í húsbyggingum varðandi aðstæður okkar, loftslag og þarfir okkar hér á Íslandi. Ég tel að Húsnæðisstofnun ríkisins ætti að geta leikið ákveðið hlutverk í þeim efnum. Margir halda því fram að byggingarkostnaður í landinu gæti lækkað stórlega ef menn tækju betur á í þeim efnum og ef þeim aðilum, sem á undanförnum árum hafa verið að þróa ódýrar byggingaraðferðir, væri veittur stuðningur. Ég held að bankakerfið muni ekki gera það. Ég held að Íslandsbanki muni ekki gera það þótt menn afhendi honum stærra hlutverk á sviði húsnæðismála. Ég er alveg viss um það og ég held að það sé miklu nær að einhver opinber stofnun með sæmilega faglega burði sinni þessu verkefni. Það að vísa þeim yfir í húsnæðisnefndir sveitarfélaganna hefur þann stóra galla að það eru þó fyrst og fremst nokkur stærstu sveitarfélög landsins sem gætu sinnt þeim málum vel eðli málsins samkvæmt. Þar með væri verið að gera aðstöðumun sveitarfélaganna miklu meiri í þessum efnum.
    Í 2. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir að félmrh. fái opna heimild til að haga skipulagi Húsnæðisstofnunar að vild eftir eigin geðþótta, hræra þar til deildum og endurskipuleggja starfsmannamálin. Það kann að mega færa nokkur rök fyrir því að það sé að mörgu leyti ekki heppilegt að hafa deildaskiptingu stofnana af þessu tagi rígskorðaða í lögum en að sama skapi ef menn ætla að hverfa frá því að það sé mælt fyrir um í lögum í grófum dráttum meginskipulag svona starfsemi þá er eðlilegt að menn spyrji um áform: Hvað stendur þá til, a.m.k. af hálfu þess hæstv. félmrh. sem nú fer með völd? Ég tel að beinlínis sé skylt að upplýsa Alþingi um það ef áform liggja fyrir um að beita heimildum sem verið er að afla til að endurskipuleggja stofnanir með þeim hætti sem 2. gr. gerir, þ.e. heimilar hæstv. félmrh. Ef maður fer hins vegar yfir frv. og les t.d. umsögn um 2. gr. þá er það ákaflega fátæklegt. Ég ætla að leyfa hv. þm. að heyra, með leyfi forseta, það segir um 2. gr.: ,,Ekki þykir heppilegt að fastsetja með lögum skipulag Húsnæðisstofnunar.`` Það er aðalrökstuðningurinn en það er ekkert sagt um hvað standi til. Samt liggur hér þessi skýrsla frammi eða þyrfti að gera það. Ég veit ekki hvort hæstv. félmrh. hefur látið senda hana þingmönnum en það er auðvitað þarft að gera það, það getur varla verið mikið trúnaðarmál þar sem í gangi eru tillögur um hvað eigi að gera. Þess vegna vakti það mikla undrun mína að í frv. er í rauninni ekkert á þetta minnst, það er látið sem ekkert sé. Að vísu geta glöggir menn áttað sig á því að í forsendum fjárlagafrv. er greinilega gert ráð fyrir að skera verulega niður starfsemi Húsnæðisstofnunar. En frv. sjálft, sem liggur fyrir og á að færa hæstv. félmrh. heimildirnar til að gera þetta, segir nánast ekki neitt um að hvað standi til. Þetta finnst mér óeðlilegur framsetningarmáti, hæstv. forseti.
    Ég vil að það verði skoðað mjög vandlega hvernig að þessum breytingum verður staðið. Ég er ekki tilbúinn til þess að svo stöddu nema að betur athuguðu máli að fallast á breytingarnar sem 3. gr. frv. gerir ráð fyrir á stjórn Húsnæðisstofnunar. Ég tel að það þurfi að huga mjög vandlega að því, ósköp einfaldlega af praktískum ástæðum hvort það er t.d. heppilegt að fulltrúar heildarsamtaka verkalýðshreyfingar í landinu hverfi út úr stjórn Húsnæðisstofnunar. Vegna hvers? Vegna þess að það er ekki öðrum til að dreifa í landinu sem eru nær því að geta kallast umbjóðendur húsbyggjenda og húskaupenda en heildarsamtök launamanna á Íslandi. Ef menn vilja hafa samstarf við sík heildarsamtök um þessi mál, sem ég held að sé skynsamlegt, þá bið ég menn að benda mér á hverjir eru betur til þess fallnir en fulltrúar stærstu samtaka launamanna.
    Nú er búið að slíta tengslin milli fjárútvegunar lífeyrissjóðanna til húsnæðislána og lánsréttar þeirra sem þar eiga í hlut. Þau rofnu tengsl hafa þegar skilað sér í lakari þátttöku lífeyrissjóðanna í fjármögnun byggingarsjóðanna. Hæstv. félmrh. getur e.t.v. upplýst okkur um það hvað mikið vantar upp á að lífeyrissjóðirnir hafi keypt þau bréf af byggingarsjóðunum sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Mér er nær að halda að það hafi fyrir nokkrum dögum legið einhvers staðar á bilinu 1--2 milljarðar króna sem vantar upp á að lífeyrissjóðirnir hafi keypt fyrir það fé sem byggingarsjóðirnir þurftu á að halda. Hvers vegna? Jú, ætli skýringin sé ekki nærtæk og sú að búið er að slíta þau tengsl sem byggð voru upp milli lífeyrissjóðanna og lánakerfisins. Hér á að ganga enn lengra á sömu braut. Hér á að setja út úr stjórn húsnæðisstofnunar fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar og opna eða víkka þessa gjá enn frekar á milli launamanna í landinu og húsnæðismálanna og húsnæðisstjórnar. Ég hef miklar efasemdir um þetta, hæstv. forseti. Ekki vegna þess að það sé ekki hægt að hugsa sér að kjósa fimm snillinga í þessa stjórn á Alþingi. Það er örugglega enginn vandi að finna hæfa einstaklinga til að setja inn í þetta. Ég er hreint út sagt að tala um þetta á þeim praktísku forsendum að ekki er öðrum til að dreifa að mínu mati sem geta kallast fulltrúar hins almenna manns í landinu, og þar með húsbyggjenda eða húskaupenda, en þeir sem tilnefndir eru af heildarsamtökum launafólks.
    Þannig hef ég, hæstv. forseti, ýmsar efasemdir um margt í þessu frv. og er þó ekki byrjaður að tæpa á því sem mér er nú skapi næst að ræða sem er ósköp einfaldlega ástand þessara mála. Það eru afföllin í húsnæðiskerfinu, það eru yfirvofandi greiðsluerfiðleikar þeirra sem tekið hafa lán vegna íbúðarhúsnæðis á undanförnum árum vegna lífskjaraskerðingar í landinu sem er augljóslega fram undan. Öll þau hundruð og allar þær þúsundir manna sem hafa farið í gegnum greiðslumat miðað við tilteknar tekjuforsendur hafa nú orðið að taka á sig minni atvinnu, eru jafnvel í sumum tilvikum orðnir atvinnulausir og munu nú ekki ráða við þær skuldbindingar sem samkvæmt útreikningum og greiðslumati áttu að ganga upp fyrir einu, tveimur, þremur árum. Er þó ónefnt það sem verst er og það eru áform hæstv. ríkisstjórnar um að skerða vaxtabætur. Ég verð að segja alveg eins og er að það eru mér einhver mestu vonbrigði sem ég hef í langan tíma staðið frammi fyrir að núv. hæstv. félmrh. sem þrátt fyrir allt og allt --- og sem ég hef átt talsverð samskipti við um þessi húsnæðismál í gegnum tíðina og ég hef aldrei dregið í efa að hefði góðar taugar í þessum málum --- er nú svo illa komin að hún ætlar að styðja að því með ríkisstjórn að vaxtabætur verði skertar. Ég hefði fyrir einhverjum tíma satt best að segja ekki trúað því að svo ömurleg örlög ættu eftir að ganga yfir hæstv. núv. félmrh. En lengi skal manninn reyna eins og þar stendur.
    Nú liggur fyrir í þinginu og er til umfjöllunar í efh.- og viðskn. --- var reyndar afgreitt út úr þeirri nefnd í nótt, á næturfundi eins og nú tíðkast mjög svo nefndir þingsins neyðast jafnvel til að taka upp þann sið og er ekki til eftirbreytni þó hæstv. ríkisstjórn vinni nú yfirleitt ekki nema á nóttunni eins og kunnugt er. Það eru geysileg ótíðindi að mínu mati að það skuli á næsta ári eða árinu 1994 eiga að skerða vaxtabæturnar þó enn sé það nú eitthvað á reiki hjá hæstv. ríkisstjórn hvernig það skuli gert. Það eru svo mikil brigð við þetta fólk eftir allt sem við það hefur verið sagt á undanförnum árum að það er með ólíkindum. Aftur og aftur hafa menn vísað í vaxabæturnar þegar t.d. vextir á húsnæðislánum hafa verið til umfjöllunar.
    Ég ætla, hæstv. forseti, ekki að fara lengra út í þá sálma að þessu sinni þó hugur minn standi vissulega til þess. Það er auðvitað svo að þegar þetta frv. um skattastefnu ríkisstjórnarinnar kemur til umræðu verður rætt um vaxtabæturnar á húsnæðislán að einhverju leyti. En það hefði að mörgu leyti verið eðlilegra og heppilegra að geta rætt það í tengslum við stöðu húsnæðismálanna almennt eins og þetta frv. býður upp á að gera og verður sjálfsagt gert þegar það kemur á dagskrá aftur, væntanlega einhvern tímann á nýju ári. Ég hef þá í eins stuttu máli og mér er kostur, hæstv. forseti, komið helstu athugasemdum mínum við þetta frv. á framfæri sem ég vildi gera við 1. umr. og vona að hv. félmn. hafi einhverja hliðsjón af því þegar hún fer að skoða málið. Ég endurtek að ég vonast til að sjá, þegar hv. félmn. hefur farið sínum höndum um þetta a.m.k. endurbætta útgáfu frv. koma inn til afgreiðslu.