Húsnæðisstofnun ríkisins

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 13:23:50 (3703)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er eiginlega skaði að fá ekki tíma til að ræða þetta nokkuð ítarlega því að hér fara fram ágætar umræður um húsnæðismál og skipulag þeirra. Þó svo ég og hv. síðasti ræðumaður séum ekki að öllu leyti sammála þá held ég að við gætum haft gott af því að ræða okkar ólíku viðhorf til þessara mála.
    Ég vil í fyrsta lagi segja að ég get verið hjartanlega sammála hv. þm. um að ástandið ætti að vera þannig að allir landsmenn hefðu þannig lífskjör og þannig aðstæður að þeir gætu keypt sér húsnæði án sérstakrar fyrirgreiðslu eða aðstoðar. Það væri best. En það er með það eins og svo margt margt annað sem mætti gjarnan vera einhvern veginn en er það bara ekki. Staðreyndin er sú að þessi fjárfesting er meira og minna að verða ofviða eða illviðráðanleg öllu almennu fólki. Yngri fjölskyldur í landinu eiga í geysilegum erfiðleikum með að komast yfir húsnæði eins og ástand mála er í dag og það hefur orðið stórum erfiðara á allra síðustu árum. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar og hef lengi verið að það sé í öllu falli ótímabært og mér er til efs að það hilli nokkuð undir þann tíma að við getum leyst húsnæðisvanda t.d. ungs fólks, þeirra sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn, með því að vísa þeim út á lánamarkaðinn. Ég sé engin þau teikn á lofti í íslenska bankakerfinu hvað vaxtastigið snertir eða aðrar aðstæður þar að það sé í sjónmáli að bankakerfið geti tekið við þessari langtímafjármögnun stærstu fjárfestingar í lífi venjulegra fjölskyldna, sem íbúðarkaupin eru, á skikkanlegum kjörum. Ég bara sé það ekki. Þess vegna held ég að það þurfi áfram að vera við lýði opinber stuðningur eða opinber fyrirgreiðsla af einhverju tagi sem beinist að þessum hópum og sérstaklega þeim sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn. Ég er ekki sammála, því miður, að málum sé að verða það vel komið á Íslandi að við getum látið okkur nægja eitthvert takmarkað félagslegt íbúðakerfi fyrir þá allra lakast settu í þjóðfélaginu. Því miður er ástandið ekki þannig, og verður að mínu mati ekki næstu 25 árin eða svo eins og horfir í húsnæðismálum okkar. Þess vegna þurfum við að skoða breytingar á Húsnæðisstofnun ríkisins í því ljósi.