Húsnæðisstofnun ríkisins

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 13:28:34 (3705)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hygg við hv. síðasti ræðumaður séum ekki ósammála um það væri miklu heppilegra og skemmtilegra ef málin væru þannig að mönnum stæðu fleiri viðráðanlegir valkostir til boða í þessum húsnæðismálum á Íslandi. Það er auðvitað alveg hárrétt að tryggt leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum er húsnæðiskostur sem er mjög mikilvægt að sé fyrir hendi, m.a. vegna þess að sumt fólk er þannig statt í lífinu að það hefur ekki fest sig niður og þarf að geta leigt sér húsnæði um einhvern tíma á einhverjum stað á landinu o.s.frv. En það er með þetta eins og svo margt annað að við getum á grundvelli ákveðinnar óskhyggju rætt um hlutina eins og við vildum sjá þá vera en svo er bara veruleikinn kaldur og grár, og hann er það í þessum húsnæðismálum. Hér hafa menn byggt á verulegri séreignarstefnu í húsnæði og mönnum getur sýnst sitt hvað um hana, og þar á meðal ræðumanni, á hugmyndafræðilegum grundvelli. En hún er bara staðreynd, hún er það kerfi sem menn hafa búið við. Þó svo ég sé út af fyrir sig alveg sammála um að einhvern hluta þessa húsnæðisvanda eða þessara húsnæðismála sé ugglaust skynsamlegt að reyna að leysa í gegnum breytt félagslegt húsnæðislánakerfi eða íbúðakerfi þar sem jafnvel fleiri eiga kost á að fá úrlausn mála en nú er, þá sé ég ekki annað en að a.m.k. hvað viðskipti á fasteignamarkaði snertir munum við búa að þessari miklu séreign á íbúðarhúsnæði enn um langa framtíð. Við erum þess vegna að þrengja mjög möguleika t.d. ungs fólks ef það á enga færa leið í raun og veru í gegnum fyrstu íbúðarkaup inn á þennan markað. Ég held að sú leið verði ekki gerð fær nema að einhver verulegur stuðningur hins opinbera í formi þátttöku í kostnaðinum eða í formi lánsmöguleika sem eru hagstæðir verði við lýði a.m.k. næstu 25 árin. Ég segi næstu 25 árin vegna þess að það mun taka um 25 ár í viðbót að safna upp eðlilegri langtímafyrirgreiðslu á húsnæði í landinu sem er með veðrými upp á 250--300 milljarða og var meira og minna orðið afskrifað í lok óðaverðbólgutímans.