Húsnæðisstofnun ríkisins

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 13:45:28 (3708)


     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Út af síðustu orðum hæstv. félmrh. vil ég geta þess að ég á ekki von á að þingnefndir starfi í jólaleyfi þingmanna. Ég vil einnig benda á að samkvæmt þessu frv. er fjarri því að þær breytingar sem hér eru lagðar til nái þeim sparnaði sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Hér er einungis talað um 45 millj. kr. sparnað á næsta ári upp í 114 millj. Frv. dugar því ekki til þess.
    Mér kemur á óvart að heyra hæstv. ráðherra lýsa því hér yfir að hann hafi oft átt í mesta basli með að fá upplýsingar frá Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég mun kanna það mál og óska eftir upplýsingum embættismanna um hvort svo hafi verið því ef svo er þá er það auðvitað ámælisvert. Ég tel að embættismenn eigi að veita ráðherra þær upplýsingar sem ráðherrann óskar eftir.
    Varðandi hönnunardeildina þá vil ég segja um skýrslu Hagsýslu ríkisins að það eru ýmsar athugasemdir við hana. Þar er ekki á ferðinni neinn heilagur sannleikur. Því miður eru menn breyskir og ekki síður í Hagsýslunni en annars staðar. Eins og áður hefur verið rakið þá er þessi skýrsla Hagsýslustofnunar líka að nokkru leyti pólitísk skýrsla. Það veikir því vissu leyti grundvöll skýrslunnar hversu pólitísk hún er í eðli sínu. En ég og fleiri höfum ýmsar athugasemdir við útreikninga Hagsýslustofnunar varðandi hönnunardeild.
    Ráðherra gat um að hann bæri ábyrgð á þessum málum. Það er ekki rétt að því marki að hún ber ekki ábyrgð á þeim málum sem húsnæðismálastjórn ber ábyrgð á og ég rakti ítarlega í niðurstöðu Lagastofnunar Háskóla Íslands. M.a. er alveg ljóst að húsnæðismálastjórn hefur ein algert forræði á lánveitingum og endanlegt úrskurðarvald í þeim efnum. Það ætlar hæstv. ráðherra að taka af stjórnina og færa til sín.
    Að lokum var minnst á frv. sem lagt var fram á 113. þingi. Það segir kannski alveg sína sögu um mat manna á því frv. að það varð ekki að lögum.