Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 15:31:23 (3716)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Nú liggja fyrir atvinnuleysistölur nóvembermánaðar sem sýna að atvinnuleysi vex enn í landinu. Samkvæmt upplýsingum vinnumálaskrifstofu félmrn. var skráð atvinnuleysi 3,3% að meðaltali sem samsvarar um 5.000 manns á atvinnuleysisskrá og þessar tölur eru að nálgast ískyggilega þá spá sem Þjóðhagsstofnun gerði fyrr á þessu ári. Mér skilst samkvæmt nýjustu fréttum að spár hennar séu fremur að hækka ef eitthvað er. Hagstofan viðhefur aðrar aðferðir við mat á atvinnuleysi og samkvæmt hennar mati nálgast atvinnuleysi nú 5% eða það sem ríkir í löndum eins og Svíþjóð og Noregi um þessar mundir.
    Það atvinnuleysi, sem nú blasir við okkur, er það mesta sem hér hefur verið skráð og er orðið meira en var á atvinnuleysisárunum 1968--1970 en þá gat fólk flutt til Svíþjóðar og Danmerkur í leit að vinnu en því er ekki að heilsa nú. Við stöndum því frammi fyrir því að glíma við þennan draug og leggja hann að velli. En það vekur athygli, virðulegur forseti, þegar tölurnar eru skoðaðar að atvinnuleysi er alls staðar meira hjá konum en körlum í landinu. Það er sama hvar skoðað er, atvinnuleysi er alls staðar meira meðal kvenna, en það vex þó meira hjá körlum en konum þessa stundina.
    Atvinnuleysi hefur vaxið mest í Reykjavík og á Norðurlandi eystra en samkvæmt nýjustu tölum frá félmrn. hefur atvinnuleysisdögum þar fjölgað um 3.100 á Norðurlandi eystra og við hljótum að spyrja: Hvað er að gerast?

    Samkvæmt tölum frá félmrn. er atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu nú þannig að það er 3,6% meðal kvenna og 2,8% meðal karla eða að meðaltali 3,1%. Á Norðurlandi eystra er atvinnuleysi meðal kvenna 4,2% en 3,7% hjá körlum, eða 3,9% að meðaltali. Á Suðurnesjum ríkir enn mjög alvarlegt ástand en þar er atvinnuleysi kvenna 10,3% en 3% meðal karla eða að meðaltali 5,8%. Á landinu öllu þýðir þetta eins og áður sagði að atvinnuleysi er að meðaltali 3,3%.
    Ríkisstjórnin kynnti í haust aðgerðir til aðstoðar atvinnulífinu og til þess að skapa vinnu í landinu en það bólar lítt á framkvæmdum. Sveitarfélögin ætla að leggja 500 millj. kr. til Atvinnuleysistryggingasjóðs til atvinnusköpunar í sveitarfélögum landsins og ríkisstjórnin hugðist verja um 2 millj. kr. í atvinnuskapandi aðgerðir en samkvæmt þeim fréttum sem borist hafa úr fjárln. hefur nokkuð verið saxað á þessar tölur.
    Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur boðað felast fyrst og fremst í vegalagningu, byggingarvinnu, viðgerðum á húsum ríkisins og það verður að segjast, virðulegi forseti, að þessar aðgerðir miðast fyrst og fremst við karlmenn meðan við stöndum frammi fyrir því að atvinnuleysi er meira í landinu meðal kvenna en karla og því hlýt ég að spyrja hæstv. félmrh.: Eru fyrirhugaðar sértækar aðgerðir til þess að draga úr atvinnuleysi kvenna? Og í öðru lagi: Á að flýta þeim verkefnum á vegum ríkisins sem mega verða til atvinnusköpunar í ljósi nýjustu upplýsinga um atvinnuleysið?
    Þetta er óþolandi ástand sem við stöndum frammi fyrir og það verður að taka á því strax enda blasir það við okkur að haldi svo fram sem horfir munum við standa frammi fyrir stórfelldum félagslegum vandamálum í okkar landi og við megum ekki við því, þau eru næg fyrir. Mér fyndist nær að ríkisstjórnin sneri sér að aðgerðum til að draga úr atvinnuleysinu í stað þess að stunda linnulausar árásir á kjör launafólks í landinu, aðgerðir sem við eigum eftir að ræða hér á næstu dögum. Það er hlutverk ríkisvaldsins á samdráttartímum að halda uppi atvinnu í landinu í stað þess að magna kreppuna og kynda undir vonleysi með endalausu svartnættis- og niðurskurðartali sem á okkur dynur alla daga.
    Virðulegi forseti. Við verðum að snúa vörn í sókn og stöðva þá óheillaþróun sem hér er hafin. Ég get ekki annað en tekið undir það sem fram kom hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún í Reykjavík á fundi þess í gær þar sem þess var krafist að ríkisstjórnin segi af sér. Ég held að það sé þegar til lengdar lætur eina lausnin á þessu máli að við losnum við þessa vondu ríkisstjórn.