Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 15:59:46 (3725)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég álít að ekki þurfi að leggjast í kannanir og rannsóknir. Atvinnufyrirtækin þurfa að fá grundvöll og það verður að skapa hér atvinnu. Það er athyglisvert við þessa umræðu, hæstv. forseti, að forsrh., ábyrgðarmaður þessarar ríkisstjórnar, situr ekki hér í sæti sínu. Enginn af ráðherrum Sjálfstfl. er hér í sæti sínu. Það eru örfáir af þingmönnum stjórnarliðsins hér við þessa umræðu. Er þetta tilfinningin gagnvart því alvarlegasta vandamáli sem nú blasir við Íslendingum, þeim áhyggjum sem þúsundir fjölskyldna bera nú rétt fyrir jólahátíðina? Það er kannski dæmi þess að í stað þess að snúa sér að því að leysa og skapa atvinnu þá hefur þessi ríkisstjórn ákveðið að taka hvorki meira né minna en 4 þús. milljónir í erlendum lánum til að loka fyrirtækjum fyrir eilífð, leggja byggðir í eyði, leggja fiskvinnsluhús í eyði og að þar verði aldrei unninn fiskur eða ærlegt handtak framar. Þetta er hin göfuga stefna sem við búum við.
    Þessi ríkisstjórn hefur brugðist. Hún situr núna í rugluðum áformum við að leggja nýja skatta og skyldur á þegna þessa þjóðfélags sem gerir það að verkum að atvinnuleysið mun margfaldast. Ég treysti því að margir hv. þm. stjórnarliðsins séu að verða tilbúnir í það að standa að vantrausti á þessa ríkisstjórn sem nú situr.