Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 16:04:43 (3727)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegur forseti. Þessi umræða sem hér hefur farið fram speglar þann mikla óróa sem kominn er af stað úti í þjóðfélaginu og þær þungu áhyggjur sem þingmenn hafa af þessu ástandi en það er reyndar ekki að heyra hér af stjórnarliðinu. Það er margt góðra gjalda vert af því sem ríkisstjórnin hyggst gera til að draga úr atvinnuleysi en þetta eru allt saman hugmyndir og áætlanir sem munu skila sér á löngum tíma. Út af fyrir sig gott að menn hugsi til lengri tíma og komi upp námskeiðum en það gefur auga leið að ríkisstjórnin reiknar með því að atvinnuleysið verði viðvarandi. Þessar hugmyndir spegla það að reiknað er með að atvinnuleysið verði viðvarandi. Það sem við okkur blasir er það hvað á að gera nú? Hvað er hægt að gera núna til að draga strax úr atvinnuleysinu? Ég held að ríkisstjórnin þurfi að hugleiða það í alvöru að skoða það gamla ráð sem gripið var til hér á kreppuárunum að koma á fót atvinnubótavinnu. Það eru næg verkefni, það þarf ekki að grípa til óarðbærra verkefna, það er af nógu að taka hér af ýmiss konar samfélagsþjónustu og öðru sem hægt er að gera þjóðfélaginu til hagsbóta. Ég skora á hæstv. félmrh. að hugleiða þetta mjög alvarlega og koma með tillögur af þessu tagi.
    En það er rétt sem hér hefur komið fram og ég nefndi hér í upphafi þessarar umræðu að það er fyrst og fremst stjórnarstefnan og aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem hafa komið þjóðinni í þennan vanda. Eina lausnin á þeim vanda er að hún segi af sér og að hér verði breytt um stefnu. Þessi samdráttar- og niðurskurðarstefna magnar kreppuna. Það er hlutverk ríkisins að halda uppi atvinnustiginu í landinu á slíkum samdráttartímum en ekki að bæta á með aðgerðum af því tagi sem við erum að horfa upp á þessa dagana.