Fjáraukalög 1992

85. fundur
Fimmtudaginn 17. desember 1992, kl. 16:11:07 (3730)

     Frsm. minni hluta fjárln. (Guðmundur Bjarnason) (frh.) :
    Hæstv. forseti. Ég var nokkuð langt kominn í ræðu minni þegar hlé var gert á umræðu um dagskrármálið áðan. Það sem ég átti einkum eftir að fjalla um var að hluta til skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga til septemberloka 1992 sem kom út og var dreift til hv. þm. í nóvembermánuði sl.
    Það að ég skuli vilja ræða örlítið um efni þeirrar skýrslu tengt umræðum um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1992 er vegna þess að í upphafi máls míns áðan gat ég þess að staða ríkissjóðs væri svo slæm sem raun ber vitni m.a. vegna þess að menn vildu ekki horfast í augu við staðreyndir mála í upphafi þessa árs eða við afgreiðslu fjárlaga fyrir ári síðan. Þá gerði stjórnarandstaðan grein fyrir því að það væru svo veigamiklir þættir í frv. þá og fjárlögum þessa árs sem gætu vart staðist að það mundi blasa við að hallinn yrði verulegur þegar liði á árið.
    Þá héldu hv. stjórnarliðar og hæstv. fjmrh. því að sjálfsögðu fram að þetta væri besta og traustasta fjárlagafrv. sem hefði nokkru sinni komið fram og nú yrði breyting á frá því sem áður hafði verið. Það væri ekki hætt við því að menn stæðu uppi með verulega miklu meiri halla á þessu ári en fjárlögin gerðu ráð fyrir en raunin er nú nokkuð önnur, m.a. vegna þess að þær tillögur og hugmyndir sem settar voru fram hafa ekki náðst.
    Þá kem ég að skýrslu Ríkisendurskoðunar sem í einum kaflanum reynir að meta árangur af sparnaðaraðgerðum í ríkisfjármálum á þessu ári. Þar tel ég að m.a. sé rökstuðning að finna við það sem ég hef verið að halda fram nú og við stjórnarandstæðingar héldum mjög ákveðið fram fyrir ári síðan. Þar ræddum við um að þessar áætlanir mundu ekki standast. Í skýrslunni segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1992 var að því stefnt að lækka útgjöld A-hluta ríkissjóðs um 5,5 milljarða kr. Það svarar til 5% raunlækkunar útgjalda miðað við rekstrarumfang ríkissjóðs á árinu 1991.
    Miðað við rekstrarumfang A-hluta ríkissjóðs á árinu 1991 má áætla að lækkun útgjalda skiptist í grófum dráttum þannig á árinu 1992 eftir tegundum útgjalda:
    Laun og rekstrarútgjöld 3 milljarðar, tilfærslur 2,5 milljarðar, fjárfesting 500 millj. Samtals til lækkunar 6 milljarðar kr.
    Viðhaldskostnaður 500 millj. Samtals til hækkunar 500 millj. kr.
    Nettóbreyting útgjalda 5,5 milljarðar.``
    Lauslegt mat Ríkisendurskoðunar á þeim sparnaði sem náðst hefur á fyrstu níu mánuðum ársins 1992 bendir til að útgjöld A-hluta ríkissjóðs til loka septembermánaðar ársins 1992 hafi dregist saman að raunvirði um 1,9 milljarða kr. miðað við sama tímabil ársins 1991. Samdrátturinn skiptist þannig:
    Rekstrarútgjöld og tilfærslur hafa dregist saman um 1,2 milljarða, vaxtagjöld um 950 millj., eignakaup um 900 millj. Samtals til lækkunar eru þetta 3 milljarðar 50 millj. kr. Tilfærslur hafa hins vegar hækkað um 1 milljarð 150 millj. og samtals breyting er þá 1,9 milljarðar kr.
    Hér lýkur tilvitnun í þennan kafla úr skýrslu Ríkisendurskoðunar sem ber yfirskriftina ,,Mat á árangri sparnaðaraðgerða í ríkisfjármálum árið 1992.
    Nú ætla ég ekki að gera lítið út því að allnokkuð hefur tekist að lækka ríkisútgjöld. Hér segir: Rekstrarútgjöld og tilfærslur um 1,2 milljarða kr. Hins vegar hefur tapast út af því aftur í tilfellum ýmiss konar 1 milljarður 150 millj. Nettó er þá sparnaðurinn 50 millj. Það sem hefur sparast er hins vegar í megindráttum, þ.e. það sem byggir upp þessa tæpu 2 milljarða, eða 1.900 millj., sem Ríkisendurskoðun gerði grein fyrir er að fjárfestingar hafa dregist saman, eða eignakaup, um 900 millj. sem var ráðgert að spara 500 millj. kr. samkvæmt þessari úttekt Ríkisendurskoðunar og vaxtagjöldin hafa lækkað verulega, um 950 millj. Þar er í raun nettósparnaðurinn sem Ríkisendurskoðun kemst að niðurstöðu um að hafi náðst á árinu.
    Þetta vildi ég aðeins nefna hér, hæstv. forseti, og láta koma fram til þess að rökstyðja þann málflutning sem við höfum haft uppi og ítreka aftur að ég geri ekki lítið úr því að ákveðnir áfangar hafa náðst í þessu aðhaldi. Menn hafa náð áföngum.
    Ég vil hins vegar gera athugasemd við það, eins og ég gerði við 2. umr. um fjárlög fyrir árið 1993, að ég held að menn verði að meta það og velta því fyrir sér hvað gerist við þennan sparnað. Hvar hafa menn náð sparnaðinum og hverjar verða afleiðingar hans? Ef hægt er að spara í útgjöldum ríkisins á þann

hátt að við veitum þrátt fyrir það nokkurn veginn sömu þjónustu og við ætluðum okkur áður og teljum nauðsynlegt eða viljum veita og teljum að sparnaðurinn leiði ekki til annarra og alvarlegri afleiðinga til lengri tíma litið, þá væri þetta í lagi. Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að við eigum eftir að horfast í augu við ýmis vandamál þessu samfara. Það er út af fyrir sig áhyggjuefni og segir okkur að það er ekki auðvelt verkefni sem hér er reynt að takast á við þó það sé að sjálfsögðu mikilvægt, en það verður að hafa heildaryfirsýn þegar lagt er í svona aðgerðir og það óttast ég að þessi hæstv. ríkisstjórn og ráðherrar hennar hafi ekki.
    Hér var rétt að ljúka umræðum utan dagskrár um atvinnumál, atvinnuástandið og atvinnuleysið. Þar voru auðvitað dregnar fram m.a. afleiðingar af þeirri stjórnarstefnu sem ríkir á þessu ári og hefur leitt til þess að atvinnuleysi hefur stóraukist. Það hefur auðvitað kallað á bein útgjöld ríkissjóðs. Ég óttast líka að sparnaðurinn í menntakerfinu og heilbrigðisþjónustunni eigi eftir að hafa afleiðingar til lengri tíma litið sem erfitt er og kannski útilokað að meta í dag. Niðurskurður til menntamála mun leiða til þess að við veitum ekki sömu þjónustu á því sviði og við höfum gert. Það kemur í ljós að niðurskurður á fjárframlögum til Lánasjóðs ísl. námsmanna og breytingar á úthlutunarreglum hans hafa leitt til þess að ungu fólki í háskóla- eða langskólanámi hefur verulega fækkað. Ég hef einnig nýlega farið yfir það að sá niðurskurður sem hefur átt sér stað á fjárframlögum til heilbrigðismála hefur m.a. leitt til þess að biðlistar eftir ýmsum aðgerðum hafa lengst. Þá eru ótalin þau vandamál sem ekki eru á yfirborðinu en kunna að koma fram síðar.
    Ég ætla að fara að láta hér staðar numið, hæstv. forseti en langar þó að koma að einu máli, óskyldu því sem ég hef verið að ræða nú síðast, sem tengist því að þegar við afgreiddum fjáraukalög fyrir árið 1991 2. des. á síðasta ári voru gerðar smávægilegar breytingar á framlögum til ýmissa orkumála. Þau voru hækkuð þannig að hægt væri fella niður skuld ákveðinnar hitaveitu við ríkissjóð. Þá var talið að sú hitaveita byggi við þær aðstæður að það væri eðlilegt að hennar mál væru tekin þannig út fyrir ramma, ef má orða það svo, og leyst á sérstakan hátt. Við þetta vildu sumir ekki una og töldu nauðsynlegt að skoða það hvort ekki væri svipað ástatt með fleiri veitur eða hvort sérstök rök væru fyrir því að afgreiða málefni þessarar hitaveitu á þann hátt sem þá var gert.
    Í bréfi sem hv. fjárln. hefur fengið frá Ríkisendurskoðun kemur fram að þarna muni vera svipað ástatt með nokkrar dreifbýlisveitur. Líklega búa einar 10 veitur eða svo við mjög svipaðar aðstæður og hafa gengið frá sínum málum gagnvart ríkissjóði á svipaðan hátt. Þessar skuldir við ríkissjóð hafa orðið til þannig að ríkissjóður hefur lánað hluta af aðflutningsgjöldum aðveituæða og dreifikerfis. Ef þessar 10 veitur eru teknar sérstaklega og skoðaðar, þá eru skuldirnar við ríkissjóð um 18 millj. kr. Við höfum hug á því nokkrir hv. þm. að kanna hvort ekki sé hægt að meðhöndla málefni þessara hitaveitna með svipuðum hætti og gert var í fyrra. Mér er kunnugt um að málið mun hafa verið til umræðu hjá þingflokkum stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar en ekki er enn þá ljóst um niðurstöðu málsins.
    Ég vildi nefna þetta við 2. umr. því að það er ekki ólíklegt að ef við fáum ekki einhver viðbrögð við þessu verði flutt brtt. við 3. umr. um fjáraukalög varðandi þetta mál. Einnig mætti hugsa sér að það yrði tekið til skoðunar við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1993.